Austurglugginn part 4

Þessi lokaorð birtust í Austurglugganum 15. ágúst, 30tbl. Nöfnin hafa verið íslenskuð svo að engin undri sig.

2014-06-12 20.05.04

„Skrifaðu um mig,“ sagði hann og brosti. „Ertu að meina þetta?“ spurði ég. „Já,“ sagði hann „ég nenni ekki að skrifa um mig sjálfur“. 

Þetta sagði Lalli við mig þegar hann lá í sjúkrabílnum á leið heim til sín eftir tveggja vikna dvöl á gjörgæslunni. Við spjölluðum um allt mögulegt á leiðinni og hann spurði mig um áhugamál mín. Ég sagði honum að mér þætti m.a. gaman að skrifa, væri ódrepandi frístundabloggari til 10 ára.

Lalli þjáist af banvænum hreyfitaugasjúkdómi (ALS) og var hjá okkur því sveitarfélagið var í vandræðum með að manna stöður í heimahjálpinni til að annast hann og öndunarvélina hans. Lalli gat tjáð sig með því að benda með krepptum litla fingri á stafrófsspjald ásamt því að nota augun. Hann er giftur, 49 ára og á 4 börn. Áður en hann veiktist, fyrir tæplega 2 árum, starfaði hann sem flugvirki hjá hernum (sá um F16 orrustuþoturnar), hljóp maraþon og spilaði fótbolta. Nú situr hann í hjólastól. 

Þótt oftast væri stutt í brosið átti Lalli í andlegri baráttu vegna aðstæðnanna og leið oft illa. Börnin hans áttu erfitt með að sætta sig við hlutskipti föður síns og ekki bætti dvölin á gjörgæslunni úr skák. Við gerðum því okkar besta til að hversdagsleikinn á hátæknisjúkrastofu líktist sem mest heimilinu.

Einn daginn fannst okkur Boggu hjúkku vera kominn tími til að Lalli fengi almennilegan hárþvott. Við útskýrðum fyrir honum hvað við hefðum upp á bjóða; uppblásinn vask, fötur, vatnskönnur, freyðandi sjampó, nudd og ekki síst þaulreynda Boggu sem hafði starfað á gjörgæslunni síðan á níunda áratugnum og er langbest í hárþvottinum. Lalla fannst þessi hugmynd afleit; alltof mikið vesen. Við vorum ekki af baki dottnar og hættum ekki fyrr en hann samþykkti með semingi. Lalli lá lamaður í rúminu og gat enga björg sér veitt og við Bogga hófumst handa. Ekki tókst þessi aðgerð betur en svo að 27 m2 sjúkrastofan flaut í vatni og sjampói, frá glugga og út að hurð. Lalli hristi höfuðið, fljótandi í polli innan um rúmfötin. En hárið varð hreint og ekki erfði hann þetta við okkur því næstu dagana stafaði hann: „Segðu frá hárþvottinum“ og brosti sínu breiðasta. Ég varð því að segja frá, aftur og aftur. Það var oft gaman á stofunni hjá Lalla.

Þetta var í maí og veðrið var yndislegt. Lalli vildi oft fara í „göngutúr“ með fjölskyldunni og alltaf fylgdi hjúkrunarfræðingur með vegna öndunarvélarinnar. Einn daginn vildi hann bjóða konunni sinni, Dóru, upp á ís. Ég fór með og settumst við fyrir utan aðalinnganginn á sjúkrahúsinu og sleiktum sólina og ísinn. Allt í einu byrjar Lalli að benda með augunum. Hann hafði komið auga á góðan vin og vinnufélaga. Dóra vinkaði og benti vininum á að koma. Hann kastaði kveðju á Lalla, snéri síðan baki í hann og byrjaði að spjalla við Dóru um hvað hann væri að bralla. Lalli mændi á bakið á honum og það var greinilegt að hann langaði líka að tala við vin sinn. Dóra reyndi að snúa vininum og kom því að, að heilinn væri í 100% lag, þrátt fyrir hjólastólinn. Lalli stafaði og spurði hvernig hann hefði það. „Fínt takk,“ svaraði vinurinn og snéri sér aftur að Dóru. Lalli varð niðurdreginn. Ég fann til með honum, en þó fann ég meira til með vininum sem fór greinilega í flækju og vissi ekki hvernig hann ætti að bregðast við, né hvað hann átti að segja. Seinna sagði Lalli mér að vinirnir væru svo til hættir að koma í heimsókn og mörgum fyndist vandræðalegt og erfitt að vera í kringum hann. Hann saknaði þeirra mjög mikið og væri oft einmana. 

Þarna var svo augljóst hve vinir eru mikilvægir þegar veikindi og sjúkdómar banka upp á. Það þarf ekki að stoppa lengi, né segja eitthvað „rétt“, heldur bara vera saman. Verum góðir vinir í raun. 

IMG_8856

Ljósmynd: Svala

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *