Laufin á regntrénu

Nýjustu ljóðabókina hans Sveins Snorra er ég búin að velkjast með í höndunum síðan hún kom til mín um miðjan febrúar. Hún er búin að vera á náttborðinu, borðstofuborðinu, eldhúsbekknum, barnum, sófaborðinu, upp í hillu og margsinnis oní veskinu mínu.  Hann sagðist ætla að senda mér útlitsgallað eintak en ég kem ekki auga á þessa galla, hvernig sem ég rýni. Líklega því hann benti mér ekki nákvæmlega á þá. Nema þeir séu að hverfa í sliti vegna þvælings. Hann stakk sjálfur upp á því að ég gagnrýndi hana í blogginu mínu, því að „það væri ekkert orðspor að móðga né stallur að hrapa af“. Ég sveif um á skýji því mér fannst heiðurinn svo mikill. Fyrir mér er Sveinn Snorri alvöru ljóðskáld… lókalt celeb! Og þessvegna hef ég verið svona lengi að velkjast um með hana…

Bókin er árituð. Elska áritaðar bækur þar sem nafnið mitt kemur við sögu. Þær verða svo mikið persónulegri.

IMG_4521

Þegar ég fletti bókinni rakst ég strax á þetta; „Þegar vatnið er eitrað þyrstir þig mest“. Þetta passaði við mig…?!? Þetta passar við okkur öll!

Um daginn tók ég bókina enn einu sinni fram. Þá var ég á næturvakt á gjörgæslunni. Sat inn á stofu yfir tveimur léttsvæfðum sjúklingum og það eina sem truflaði mig var lyfjapumpa sem vildi nýja adrenalínssprautu og öndunarvélin sem kvartaði undan of háum koltvísýringi. Ég gat því ljóðast óáreitt.

Sveinn Snorri er þeim forréttindum gæddur að geta skrifað ljóð. Ég vildi óska að ég gæti það líka en ég hef það svipað með ljóð og yoga. Ég fer bara að flissa. Ef það hvarflar að mér að skella í ljóð þá finnst mér hugsanlegt ljóð strax of háfleygt, of barnalegt, of grunnt og alltof kjánalegt og hristi bara hausinn. Eins og með yogað… með eindæmum kjánalegt að láta alla fara í „hund“ og prumpa… ég lippaðist niður í flisskasti.

Það er bara mín eigin hugmynd af ljóðasmíði sem mér finnst kjánaleg, ekki annarra manna ljóð. Hef aldrei haft ástæðu til að flissa að ljóðunum hans Sveins, og hef ég gluggað í nokkrar af bókunum hans.

En þarna á næturvaktinni melti ég ljóðin hans meira en nokkrusinni áður… melti svo það marraði. Sveinn getur ekki bara skrifað ljóð, heldur skrifar hann ljóð sem listagetulaus almenningur eins og ég, skil. Hann er hyldjúpur en samt svo skýr og auðveldur.

Ég þekki Svein Snorra sáralítið, hef bara alltaf vitað og frétt af honum. Einu orðaskiptin sem við höfum átt (sem ég minnist) var þegar hann mætti mér 4 dögum eftir að ég fæddi Aldísi og spurði mig hvort ég væri komin á steypirinn…? Þá var ég íklædd ógleðislituðum frottéslopp úr Rúmfó og nýbúin að gera 15 uppsetur til að losna við þetta leiðindarskvap á maganum sem fylgir barnsburði. Ég brosti þá og hef brosað að þessu síðan.

Að lesa „Laufin á regntrénu“ hleypir manni inn í marga kima sveiflukents lífs Sveins Snorra. Þetta er góð leið til að skyggnast inn í hugarheim einstaklings sem er með greiningu sem er svo mörgum framandi og margir eru feimnir við. Hann yrkir m.a. um eigið stríð, sigur, samþykki, pólitík, myrkur, fjölskylduna og ekki síst ástina. Í einu ljóðinu lýsir hann því hvernig andlegt heilbrigði hans lendir í hákarlskjöftum fortíðar… Ég varð spennt eins og þegar ég les krimma. En á næstu blaðsíðu áttar Sveinn sig á að hann þarf aldrei aftur að vonast eftir andlegu heilbrigði á ný og þessvegna fagnar hann. Ég fagnaði líka. Það er svoldið auðvelt að lifa sig inní ljóðin í rökkrinu á gjörgæslunni.

Það ljóð sem ég tek mest til mín er „Hringnum lokað“… líklega vegna þess að það veitti mér óvæntan innblástur.

Uppáhaldsljóðið mitt í þessari bók er ástarljóð… ég táraðist næstum! Ekki að ástarljóð almennt hræri e-ð sérstaklega í mér, heldur vegna þess að Sveinn Snorri virðist hafa fundið ástina á svo heiðarlegan og fallegan hátt. „Bréf til Lornu“ ætti að mýkja upp þá allra hörðustu.

Ljóð dagsins í dag er „Torg táranna“, þar sem dagurinn í dag er svo blautur og grámyglulegur… eiginlega bara sorglegur.

Ljóðabók eftir Svein Snorra ættu allir að eiga því það er svo mikil synd ef einhver missir af hans ótrúlega orðaforða og hans einstaka hæfileika til að raða þessum orðum í lifandi og litríkar setningar. Þetta er hæfileiki sem er töff að búa yfir. Og ekki má gleyma hugmyndafluginu hans… þarf maður að hafa greiningu til að láta sér detta allt þetta í hug?

Þetta átti að vera bullblogg… eins og ég er vön… en það var bara ekki nokkur leið þar sem bókin er ekkert bull. Kannski finnst einhverjum þetta vera hálfgerður lofsöngur, en skítt með það… ég, sem er hef ekkert vit á svona, er stórhrifin af bókinni hans!

TAKK Sveinn Snorri.

IMG_5468

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *