JÁ SÆLL – BORGARFJÖRÐUR

1-IMG_7836-001Munið eftir því þegar hin fjögur fræknu fóru á Vorgleði kvennfélagsins í Hjaltalundi í vor? Hérna er linkurinn… 

Nú átti aftur að taka púlsinn á menningunni á Austurlandinu og í þetta skiptið voru hin þrjú þreknu á ferðinni og að sjálfsögðu varð Bogginn fyrir valinu. Það liggur við að ég fái samviskubit yfir að blogga um þetta… eiginlega svipuð tilfinning og þegar maður gengur hlaðin mat fram hjá heimilislausum. Ég finn til með þeim sem misstu af í gær.

Við foreldrar mínir (nema Áskell pabbi, hann ákvað að passa hús og fólk heima) skelltum okkur í sparigallann og brunuðum af stað. Þokan var sem svörtust á Skarðinu svo sást ekki á milli stika… Í skriðunum létti til.

1-IMG_7815

Pabbi sagði okkur söguna af því þegar hann og félagarnir voru á leiðinni á þorrablót á Borgarfirði og veðrið varð vitlaust svo að bíllinn festist í Skarðinu og þeir röltu því yfir í Snotrunes…! Það hefur verið ágætis rölt! Þorrablótinu var frestað.

Þar sem við vorum tímanlega á ferðinni og mér finnst svo gaman að þræða kaffihús og veitingarstaði í öðrum pleisum, var farið beinustu leið á Álfakaffi. Álfakaffi er einn af uppáhalds veitingarstöðunum mínum í heiminum. Það er fátt sem toppar umgjörð og veitingar… það þarf ekki einu sinni að tala þarna inni. Það má ekki taka myndir en ég fékk leyfi hjá háttvirtum eigendum (auðvitað spyr ég um leyfi!).

1-2014-07-04 20.51.20 1-2014-07-04 20.52.40

Þvílíkt handverk. Eiginlega væri ég til í að sitja bara í tröppunum og borða fiskisúpuna.

Síðan var mætt á tónleika. Í vor fylgdumst við að, ég og Óskar Péturs. Í fleiri klukkutíma hljómaði hann í Skódanum hans pabba. Við Óskar runnum í eitt.

Magna hef ég ekki séð á sviði síðan hann var unglingur held ég… einkennilegt! Bara fylgst með úr fjarðlægð. Og mikið var nú yndislegt að upplifa þessa tvo saman ásamt Eistanum Valmari, þeir voru skemmtilegir, samstilltir, ólíkir og fyndnir. Ég stalst til að taka mynd…

1-IMG_7824-002En þar sem þetta var stund þar sem maður varð að njóta, gat ég ekki eytt tíma í að stilla myndavélina og rembast við að ná góðri mynd af aftasta bekk.

Óskar tók lagið „Dagný“… vissi það! Fann það á mér. Ég kiknaði alveg í hnjánum og er ekki frá því að augnsambandið hafi verið til staðar.

Magni tók lag eftir lókalinn og svei mér þá… var við það að skæla. Stundum fatta ég ekki, afhverju ég flyt ekki aftur heim!

1-IMG_7825-002Það var ekki eingöngu tónlist í boði á þessum tónleikum. Borgfirðingar taka svona menningarviðburði alla leið og bjóða einnig upp á ljóðalestur. Alveg stórgóðan þótt ljóðskáldið sé einum of grænt (x-B) og einum of líkur Sigmundi Davíð á sviði. Þetta er engin annar en Stefán Bogi… ljóðskáld, sjónvarpsstjarna og pólitíkus. Það væri ekki verra að eiga bók eftir hann upp í hillu. En er ég samt sú eina sem rugla honum og Simma aftur og aftur saman?

1-IMG_7831-001

Mér finnst alltaf skemmtilegt að eignast e-ð eftir staðarfólk og því vildi ég ólm kaupa diskinn hans Magna. Þegar ég loks fór á barinn með kortið hennar mömmu (því mitt kort var í höndum dætra minna) var hann uppseldur. En á Borgarfirði er öllu reddað… Helgi Hlynur sótti bara disk handa mér… beint í rassvasann á Magna. En hann var ekki áritaður og svona stöff kaupir maður ekki óáritað. Þau gömlu voru orðin stirð og það var mitt að koma þeim heim, svo það eina í stöðunni var að skunda af stað, oní kjallara, eftir þröngum göngum og inn í búningsherbergi þar sem allir þessir þrír frægu stóðu á naríunum í faðmlögum og biðja um eiginhandaráritun. Takk.

1-IMG_7832-001

Magni er komin ofan í veskið mitt og verður með mér í friði þegar ég þarf að keyra heim frá Hamburg eftir næturflug… Það verður hans að halda mér vakandi með angurværum átthagasöng. Og p.s. þetta er ekki auglýsing fyrir þennan disk, því það eru líklega ekki til fleiri… Og þessi færsla er heldur ekki auglýsing fyrir Fjarðarborg, því það þarf ekki… húsið var fullt. Þessir snillingar auglýsa sig sjálfir… Gleðileg jól!

1-2014-07-05 00.58.35

Veðrið á Skarðinu var orðin enn verra þegar við fórum heim, auk þéttrar þokunnar var líka mígandi rigning og rok… hvernig er þetta hægt? Pabbi virðist örlítið smeykur á myndinni en trúið mér… hann var ánægður með hversu vel Skódinn dró. 1-IMG_7826-001Þegar heim var komið, réðumst við á harðfisk í boði sjómannsbróður míns eins og 3 hungraðir kettir. Ég rétt náði að smella mynd áður en roðið hvarf ofan í mömmu.

Svona kvöld með svona viðburðum toppar allt menningarlegt!

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *