Mínar fyrstu norðurljósamyndir.

Þegar við vorum að leggja í hann til Íslands um daginn, töluðum við um norðurljósin og vonuðumst innilega til að veðrið yrði okkur í hag svo að við gætum barið þau augum. Það er nefnilega ekki á hverju ári sem við erum á Íslandi í myrkri og kulda.

Við vorum svo heppin að fá bíl að láni, eðalkerru með vökvastýri og allt, svo við keyrðum austur. Fyrst norður fyrir og svo suðurleiðina til baka. Myndin af kerrunni er augljóslega tekin á suðurleiðinni.

IMG_1458Alveg frá Keflavík og norður á Akureyri, keyrðum við svarta myrkri og súld. Stoppuðum á Lindinni, pissuðum á þvottaplaninu og héldum áfram. Þegar við vorum að keyra út eftir Eyjafirðinum laust eftir miðnætti rak Svala skyndilega upp ópið: „NORÐURLJÓÓÓS!!!“. Það var ekki annað í stöðunni en að snarbeygja út á Grenivíkurafleggjarann, stoppa og slökkva öll ljós. Og vá! Ljósin komu upp úr Víkurskarðinu og dönsuðu fallega yfir fjörðinn.

Seinna, við Másvatnið (ég kalla þá heiði alltaf Mývatnsheiði en veit ekki hvort það er rétt), gerðist þetta aftur. Þá komu ljósin upp úr Bárðardalnum eins og risastórt grænt gos. Fyrir framan þau voru lítil kolsvört ský á stangli og stjörnur allt í kring. Í kaupbæti fengum við skæran bjarmann af eldgosinu. Alveg til að fara að skæla yfir. Hefði viljað taka mynd en hafði ekki þekkingu né þrífót, auk þess sem engin hafði þolinmæði þarna um miðja nótt í tilraunarstarfsemi. Mig dauðlangar nefnilega til að taka myndir af norðurljósunum og væri líklega orðin kalin á öllum tíu ef ég byggi norðar á hnettinum. Aðeins 0.3% af facebookarvinum mínum taka flottar norðurljósamyndir opinberlega. Að auki þekki ég einn í viðbót. Þrír í heildina! Á öllu Íslandi -sem að ég þekki.

Allavega, mig dauðlangar semsagt að taka ca. svona mynd.

10371352_10152921336212704_2368071026271487645_o

(Birt með leyfi ljósmyndarans, Hafþórs Snjólfs Helgasonar).

Þarna sem við stóðum upp á öræfum, spennti ég greipar og bað um norðurljós í Eiðaþinghánni.

Kvöldið eftir uppfylltist óskin. Norðurljósin birtust yfir Eiðum, ég greip þrífótinn hennar mömmu, æddi út og tók mynd.

2014-11-30 15.59.56

Fannst hún heldur dökk og erfitt að greina norðurljósin svo að ég ákvað að færa mig nær þeim. Það varð til þess að ég hrundi ofan í einn stærsta rabbarabaragarð á Héraði. IMG_1213

Í svekkelsi og panikkasti (með hnéskel á hlið, sprungið milta og heilahristing) fór ég inn og bað einn af þessum tveimur á facebook um hjálp. Bara einfaldar beisikstillingar takk. Svarið kom ekki um hæl og fór ég því aftur út, gerði aðra tilraun sem tókst mun betur en sú fyrsta. Tók myndina í lightroomið og vann hana töluvert.2014-11-30 15.59.19

Ef þið rýnið mjög mjög vel, ættuði að finna þefinn af norðurljósunum á Eiðum. Getið líka stækkað myndina. Eða sett á ykkur gleraugu. Og notast við stækkunargler… og slökkt ljósin í öllu húsinu. Þau eru þarna, ég sver það!

Var samt ekki 100% sátt og og því voru sömu spurningar sendar á hinn vininn líka. Á meðan chattað var, fóru norðurljósin niður á Seyðisfjörð. Svörin hrönnuðust inn og eiginlega eins hvað stillingarnar varðar (sem sannar fyrir mér að þeir vita hvað þeir eru að gera). Annar benti mér þó á að vera með vasaljós… til að detta ekki. Það ráð kom aðeins of seint þetta kvöld. Hinn gerði flotta bloggfærslu sem ég ætla að geyma um aldur og ævi. Eða þangað til ég næ þessu… Þar er vasaljósið notað í öðrum tilgangi. Kannski þarf tvö? En hvorugur minntist orði á vettlinga. Það er frekar mikilvægt atriði í svona myndatökum… ekki síðra en lýsingartími og ljósop.

Já, ég er bara frekar roggin með fyrstu norðurljósamyndina mína -það roggin að ég ætla að setja hana inn aftur.

2014-11-30 15.59.19

Og bið AFTUR um gott norðurljósaveður í desember svo að ég geti æft mig með vasaljósin og vettlingana. Í von um aðeins skýrari og grænni ljós á myndunum.

 

 

One Response to “Mínar fyrstu norðurljósamyndir.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *