Grunnar miðvikudagsspekuleringar

~Við vorum að hita upp afganginn frá því í gærkvöldi í kvöld og ég sagðist ætla að gera salat. Þá sagði hann Sigfús: „já, ætluðum við ekki að fara að gera salöt oftar?“

Jú, svaraði ég, og súpur líka…

Sigfús: „nei, nú gekkstu of langt!“

Húsbóndinn ræður, við erum semsagt eki að fara gera neinar súpur í framtíðinni.

UglySoup-modified

Þessa mynd fann ég á netinu. Varla datt ykkur í hug að ég hefði gert þessa súpu? Og tekið svona ljóta mynd í þokkabót???

~Á morgun er fyrsti skóladagurinn í þessari lotu sem er reyndar ekki frásögum færandi nema hvað vinnufélagarnir hafa þessar óskapans áhyggjur af mér því ég þarf að keyra til Odense og það er ca. 5 cm lag af snjó. Þó ekki á hraðbrautinni heldur á túnunum við hliðina á. Úff aumingja ég. Ég hef nú meiri áhyggjur af að sitja föst í umferðarteppu í Þríhyrningnum eða á Fjónsku hraðbrautinni. Ætli ég verði samt ekki að hafa með mér skóflu og kaðal og kraftgalla, auk nestis.

~Þetta eru ekki fyrstu áhyggjur vinnufélaganna. Rétt eftir áramótin þegar hvassviðrið geysaði í nokkra daga og braut greinar af trjánum, var ég á næturvakt eina nóttina. Um 5 leytið kvein vel í byggingunni og ég hafði á orði að það yrði gaman að hjóla heim. HJÓLA HEIM??? Ein vinnufélagan átti ekki til orð, ég færi sko ekkert að hjóla heim. Hún vildi skutla mér. Ég hélt nú ekki, ég ætlaði heim á sama hátt og ég kom. Hún hélt heldur ekki, hún ÆTLAÐI að keyra mig heim. Ég benti henni á að ég væri frá Íslandi og þar væri manni ekki skutlað heim í þessháttar andvara, ég myndi hjóla. Og ég hjólaði. Þetta var áður en ritarinn á Gjörinu fauk af hjólinu í hvassviðri, alla leiðina ofan í skurð, handleggsbrotnaði og er enn í gipsi.

~Þegar ég fer í skólann, nýt ég þess að vera ekki í hjúkkubúningnum sem er þannig hannaður að hann felur allt og dregur ekkert fram. Maður missir mittið, mjaðmirnar, möndlurnar, miltað og endar eiginlega bara kynlaus. Því fer ég alltaf í skólann í leðri og blúndu, með glimmer í hárinu og naglalakk. Undirbúningurinn hófst í kvöld. Þar sem ég fékk að vita á þorrablótinu um helgina að Seyðfirskir karlmenn væru eintómir snillingar í að naglalakka konur, ákvað ég að prófa. Hann Fúsi minn er nefnilega fæddur á Seyðisfirði, jafnvel í sama herbergi og ég á gamla sjúkrahúsinu. Það er reyndar ólíklegt því hann er svo mikið eldri en ég og byggingin hlýtur að hafa verið endurnýjuð og endurskipulögð í millitíðinni. Skiptir ekki máli. Ég sagði honum að lakka mig.

IMG_0398Hann gerði það og ég má víst þakka fyrir að halda fingrunum.

~Þessi hégómi alltaf hreint. Sem kemur mér reyndar til að velta fyrir mér afhverju rasskinnabóla er svona mikið mikið verri og vandræðalegri en andlitskinnabóla? Það er heljarinnar munur á þessum tveimur. ALLIR sjá bóluna í andlitinu en bara sárafáir á rassinum. Nema maður fari í sjóinn í Víkingaklúbbnum og í sauna á eftir. Allur klæðnaður er stranglega bannaður þar og þá myndu ALLIR sjá bóluna á rassinum sem væri hræðilegt umhverfisslys. Ég ætlaði að hafa mynd með þessu og gogglaði, en steinhætti við… þetta eru verstu bólur í veröldinni. Engin má sjá. Fúsi, SLÖKKTU ljósið!. Já en ég er að lesa elskan mín… SLÖKKTU. BARA. LJÓSIÐ!!! Ekki það að ég hafi nokkurntímann fengið rasskinnabólu, ó nei, ekki svona manngerð eins og ég. Svona bólur eru arfgengar og til allrar lukku þá eru þær bara ekki í minni familíu.

Annars langar mig verulega mikið í sviðasultu, gamalt lakkrísrör og Egils appelsín í kvöld. Ef þið eigið alltof mikið af þessu og viljið losna við, þá er nóg pláss hjá mér hérna á Myllugötunni.

Sofið rótt í alla nótt 🙂

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *