Föstudagur með prestlíki og Milky Change.

Fyrsti dagurinn í skólanum í þessari lotu var í gær. Ekki frásögum færandi heldur í þetta sinn nema hvað ég verð eiginlega að segja ykkur frá aðalkennaranum mínum í þetta sinn. Þegar fólk er orðið svona fullorðið eins og ég, gerir það oft meiri kröfur til kennslunar því tíminn er eitthvað svo naumur og maður vill læra sem mest. Því skiptir máli að kennarinn sé góður kennari. Kennarinn í gær er eins og prestur.

Áður en ég held áfram, vil ég taka fram að mér líkar stórvel við presta. Finnst þetta gott og manneskjulegt fólk upp til hópa og hafa reynst mér vel þegar á hefur þurft að halda sem og mörgum í gegnum vinnuna mína. Svo ég hef ekkert á prestana, nema kannski á einn og einn kaþólskan.

Í mínum huga er prestar mildir og þægilegir. Maður finnur fyrir öryggistilfinningu. Svipaðri og þegar Bogi les fréttirnar, það er röddin. Það eru samt til öfugsnúnir prestar.

Einu sinni, þegar Svala mín var um það bil tólf ára og jók skyndilega neysluna, uppgötvaði semsagt lystisemdir lífsins, eins og t.d. maskarann, skyndibitamatinn og merkjafötin, vantaði hana meiri pening. Meira en við vorum viljug til að láta af hendi í þessháttar óþarfa. Hún frétti að það væru ágætis laun við að syngja í kirkjukór, fór í áheyrnapróf og fékk djobbið. Því þurftum við að skutla henni út í sveit í sveitakirkju í sunnudagsmessu endrum og eins og þar með sitja messurnar og er presturinn þar mjög minnisstæður. Hún var ný í sókninni, rúmlega þrítug, alveg gráhærð, með grá augu og gráa húð. Það hvarflaði að mér að hún væri afturgengin. Allan tímann var hún afskaplega reið. Þegar hún steig upp í predikunarstólinn, hækkaði röddin og hún hreinlega þrumaði yfir okkur. Tilfinningin var svipuð og að stinga hausnum út um bílglugga á hraðbrautinni. Ég náði vart andanum.2014-11-24 11.59.48Kennarinn minn í gær minnti mig óþægilega mikið á þennan prest. Hún byrjaði sem góður prestur og svo varð hún næstum íll. Hún þrumaði vélrænt yfir okkur kenningum um lærdóm og breytingar og við sátum bara agndofa, sögðum ekki orð. Síðan sagði hún skyndilega: „Det går ikke altid som præsten prædiker“ (hlutirnir ganga ekki alltaf eins og presturinn predikar eða eitthvað þvíumlíkt). 

Og þarna hugsaði ég: „Vá, hvaðan kom þetta…? Veit hún sjálf að hún talar eins og prestur??? Síðan sagði hún: „Mér finnst ég tala mest, þið segið ekkert…“. Það er nú augljóst, maður talar venjulega ekki í kirkju.

Hún lítur líka út eins og presturinn í sveitakirkjunni þar sem Svala söng fyrir peninginn. Það er ekkert töff að vera 45 ára og líta út eins og 65 ára og það púlla alls ekki allar að ganga um brjóstahaldaralausar, jafnvel þótt við séum sköpunarverk Guðs og jafnvel þó að maður sé með svo margar háskólagráður ofan á háskólagráðuna að axlirnar eru signar eins og á gömlum signum fiski. Ég lærði ekkert í gær og heldur ekkert í dag þar sem hún þrumaði yfir okkur í gegnum netið. Veit ekki hvort ég á að kenna geðvonsku minni um eða kennaranum í prestlíkinu. Er nefnilega í tveggja daga geðvonskukasti út af engu. Kom bara.

Til að reyna að bæta skapið googlaði ég myndir af Birni Hlyni. AR-140119303

Ég er ekki að fatta afhverju hann leyfði Sofie Gråbøl að kyssa sig á Reyðarfirði í gær. Hún sem er alltaf svo afundin. Vona að hann endurtaki ekki þessi mistök í næstu viku. Vissuði að ég hef séð Björn beran af ofan á stuttu færi? Sú mynd er fast greypt í heilann á mér svo lengi sem ég lifi. Ég myndi borga fyrir náttúrupassann allan daginn ef Björn væri náttúruperla. (Þessi síðusta setning var fengin úr Hraðfréttunum í kvöld).

Ég er annars búin að horfa á RÚV í allt kvöld, sem og önnur kvöld. Ekkert fyllerí hér á bæ, vakna kl. 5.45 á morgun og þessvegna var Útsvar vel við hæfi. Hvernig gátu þau ekki fattað myndaruglið? Ég sá Tarantino og Uma Thurman á innan við 2 sekúndum. Auðveldasta myndarugl hingað til. Allavega auðveldara en Hanna Birna og Vigdís Hauks.

Annars var ég eiginlega að uppgötva nýja tónlist. Sem hefur verið spiluð í útvarpinu aðeins í u.þ.b. tvö ár. Ég fattaði hana á þorrablótinu um síðustu helgi og er strax orðin djúpt sokkin. Hún hefur einnig bætt skapið í dag.

Ég spurði Fúsa hvort þeir væri ekki æðislegir. Hann vissi það nú ekki. Við erum ekkert alltaf með nákvæmlega eins tónlistarsmekk. Eiginlega örsjaldan. Hann er ekkert alltof hrifin af svona strákpjökkum.

Þangað til ég var búin að kanna málið og gat sagt honum að þeir væru Þýskir. Þá komust þeir beint í bás með Von Stauffenberg, Sophie Scholl, Joachim Löv, Liesel Meminger, Klose, Klesse, Þorsteini lækni, Klinsmann og fleiri góðum og gildum Þjóðverjum.

Nú má ég hlusta í friði því þeir koma þaðan sem þeir koma.

Kær kveðja

ykkar Daggalagga.

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *