Hvolparnir og hræðilega kindin í sveitinni

Ónefndgreind dóttir mín, frumburðurinn sjálfur, verður seint fjárbóndi. Hún varð eftir á Eiðum eftir jarðarförina um daginn og við hin fórum út til Danmerkur. Eitt sinn skype´uðum við og hafði hún fréttir að færa. Hún hafði hætt sér út í fjárhús með ömmu sinni og varð næstum fyrir árás kindar. Eiginlega næstum étin! Forustuærin hún Forsla, hafði með líkamstjáningu sinni, tjáð barninu það að hún ætlaði að ráðast á hana. Einnig hafði Forsla sent henni afar íllt augnaráð. Og stappað. Aldís mín sagði að kindin væri mannýgari en naut og var sannfærð um að hún kæmist bæði í gegnum grindverk og veggi, og linnti því ekki hlaupunum fyrr en hún var komin inn í hús, upp í herbergi og undir sæng (að horfa á þátt).

Í morgun (já ég er komin aftur) ákvað ég að fara að tékka á þessari stórhættulegu skepnu. Dreif því dótturina fram úr og út í éljardumbunginn.

Fyrst fórum við og heimsóttum pabba þar sem hann liggur undir fannhvítri jörð með pípuna sína og vettlinga. IMG_1677 - Copy

Þar var friðsælt og fallegt.

IMG_1389

Alveg jafn fallegt og daginn eftir jarðarförina. Þegar þokan var svo þétt og hestarnir vitjuðu hans.

Leið okkar Aldísar lá síðan í fjárhúsin.

Þar benti hún á kind og sagði: „það var þessi… sérðu augnaráðið!“

IMG_1708 - Copy

Ég rýndi á þessa rólegu rollu sem bærði ekki á sér. Leit ekki einu sinni í áttina til okkar. Það er þessi með svarta hausinn, lengst til hægri. Þetta er nefnilega hrútur, þessi lengst til vinstri og sú í miðjunni er mögótt. Augljóslega.

IMG_1713 - Copy

Þótt rólyndis rollan væri við það að blunda í miðjum myndatökum, var Aldís samt hrædd. Eiginlega skelfingu lostin.

Við fórum síðan heim í hús og mömmu voru sögð tíðindin; að Forsla væri ekki mannýg lengur, heldur bara orðin spök og eiginlega sí sofandi.

Mamma skoðaði myndirnar úr vélinni og sagði að þetta væri ekki Forsla… Forsla væri mórauð… ALLT ÖÐRUVÍSI!

Nú er Aldís enn hræddari… því hún þekkir ekki muninn á neinni af rollunum… og veit ekki hverja hún á að varast…  nú eru þær allar árásagjarnar og slægar.

Annars höfum við það gott í sveitinni. Ég fann himneskar smákökur inn í köldu búrinu, fór og náði mér í úlpu og fór svo bara inn í búr. Það voru gestir sem höfðu ekki gott af smákökum, þessvegna þessi laumugangur. Það var lakkrís í þeim (ekki í gestunum, heldur smákökunum). Nammi namm. Ég hefði betur verið það 20 mínútum styttra… Maginn þolir þetta ekki. Ekki heldur 6 BINGÓstangir í einu.

Ég enda kannski eins og sílspikaðir hvolparnir! Sem liggja bara afvelta ef þeir eru svo óheppnir að lenda á bakinu.

IMG_1731 - Copy

IMG_1730

 

IMG_1739 IMG_1753

 

Ég sagði upphátt við Aldísi að þeir minntu á uppblásna naggrísi (við áttum einu sinni einn svoleiðis og hann hét Bill (Kill Bill)).

IMG_1771

 

Þessi sendi bara yfirlætis augnaráð og sagði mér að fara varlega í smákökurnar og bingóstangirnar.

IMG_1793

Ég stenst þá ekki! Hvorki lyktina, hljóðin, spikið, mýktina, klærnar, trýnið… ekki neitt. Þeir eru meira að segja sætir þegar þeir pissa á gólfið!

Endalausu krútt.

 

One Response to “Hvolparnir og hræðilega kindin í sveitinni

  • Eva Rán Reynisdóttir
    10 ár ago

    Yndisleg lesning elskan? þi? eru? dásamlegar allar 3 ?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *