Grindargliðnunin og sætmetið.

Ég er nokkuð viss um að ég vaknaði með grindargliðnun á föstudagsmorguninn. Já, þið lásuð rétt… GrindarGliðnun. Kl. var 7.30 og Fúsi spurði hvort ég ætlaði að liggja eins og skata allan daginn í rúminu?

Ég svaraði honum að ég kæmist ómögulega framúr þar sem ég hefði fengið bráðagrindargliðnum þarna um nóttina.

Hann sagði að það væri frekar ólíklegt og að ég ætti að hætta þessu væli!

Ég sagði honum að það væri bara ekki neitt ólíklegt, því mjög margir sem ég þekki hafa fengið grindargliðnun og nú væri röðin væntanlega komin að mér. Það er ekki bara nágranninn sem verður fyrir áföllum, maður getur nefnilega sjálfur verið nágranninn.

En þarna lá ég, á frídegi, í þó nokkru áfalli yfir nýtilkominni grindargliðnun og gat ekki hugsað mér að fara fram úr, reyndi að breiða sængina yfir haus og fannst góð hugmynd að sofa fram að kvöldfréttum.

En Gamli Gaur sýndi enga miskunn, opnaði gluggann upp á gátt, reif af mér sængina og stóð svo eins og spánskt naut og sagði mér að taka mig saman. Það væri akkúrat ekkert að mér. En hvernig getur hann vitað e-ð um það? Þótt góð vinkona mín sem er að læra allskonar andlegt, segi að hjónabandið mitt sé mest í mjöðmunum er ekki þar með sagt að hann geti fundið fyrir grindargliðnunni minni og hefur því engan skilning.

Þar sem ég er enn of ung til að sofa í náttfötum varð mér strax ískalt. Dröslaðist því framúr og ákvað að mæta deginum í öllu sínu veldi með allri sinni þjáningu. Mætti svo útkeyrð á næturvakt um kvöldið. Hver hefði trúað því að grindargliðnun gæti verið svona lýjandi. Hefði betur sleppt því að vinda 80 sinnum upp á mig, upp á risastórum bolta í Crossfit tímanum á fimmtudaginn.

you-dont-like-big-hips-women-think-again09

Í gær var mér síðan alveg batnað af þessu fyrirbæri, þökk sé fjölskyldu og vinum.

Mjög oft er matur það síðasta sem ég hugsa um áður en ég sofna. Oft get ég ekki beðið með að vakna og fá mér morgunmat. Í morgun þegar ég var að fara að sofa eftir næturvaktina, talaði ég sjálfkrafa upphátt við sjálfa mig. Ég sagði: „það sem ég óska mér mest af öllu þegar ég vakna, er djúsí samloka. Síðan væri ekki amarlegt að fá köku í eftirétt… heimabakaða“.

Fúsi sagði: „hvað ertu að segja? ertu að tala við mig?“

Ég: „ha nei, bara við sjálfa mig“.

Hann: „ok“.

Síðan hélt ég áfram á lágu nótunum; samlokan yrði himnesk ef hún væri með allskonar kjöti, grænmeti, kannski grænu pestói, kryddaðri kotasælu og fleiru góðu. Sú samloka myndi gera mig álíka hamingjusama og Maríu Mey þegar Guð barnaði hana. Og skúffukaka með kókós væri ekki vitlaus hugmynd… Að vakna úthvíld eins og Þyrnirós og háma í mig heimabakaða blauta köku væri svo geggjað að ég myndi lifa hamingjusöm það sem eftir væri með kettinum með stýrið í mýrinni.

Og síðan vaknaði ég… nusaði útí loftið og fann ekkert!

Fór á fætur og við mér blasti;

IMG_5482

…beint úr bakaríinu… eitt á mann… hvað heldur hann að við séum með stóran maga? Á við mjólkurkú? (Þetta er saðsamara en steypa). Og hvað haldiði að svona kosti? Og að auki þurfti ég að búa mér til mína samloku sjálf!?! Nýbúin að þjást af grindargliðnun og átti á dauða mínum von, og svo er bara engin þjónusta! Ég get svo svarið það! Gott að þessi helgi er að líðan undir lok og ný vika að hefjast.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *