Og áfram var verslað…

Helginni var meira og minna eytt í verslun… já Fúsi var með. Á laugardagsmorguninn fórum við til Flensburgar til að versla fyrir veisluhöld vikunnar (Aldís stúdent). Ég var síðust út í bíl og hlammaði mér í aftursætið við hliðina á ektamanninum. Aldís æfir sig ötult á hraðbrautinni og Svala pæjast við hliðina á henni, þessvegna eru þær frammí. Þegar við vorum að keyra yfir brúnna yfir til Jótlands varð Svölu litið á okkur í aftursætinu… „Guð minn góður… hvernig eruði eiginlega klædd???“

2014-06-21 15.06.55

Alveg óviljandi höfðum við bæði farið í svartar buxur, strigaskó og gallajakka. Það var of seint að snúa við. Við vorum tvíburahjónin í Flensburg og vorum snögg.

Seinnipartinn á laugardaginn kíkti ég á flóamarkað hjá vinkonu minni sem er að flytja til Ítalíu. Hún gaf mér bol…

IMG_7131

… því hún veit hversu heitt ég elska bókina sem þessi setning á heima.

Auk þess erfði ég (fyrir slikk) slatta af glimmer og gull leggings hannaðar af Tinnu sjálfri.

IMG_7135

Þegar hún verður orðin heimsfrægur hönnuður í Feneyjum set ég þessar á uppboð á ebay og verð meira en rík. Ætla ekki að þvo þær.

Í gær fór ég svo á annan flóamarkað. Já, nú haldiði að ég sé alltaf á flóamörkuðum… en nei nei, fer nánast aldrei… bara núna til styrktar vinum.

Ein úr vinnunni er að flytja á elliheimili á vesturströndinni, 36 ára, fullfrísk með mann, 2 börn og hund. Þetta er dagssatt. Þau fá loftlyftu og klósetthækkun.

Allavega, ég fór með Aldísi og Emmu, vinkonu Aldísar en Emma er að flytja að heiman og vantar búslóð. Til að styrkja vinkonuna keypti ég 2 kertastjaka á 15kr.

Þegar við komum heim spurði sá gamli hvort við hefðum keypt e-ð? Aldís sagði honum að við hefðum keypt 2 ljósastaura…

Vil taka það fram að dætur mínar eru ekki fatlaðar, heldur bara snöggar að finna upp á varaorðum ef þær muna ekki réttu orðin í augnablikinu.

Svölu fannst þetta einna líkast glösum og var ekki lengi að eigna sér þau, setti í þau kakó og fór með upp í herbergi til M. Schumacher (án gríns, þá er þetta nafn kærastans) og áttu þau rómantíska stund saman…

IMG_7145

Við hliðina á sést vínglas í stærra lagi.

Fúsa finnst tilhugsunin um Schumacher barnabarn ekki af verri endanum og hefur beðið þau varfærnislega um að skíra drenginn Mikael.

Lokaorð bloggsins eiga fótboltamenn RUV í kvöld eftir leikinn á milli Hollands og Chile: „Það var greinilegt í upphafi leiksins að bæði liðin ætluðu ekki að tapa….“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *