Vigtin í dag

Hef ég einhverntíman sagt ykkur hversu skemmtileg vinnan mín er? Eiginlega gerist e-ð markvert á hverjum degi á gjörinu. Í dag var ég vigtuð. Þegar ég sá gamla góða vigtunarstólinn á miðjum ganginum stóðst ég ekki mátið eftir lífsreynsluna á hjólinu hennar Svölu í fyrradag, þar sem hnakkurinn bara hvarf!

Ég afklæddi mig eins og mögulegt var…

2014-05-08 11.25.01

…tæmdi vasana því varasalvi, tyggjó, kúlupenni og 2 bréfsnepplar þyngja óþarflega mikið. Og síðan settist ég og Lisbeth hin þriðja (það eru 4 stk Lisbeth í vinnunni) vigtaði mig fagmennskulega. Minnti mig á að sitja kjurr og ekki snerta gólfið. Ég gegndi og þagði líka. Því að vigta á fornaldar vigtunarstólnum okkar krefst einbeitningar og natni. En hann virkar! Og okkur þykir lúmskulega vænt um hann og höfum ekki í hyggju að skipta honum út. En þið skuluð ekki halda að deildin okkar sé einhver moldarkofi þótt stóllinn sé árgerð 1864… ó nei, við erum með splunkunýjar rúður í gluggunum, B&O hljómflutningsgræjur og 64″ flatskjái fyrir hvern sjúkling, tiltölulegar nýjar lyfja og vökvadælur, ágætlega nýja mónitoringssskjái, hátækni rúmhjól, svarta lúxusleðurstóla fyrir stærri rassa, furix (vatnslosandi töflur) í nýjum umbúðum, nýjar tölvur við hliðina á hverju rúmmi, væntanlegan skynfæragarð og margt annað mjög spennandi. Já, við höfum það þrælskemmtilegt í vinnunni.

Alveg rétt, Lisbeth var að vigta mig… loks kom talan… og ég rak upp fagnaðaróp, stökk af stólnum og hljóp upp og niður ganginn eins og fótboltamenn fagna marki. Svo glöð varð ég með niðurstöðuna. Áhorfendur spurðu hvort ég hefði lést? Nei nei, alls ekki, bara sama talan og undanfarin ár. Er bara svo ánægð með þessa tölu þótt það sé nær ómögulegt að muna hana því hún endar á ,5.

Ég er fædd písl og sem krakki og unglingur var ég alltaf mjög grönn. Fyrir 16 árum og 16 kg voru gráðugu dætur mínar næstum búnar að sjúga mig upp til agna því mér fannst brjóstagjöfin einstaklega skemmtileg og dýrmæt og var með þær í samtals 20 mánuði á brjósti. Ég var hraust þrátt fyrir lítið sem ekkert spik (get svo svarið það, varð varla misdægurt) og ósköp sátt við lífið og tilveruna með litlu gullmolunum mínum. En ættingjar, vinir og fólk útí bæ var ekki sátt við holdafarið mitt og fékk ég að heyra það frá því ég var krakki og þar til fram að þrítugu. Setningar eins og þessar klyngdu í eyrunum á mér árum saman:

  • þú ert ógeðslega horuð
  • þú ert eins og beinagrind
  • éturðu ekkert?
  • afhverju drekkurðu ekki rjóma?
  • ertu með anorexíu?
  • þú ættir að fara til læknis, þú ert örugglega með anorexíu…

Ég bara brosti og reyndi stundum að malda e-ð í móinn, t.d. að ég hefði þetta frá föðurfjölskyldunni. Orðið sjálfsstjórn og sjálfsagi var varla til í mínum orðaforða og vissi ég því ekki einu sinni hvað anorexía raunverulega var, og greinilega ekki heldur fólkið sem sagði þetta. En guð minn góður hvað ég hataði þessar athugasemdir. Hataði þær svo innilega því þær sviðu. Og mikið var ég ósátt við vigtina því umhverfið sagði mér í rauninni að vera það.

Ég drakk rjóma, smurði þykku lagi af smjöri á allt og gekk meira að segja svo langt að drekka herbalife og nupo sem matarauka. Jú, þá gerðist e-ð… verð víst að viðurkenna það þrátt fyrir lítið álit á herbalife svona almennt. Síðan kom aldurinn… eins og ég hef áður ymprað á.

Og facebook kom líka með aldrinum… með öllum mögulegum myndum, tilvitnunum og bröndurum.

Þetta er líklega eitt það dónalegasta og mest niðrandi sem ég hef séð á facebook.

1346604385975_4124333

Og ég sé hana enn reglulega. (Þetta þýðir: Alvöru menn vilja búttaðar konur, aðeins hundar vilja beinin…). Svona mynd særir! Ég vona að ég sjái hana aldrei aftur.

Ég meinti það 100% þegar ég fagnaði vigtinni minni í dag… Þrátt fyrir að magaskinnið hafi skollið í andlitinu á Afríkumanni í heitum potti og þrátt fyrir að ég líti út eins og uppreyrð rúllupysla á myndum sem ég pósta af sjálfri mér.

1897755_10203695707011136_2675674142609218028_n

Mér finnst ekki skipta máli hvort BMI-ið sé 17 eða 27, svo framarlega að líkaminn sé hraustur, heilbrigður og að maður borði með góðri samvisku.

Ég fór beint inn á kaffistofu í dag og hélt uppá kílóin mín…

2014-05-08 13.16.42

Þetta var nú meiri fögnuðurinn… gleðilega helgi.

 

 

Trackbacks & Pings

  • Árið 2014 « Alrunarblogg :

    […] fékk alveg nóg af dónalegri mynd sem hafði flórerað á facebook í marga mánuði. Og bloggaði um hana og vigtina þann […]

    9 ár ago

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *