Ökuskírteinisleysi í hitanum…

Ég þakka kærlega fyrir öll skilaboðin (sem ég óskaði eftir í síðustu færslu) frá mæðrum sveitasona, sæfara, bókaorma og annarra glæsimenna. Nú þarf ég bara að leggjast yfir skipulagningu stefnumóta.

En ekki hélduði virkilega að mér væri alvara með að borða bingóstangir í morgunmat? Ó nei, ekkert sælgæti fyrir hádegi, aldrei! Ekki einu sinni bingóstangir. Þótt dagurinn í dag hefði verið ekta dagur til að sökkva sér í sælgætisát frá sólarupprás.

Ég hef reynt að temja mér jákvæðni á blogginu svona að öllu jöfnu og reyni dagsdaglega að taka eina góða vinkonu mína til fyrirmyndar og er þessi grein hérna á bak við linkinn um hana (smellið hérna). En nú er svo í stakk búið að hjónabandið hefur verið lagt að veði svo þetta blogg verður í neikvæðna kantinum.

Ég get einfaldlega ekki verið gift manni sem er ekki með ökuskírteini! Ég skil ekki hvernig hjónaband Guggu og Ingólfs entist þeim um aldur og ævi! Nýja ökuskírteini eiginmannsins hefur alltaf verið gallað. Myndin máðist bara út. Árið 2009 ætlaði hann að fá nýtt en þar sem sýsluskrifstofan vildi taka gamla skírteinið um leið og hann sótti um nýtt, og ekkert bráðabyrgðarskirteini í boði, hætti hann við. Gat ekki verið skírteinislaus. Í sumar var sumarfríið svo langt, heilar 3 vikur á Íslandi, svo hann greip tækifærið, sótti um nýtt og gat fengið bráðabyrgðarskírteini á A4 blaði, því gamla var tekið. Bráðabirgðarskirteinið er á íslensku og það tekið fram að það gildir einungis á Íslandi. 3 vikur, það ætti að sleppa því samkvæmt gárungum gerist allt hraðar á Íslandi en í Danmörku.

Þremur vikum seinna er hann í DK, skírteinislaus og kemst ekki neitt. Því ekki ætla ég að skutla honum! Dettur það ekki í hug! Hann neitar að sækja mig í bæinn um miðjar nætur þótt það sé frost úti og lætur mig iðulega labba heim, fram hjá öllum hættum og ofbeldisfólki Sönderborgar. Ég skil ekki hvernig ég hef hingað til komist heim óhult í gegnum þetta glæpavíti.

Allavega, í dag hringdi hann til Íslands til að grenslast fyrir um skírteinið. Jú, það var líklegast komið frá Ungverjalandi til Seyðisfjarðar í dag. Ungverjarnir gera nefnilega bestu skírteinin. Gæðin verða að vera í lagi! En frá Seyðisfirði þarf það að fara til Egilsstaða og þaðan til DK. Vonandi kemst það til Egilsstaða á morgun því sýsluskrifstofudaman á Egilsstöðum fer í 4ja vikna frí eftir morgundaginn og engin til að leysa af?!? Og þótt það verði sent á morgun, verður það í fyrsta lagi komið á fimmtudag eða föstudag!

Ég er alveg spólandi hérna, líklega með hitaáfall! Finnst ekki alveg í lagi að það taki 3 vikur eða meira að afgreiða eitt skírteini! Finnst heldur ekki í lagi að hafa fólk án skírteinis á meðan verið er að gera nýtt! Það var ekki eins og hann Sigfús minn hafi ekki borgað jafnvirði bóndabæs árið ´79 þegar hann tók prófið og eigi því ekki rétt á að hafa það með sér ALLTAF. Ekki braut hann af sér hann Sigfús minn, ó nei… það yrði nú saga til næsta bæjar ef það hefði gerst. Þessa vikuna, og kannski bara 4 í viðbót verður Sigfús því heima og tekur á móti gestum! Vil samt taka það fram, þar sem ég þekki nánast alla starfmenn Sýsluskrifstofanna á Seyðis og Egs. persónulega, að ég er ekki að álasa þeim, heldur þessu kjánakerfi.

Já, ætli ég sé ekki bara með hitaáfall og feti fótspor landa minna og kvarti einnig hástöfum yfir veðrinu. Ég hafði þó vit á að slá grasið fyrir kl. 10 í morgun, áður en allt varð svo þrúgandi að það slokknar á allri skynsemi og nennu. Ég finn heldur ekki gallajakkann minn og það eina sem til er að éta er vatnsmelóna. Allir neita að fara í búðina. Eða það meikar engin að fara í búðina. Hundurinn ofandar og það endar með að ég set poka á snúðinn á honum svo að hann tæmist ekki af koltvísýringi. Þetta er ástand! Mig langar bara í íslenskt sumar eins og 2 síðustu sumur, þar sem hitinn er passlegur, sólin svo skær og golan svo fersk. Þar er hægt að vera úti án þess að fötin límist við mann.

Hér er ástandið svo mikið að börnin skökklöppuðust niður á göngugötu til að kaupa sundlaug.

2014-07-22 17.10.16

Herr Schumacher pumpaði og á meðan beið prinsessan.

2014-07-22 17.12.25

Sem síðan fékk að finna fyrir því seinna meir… það er regla heima hjá okkur að sá sem hefur pumpuna, fær slönguna líka.

2014-07-22 17.12.26

He he, hann er hrekkjóttur melurinn sá arna.

2014-07-22 17.29.51Þótt maður sé 17 ára, þá er ekkert að því að bursla í barnalaug! En síðan báðu þau um kafaragleraugu… þá spurði ég hversu gömul þau væru og svaraði Schumacher að þau væru að verða 12. Okei, 12 ára meiga kafa í plastsundlaug!

Þau fengu sundgleraugu…

IMG_8599… með því skilyrði að hann lærði íslensku… ég sagðist ekki finna mig í að það væri töluð danska á heimilinu á frídögunum mínum. Hann sagði: „nei hæddu nú“.

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *