Pabbi kom í heimsókn

Pabbi minn kom til okkar í heimsókn um daginn. Fyrir þau ykkar sem ekki þekkið mig vel, þá á ég tvo pabba, heppna gellan ég og er þetta sá sem hefur alið mig upp, eða hefði átt að gera það myndu einhverjir kannski hugsa (var víst eitthvað baldin samkvæmt kennurunum á Eiðum í denn). Þetta er allavega sá sem að kenndi mér að keyra með aðra hönd á stýri og þæfa snjóskaflana. Hann kom í gegnum Kastrup, sem getur verið viss áskorun þegar maður er ekki að fara í gegnum stóra alþjóðaflugvelli reglulega. Hann var þó svo lánsamur að það var einhver Ásta (?) sem var að fara á námskeið á Fjóni og sá að hann var orðin ringlaður í allri þessari kaos og kom honum til bjargar. Pabbi vill meina að hann væri þarna ennþá ef hún hefði ekki leitt hann í gegn. Eins og þið vitið, þá er Kastrup harla ólíkur Egilsstaðaflugvelli. Semsagt, þakkarkveðjur til Ástu (hélt pabbi að hún hefði heitið) sem var að fljúga með Wow 13. sept. ef þið þekkið hana.

Þegar pabbi mætti á svæðið, var ég í Noregi og kom ekki heim fyrr en daginn eftir, en það kom ekki að sök, heimilisfaðirinn steikti svartar handsprengjukjötbollur sem runnu niður í pabba sem fór síðan að sofa. Og það var engin smá svefn. 17 tímar fyrsta sólarhringinn, 16 þann næsta, 15 þann þriðja og þá hætti ég að spá í það. Pabbi greindist með lungnakrabbamein í mars síðastliðnum og er búin að vera í lyfjameðferðum síðan. Þetta ferli er búið að vera mjög erfitt og slítandi og því ósköp eðlilegt að þreytan segi til sín. IMG_9194Og ekki var verra að bæta nokkrum korterum við svefninn í hengisófanum okkar í brakandi blíðunni.

En heimsóknin var samt ekki eintómur svefn, nei aldeilis ekki. Heldur var farið í göngutúra og umhverfið skoðað.

IMG_9190Þarna erum við í Mölleparken, margumbloggaða tónleikasvæðinu okkar.

IMG_9165

Hafnarsvæðið sem er í örri þróun, var tekið út. Ein og ein saga úr gömlu Eiðaþinghánni slæddist með.

IMG_9156

Stundum voru orð óþörf og bara notið þess að horfa á útsýnið eða marglitturnar.

IMG_9308

Oft var farið í skóginn.IMG_9181Eða fræðst um söguna, t.d. um Christian konung annan sem var fangelsaður í Sönderborg frá 1532-49.

IMG_9186

Veðrið lék við gestinn og því gat líka verið notalegt að vera bara heima og slappa af.

IMG_9317

Eða skoða eik … mjög stóra eik. Það næst bara brot af henni á mynd. Okkur langar að vigta hana.

IMG_9179

Einu sinni fóru þeir gaurar tveir einir í nýju verslunarmiðstöðina og fengu sér ís. Ótrúlegt en satt, þá fóru þeir ekki inn í neina einustu búð! Enda vantar þeim ekki neitt, segja þeir. Þessi mynd er að sjálfsögðu ekki tekin inn í verslunarmiðstöðinni, enda þeir ekki að taka sjálfsmyndir í sínum einkaferðum.

IMG_9272

Þarna er pabbi hjá fljótandi Hollensku bíblíusafni – Örkinni hans Nóa. Við fórum ekki inn því þetta er einn ranghali, stigar út um allt og óþægilegt loft. Í staðin fórum við út að borða á Ítölskum veitingastað sem áður var hesthús og hestasláturhús (1875). Talandi um að borða, þá er pabbi einn sá skemmtilegasti að hafa í mat. Honum finnst allt gott og borðar mikið af því. Alveg sama hvort borið var á borð ókryddað sullumlasagna ala Jónsson, framandi fiskisúpa, rúgbrauð og köld mjólkursúpa, tælenskt með rauðu karrypasta, heimatilbúnir hollustuhamborgarar eða e-ð allt annað. Allt var gott. Hann og tengdasonurinn (Schumacher) myndu éta okkur út á gaddinn til lengri tíma ef þeir rottuðu sig saman.

Stundum voru gamlir tímar rifjaðir upp, og í einni endurminningunni var blóðgrautnum skellt á borðið. Ekki í alvörunni heldur sá ég hann bara ljóslifandi fyrir mér. Pabbi hélt því fram að þetta hefði bara verið blóð og örlítið hveiti. Ekkert krydd. Heitur. Svolítið þykkur, enda grautur. Blóðrauður. Lekandi niður hökuna á heimilisfólkinu. IMG_9335

Svala missti af blóðgrautssögunni, því miður. Hún hefði haft gott af að heyra að lífið hafi áður fyrr verið annað en McDonalds og Pepsi Max. Þau tvö lögðu aftur á móti undir sig efri hæðina … svefnpurkur heimilisins … sem hrutu í kór.

IMG_9310 Já skógarferðirnar urðu það margar að ég týndi tölunni. Myndavélin var ekki alltaf með, né símar, svo allar skógarmyndirnar í þessari færslu eru úr sömu ferðinni. Við fórum líka á ströndina en því miður voru öll myndavélatæki eftir heima líka þá. Hefði verið gaman að taka mynd af gamla syndandi innan um höfrungana. Nei ok, er að ýkja … mjög mikið!

IMG_9170

Þetta er næst uppáhaldsmyndin mín. Kannski ratar hún á Instagrammið mitt.

IMG_9315

Þetta er uppáhaldsmyndin mín. Þarna vorum við að skoða fornminjar frá því 1800 fyrir Krist. Pabbi hafði brekkuna af og gat því barið staðinn „minn“ í skóginum augum. Þessir hólar eru höfðingjagrafir frá bronsöld og þarna kemur aldrei nokkur maður nema ég og Vaskur (sem er ekki maður heldur hundur). En pabbi var seigur að fara þetta.

IMG_9338

Miðvikudagskvöldið síðasta, skutlaði ég honum norðvestur í land og tókum við „Sinalco“ með. Ég hef gaman af því þegar pabbi kallar alla útlenska appelsínugosdrykki Sinalco. Í gamla daga drakk hann mikið Sinalco og ég man eftir tómum flöskum í traktorunum og vörubílnum á sumrin. Eru ekki allir lesendur örugglega með á hreinu hvaða drykkur þetta er? Hann er þýskur og var fyrst settur á markaðinn árið 1902. Það hljóta allir að vita hvað Sinalco er!

IMG_9333

Það var erfitt að kveðja pabba, það þurfti svolítið að bíta á jaxlinn þarna norðvestur í landi og vera ekki með neitt drama. Okkur finnst hann vera harðjaxl að ferðast svona þar sem slíkt ferðalag tekur líka á þegar heilsan er ekki upp á sitt besta. Þessvegna metum við þessa heimsókn mjög mjög mikils! Og sjáumst vonandi fljótt aftur þar sem það er svo gott að hafa hann hjá okkur og einnig tilvalið að koma til Sönderborgar í hvíldarheimsóknir og drekka bjór með mér 🙂

Trackbacks & Pings

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *