19. ágúst… afmæli!

Í dag á frumburðurinn afmæli og er búin að einangra sig algjörlega á sjálfan daginn… er semsagt að heiman. Ekki í símasambandi og veggurinn á facebook lokaður. Hún vill ekki of mikla athygli… það hefur hún líklega frá mér… frekar en pabba sínum sem þrífst á athyglinni!IMG_8956

Ég veit ekki einu sinni hvort hún er búin að taka upp pakkana sem ég sendi henni!?!

Ég, harða týpan, sem hef gefið út yfirlýsingu um að ég sakni hennar mest lítið og að það sé ósköp eðlilegur hlutur í uppeldisferlinu að gríslingarnir flytji að heiman, finn fyrir örlitlum (bara örlitlum) söknuði í dag… Sérstaklega þegar ég get ekki einu sinni sent sms!

Hún sendi snap (mynd) kl. 2:30 í nótt, (þá var kl. 00:30 á Egilsstöðum) af malbiki í myrkrinu. Þá á leið í Lommann beint eftir vinnu. Hún hefur oft og mörgum sinnum komið í Lommann, fyrst sem fóstur, síðar sem barn og nú sem fullorðin! Hún hefur farið keyrandi, siglandi og gangandi.

215302_1025813243533_2409_n

Hún var 11 ára þegar við mægður gengum yfir Hjálmárdalsheiðina í adidasskóm og gallabuxum. Reyndar var litla systirin ekki týpan sem gekk í verkamannafötum á þessum tíma og valdi því að fara í skærbleikum leggings. Sem var fínt mál ef við hefðum týnst, því hún hefði sést úr faþegarþotu í 37 þús feta hæð þessari múnderingu. Hér eru myndir úr fyrstu alvöru göngurferð okkar mæðgna saman. 

Nei þarna í gamla daga var ekkert vesen með útbúnaðinn… í dag myndum við mæðgur ekki ganga upp í 100 metra hæð eða lengur en 30 mín, nema í góðum gönguskóm, í þremur lögum að ofan, með reipi og öxi.

Í nótt fór hún keyrandi með familíunni og grunar mig að hluti af ferðinni fari í að kenna fullorðna barninu að keyra í íslenskum aðstæðum. T.d. er Neshálsinn tilvalin að byrja á… passlega brattur og þröngur vegur fyrir byrjendur sem eru vanir pönnukökugötunum í DK. Ef maður er Íslendingur, verður maður að geta keyrt yfir alla hálsa, heiðar og fjöll!

1933856_1255933596398_5483150_nÉg dauðöfunda hana af að hafa vaknað í morgun, með Gunnhildi horfandi innum gluggann og sólina beint í andlitið…

206883_1025814643568_3373_n

…fara út á brókinni, hoppa yfir litla lækinn og leggjast á milli berjaþúfnanna, borða yfir sig og standa ekki upp fyrr en einhver fer að kalla!

Í dag myndi ég vilja faðma Aldísi svo fast að hún næði ekki andanum og lyftist upp frá gólfi, spriklandi og æpandi… þykjandi vera orðin of gömul fyrir þessháttar faðmlög og fíflaskap! En það er mesti misskilningur… ef maður saknar einhvers, á maður að faðma fast! Eins fast og maður getur!

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *