Alrúnarbloggið 10 ára…

Hver hefði trúað því upp á mig??? Að ég entist í einhverju í 10 ár? Ég sem þjáist af einbeitningarskorti, áhrifagirni, dellum og leiða á sama fyrirbærinu eftir vissan tíma.

IMG_6819

10. maí 2004 er fyrsta færslan skráð… 10 kerti í tilefni dagsins. 2004 -ég var bara krakki þá! Hugsið ykkur. Ég ákvað í tilefni dagsins í dag að blogga e-ð hrikalega gott. Fór því útí rigninguna til að slá grasið og upphugsa hugmynd. En hefði betur ekki gert það því það ringdi svo mikið oní hausinn á mér og ég er ekki þykkhærð, þannig að það fór allt á flot fyrir ofan háls. Hugsanirnar fóru bara á kaf og hugmyndaframleiðslan drukknaði í rigningarvatninu. En býst samt við að hægt verði að blása lífi í hana… verð eiginlega lífga hana við því bloggið er mitt skúmaskot sem ég get horfið inn í stutta stund í einu, bæði þegar ég er í góðu skapi og hlæ að minni eigin fyndni, en einnig þegar tilveran snýr á hvolfi og mig langar allra helst til tunglsins í ca. 2 daga. Þessvegna ætla ég að beita bæði hjartahnoði og munnblæstri á hugmyndaframleiðsluna til að gangsetja hana aftur. Eða toga af öllum kröftum í spotta eins og snjósleðarnir voru settir í gang í gamla daga.

Á meðan það er einum of mikið rigningarvatn í höfðinu á mér ætlum við bloggið bara að halda upp á afmælið með Led Zeppelin lagi sem við elskum bæði.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *