Ókeypis jólatónleikar Alrúnarbloggins

Þegar ég á að vera gera allt annað og allt er á rúfi og stúfi, dettur mér í hug að bjóða ykkur á jólatónleika. Ókeypis. Gjörið bara svo vel og njótið.

Fyrsta lagið er Jólaköttinn með Björk. Þetta lag er bara svo Íslenskt. Og flott. Ég fæ alltaf gæsahúð og prumpa smá þjóðernisrembingi.

Næsta lag er Gleði og friðarjól með Pálma. Yndislega fallegt lag sem lætur mann hugsa til þeirra sem eiga bágt. Í dag er við hæfi að hugsa til fjölskyldu hinnar 23 ára Tugce Albayrak sem borin var til grafar i Þýskalandi í dag. Fréttin um hana er hér. 

Þriðja lagið er að sjálfögðu Snjókorn falla  með Ladda. Lag sem fær mig alltaf til að dansa, ef ekki líkamlega, þá andlega. Þetta lag er betra á íslensku.

Öll lögin þrjú eru jafngóð og hafa þau verið mín uppáhalds síðan ég veit ekki hvenær.

Til að vera ekki með þennan endalausa þjóðarrembing og til að þið haldið ekki að mér finnist Ísland og allt Íslenskt langbest, ætla að ég að hafa lokalagið útlenskt. Eldgamalt lag frá 1974, en ég var eiginlega bara að uppgötva það í dag. Hentar mér óskaplega vel í mínu melódramatímabili þessa dagana, jafnvel þótt ég verði ekki ein né einmana um jólin. Fyrir utan það að svona tónlist getur verið mér að skapi alla daga, enda er ég jafnmikill snillingur í melódramatík og að leggja þvaglegg við ómögulegar aðstæður.

Myndbandið er yndislegt, en ef eyrnalokkarnir þeirra fara í pirrurnar á ykkur, þá er líka til útgáfa af þessu lagi með Presley.

Tónleikahaldi er lokið.

Algjör óþarfi að klappa mig upp en takk samt <3

Annars er dagurinn búin að vera annasamur.

Ég:

  1. Skúraði gólfin (joke)
  2. vann í 8 tíma
  3. bakaði 3 sortir af smákökum (joke)
  4. verslaði það síðasta fyrir brottför.
  5. pakkaði inn jólagjöfum
  6. þreif loft og veggi (joke)
  7. eldaði mat (joke)
  8. greindi hvatningarkenningar (joke)
  9. skrifaði jólakort (joke)
  10. setti í þvottavél og þurrkara
  11. bjó til glansandi konfekt (joke)
  12. braut saman þvott því hann átti að fara ofan í töskuna
  13. þreif gluggana (jóke
  14. hljóp 5 km (joke)
  15. setti í uppþvottavélina (joke)
  16. Tékkaði mig inn í flug á Kastrup
  17. Best að fara að pakka…

Í ellefu jól, höfum við farið með risastóra og níðþunga pakkana á pósthúsið…

IMG_1419

…í von um að þeir nái fyrir jól, því aldrei er ég sú fyrsta í röðinni hjá póstinum.

Í ár kem ég með þá í eigin persónu! IMG_1623

Fulla þvottakörfu.. og annað eins fór ég með heim um daginn. Í ár þarf ég ekki að vigta og mæla, heldur keypti ég bara það sem mér datt i hug í öllum mögulegum stærðum og þyngslum.

Góða nótt og góða ferð til ykkar allra sem farið út fyrir hússins dyr á morgun!

P.s. það er búið að laga kommentakerfið á blogginu mínu (Gamli Gaur fór í málið). Auk þess yrði ég himinlifandi og þakklát ef þið vilduð deila bloggsíðunni minni fyrir mig í jólagjöf handa mér 😉 Af prinsip ástæðum neita ég að kaupa mér „likes“ því það segir mér ekkert að einhverjum Pakistönum líki við síðuna mína… Þótt það kosti bara 30 kr að fá 7-29 „likes“ á dag. Aftur… góða nótt 🙂

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *