Röskun og skátar! Í sitthvoru lagi þó…

Ég er orðin frekar smeyk. Mig grunar að gaurinn sem ég er gift með, sé með röskun. Hann er alltaf e-ð að láta mig raða… og taka til… og setur út á hvernig ég t.d. brýt handklæðin saman.

Á meðan ég stóð löðursveitt og bjó til dýrindiskvöldmat í dag byrjaði hann að tuða… hann fór að tuða yfir skipulaginu í neðstu hillunni í einum skápnum. Áður en ég held áfram, vil ég benda ykkur á, að það er ekki á hverjum degi sem þið fáið að sjá inní skápana hjá mér… svo metið myndirnar mikils. Og áður en ég held enn lengra þá vil ég fá að útskýra sjálfa mig. Ég er einstaklega óhæfur skápaskipuleggjari, á hluti úr öllum áttum (nennti ekki að halda brúðkaupsveislu) og það skiptir mig akkúrat engu máli hvort ég borða af disk úr Ikea, Kosta Boda eða úr Rauða krossbúð.

IMG_5581

Eiginmaðurinn með líklega röskun benti mér á eftirfarandi atriði:

  • að ef glösin væru í sléttritölu þá ættu þau ALLTAF að vera 2 og 2 saman… Ef eitt væri stakt, þá ætti það ALLTAF að vera fremst.
  • hvíti diskurinn ætti ekki að vera til, en fyrst hann er þarna VERÐUR hann að vera neðstur eða efstur… punktur!
  • þar sem hvítu diskarnir eru í misjafnri stærð, EIGA þeir minni að vera ofan á þeim stærri… MIKILVÆGT!

Hann fór síðan hamförum og LAGAÐI skipulagið…

IMG_5585

Og sagði síðan: „held þú ættir síðan að taka til í efri hillunni á morgun þar sem þú ert í nokkurnvegin fríi… það er ekki hægt að hafa þetta svona alltútum allt!“

Ég leit upp í hilluna og hugsaði: „allt útum allt???…“

Já, svei mér þá, ef sá gamli er ekki bara komin með snert af áráttu- og þráhyggjuröskun (OCD). Hann er samt ekki ílla haldin því honum er líka alveg sama, eins og mér, hvernig maður kreystir úr tannkremstúpunni… það er nefnilega til fólk sem meikar ekki ef maður byrjar að kreista fremst! Það er sjúkt!

http://www.dreamstime.com/royalty-free-stock-photos-closeup-hands-squeezing-toothpaste-brush-image26999958

Þetta er ég, veltilhöfð að fara að sofa… (myndin er tekin af netinu)

Síðan að allt öðru… nú er komið í ljós að það á að loka hjúkrunarfræðiskólanum hér í bæ og flytja hann 30km norðar, s.s. til Aabenraa. Þorri bæjarbúa syrgir missinn og sérstaklega í ljósi þess að bærinn er nýlega búin að tapa sjúkrahússtríðinu og liðsforingjaskólastríðinu. Í fréttum dagsins var tilkynnt að Sönderborg fengi plástur á blæðandi sárið… 2ja vikna SKÁTAMÓT með 40 þúsund skátum næsta sumar. 40.000 sem lykta af báli og klæðast ljótustu búningum í heimi. Jesús Kr.! Er það plástur? Ég myndi frekar kalla það e-ð annað… bakteríu? Nei það er of ljótt… það eru víst hellingur af krökkum í þessu… þeim getur maður ekki líkt við bakteríur. Kannski salt? Það er ekki nóg… hvað með chili? Það er fínt, það er frekar vont að fá chili í blæðandi sár.

Ég hef svosem ekkert verið að auglýsa skoðun mína á skátum í gegnum tíðina… eiginlega bara haldið henni að mestu fyrir sjálfa mig. Nema kannski þegar mér blöskraði hegðun skátahópsins hérna um árið… þegar þau fóru í bindingarleik og týndu barni í kjölfarið… (klikkið og gamla færslan er á bak við) 

Ég hef líka orðið fyrir barðinu á þeim í Kastrup fyrir nokkrum sumrum… ég endaði í dái í terminal 1! (Klikkið og það er gömul mynd á bakvið). Og til útskýringar, þá eru skátar ekki til neins… þeir vinna engin hjálparstörf og eru bara að kveikja bál og binda hnúta.

IMG_1361_2

 

(myndin er tekin af netinu)

Þannig að ég er bara allsekki hrifin af að fá 40 þúsund ílla lyktandi og ílla stíliseraða skáta í minn bæ! Get ekki séð neitt jákvætt við þetta. Við eigum ekki einu sinni eftir að græða á þeim… þeir taka allir með sér nesti og kúka í box. Þeir ganga allt og sofa útá túni. Við fáum NÚLL krónur! Síðan pakka þeir saman og fara en skilja eftir sig ský yfir Sönderborg… svona náttúrumanneskjur fara ekki í bað á meðan á mótinu stendur… í 2 vikur! Vona að bæði Guð og Jesús Kr. eigi eftir að hjálpa mér.

 

Trackbacks & Pings

  • Árið 2014 « Alrunarblogg :

    […] Ein af bullfærslum síðasta árs sem fékk ágætis lesningu, var færslan um veikleika Gamla Gaurs og hvernig hann vill raða í skápana… Í þeirri færslu var einnig um áfallið sem ég varð fyrir þegar ég frétti að það væru væntanlegir 40 þús. skátar í bæinn okkar. […]

    9 ár ago

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *