Allar handverksmyndaáskoranirnar…

Það er nú meira hvað áskoranirnar um að setja út handverksmynd streyma inn til mín. Ég er bara alveg að drukkna! Þetta fyllir vegginn minn á Facebook þannig að ekkert annað kemst að og einkaskilaboðahólfið er rauðglóandi. Hef nú bara aldrei vetað annað eins.

Það eina í stöðunni er að gera bara blogg, annars fæ ég aldrei frið frá öllum áskorununum og þær myndu halda áfram að hrannast upp eins og saltfiskflök í stöflum og ég næði ekki andanum því að ég væri neðst undir þessu öllu saman.

Það er engin tilviljun að handverksmyndaáskorarnar séu að gleypa mig alla með húð og hári, þar sem ég hef löngum verið þekkt fyrir einstaka fingrafimi og þrautsegju.

Jæja, förum að byrja á þessu því listinn er nánast ótæmandi.

Allt handverkið sem ég framleiddi í barnæsku hafði óbilandi notagildi. Tökum nokkur dæmi:

  • Frístandandi hilla -enn notuð í stofunni á Eiðum undir risastórar fræðibækur sem pabbi heitinn keypti af farandsölumönnum sem komu í sveitina með fullfermdan bíl og fóru á honum tómum til baka.
  • Önnur hilla sem hangir í eldhúsinu á Eiðum -hún er reyndar afar óvinsæl hilla því fólk rekur oft hausinn í hana og það er sárt.
  • Smjörhnífur úr spýtu -enn til og komin til Danmerkur en ekki notaður því hann þolir tæplega uppþvottavélina. Þessi hnífur er þrælmerkilegt listaverk. Nokkuð beinn og bogadreginn.

Allt þetta þrennt að ofan og mikið meira til var unnið undir góðri leiðsögn Eyþórs smíðakennara.

  • Grænar krumpubuxur -skylduverkefni í handmennt þegar ég var ca. 13 ára og ég hreinlega elskaði þær. Fór í þeim á Litluskólaball, Fjarðarball, ball í Herðubreið, Valaskjálf, Hjaltalundi og Ýdölum. Einnig klæddist ég þeim í Atlavík, á Landsmóti hestamanna í Skagafirði, á 1929 á Akureyri og á ættarmóti í Loðmundarfirði og í Eyjafirði. Játning: Ég var stórlega að ýkja, ég elskaði þær ekki. Ég hef aldrei trúað því upp á þáverandi handmenntarkennara að hafa „valið“ þetta verkefni handa okkur, heldur hef ég alltaf verið sannfærð um að  þessi buxnahugmynd hafi komið beint frá menntamálaráðuneytinu.

Já listinn er ótæmandi þótt ég muni ekki eftir fleiru í augnablikinu.

Þegar ég var ólétt af Svölu litlu kastaði ég mér út í lopapeysugerð því einhver í fjölskyldunni varð að halda áfram prjónaskapnum þegar amma yrði öll, sem hún síðan varð rúmlega ári seinna. Svala heitin tengdamóðir mín hjálpaði mér með herlegheitin, enda ekkert smá verkefni sem ég réðist í.

IMG_6001

Ég prjónaði þessa peysu með heilu helling af litamynstri og auk þess í 4XL. Það er stórt. Enda er peysan stór. Á góðum degi geta verið þrjár meðalmanneskjur í henni. Peysan er bara geymd á Eiðum og nýttist hún pabba vel í öllum hrollinum síðasta árið hans.

Eftir þessa peysuvelgengni hélt ég ótrauð áfram og réðist á smábarnaprjónaskap en ég var svo lengi með peysuna að Svala litla var löngu vaxin upp úr henni þegar ég var að klára hina ermina.

Eftir það gerði ég ekki neitt í mörg ár fyrir utan einn hest úr trölladeigsleir. Hann Hómer minn en ég hef bloggað um hann áður. Linkur hér.

Árið 2007 tók ég aftur kipp og prjónaði peysu á Aldísi með Sara Lund (Forbrydelsen/Glæpurinn) mynstrinu en breytti litunum algjörlega og gleymdi að fara eftir uppskriftinni sem varð til þess að peysan varð algjörlega mín hönnum og frekar flott. En því miður ekki mikið notuð, Aldísi klæjaði. Andskotans bull.

En þá varð ekki aftur snúið!

IMG_2417

Þessi varð til á augabragði og síðar löguð og stytt.

IMG_2423

Einnig þessi og trúið mér eða ei, ég prjónaði fyrst svona flík handa mömmu og gaf henni í jólagjöf. Jeminn hvað ég var stollt. Þótt þetta sé bara kassi með ermum, er þetta afar flókið verk. Það þurfi aðeins að hugsa og passa sig að láta þetta ekki verða of stórt.

IMG_2428

Tala nú ekki um ermarnar. Mitt helsta vandamál er geta ekki fylgt uppskriftum. Þessvegna urðu ermarnar svona ótrúlega fallega abstraktar. Hugsið ykkur vinnuna sem liggur að baki…

IMG_2397

Ég hef ekki bara fengist við prjónahandverk. Nei nei, ég er eðlilega einstaklega fjölhæf handverkskona og hef ekki gleymt timburhandbragðinu frá því í barnæsku. Þarna fann ég t.d. stiga einhversstaðar út á víðavangi, sagaði neðan af honum (eða ofan), málaði og hengdi síðan á hann handklæði. Ég var dauðþreytt eftir þá vinnu.

IMG_2452

Þarna vantaði mig ramma utan um gömlu teikningarnar af húsinu okkar og fann spýtur út á víðavangi, málaði þær, nelgdi saman og hengdi upp. Ég var með harðsperrur í marga daga á eftir og nokkur grá hár spruttu fram vegna heilabrotanna.

IMG_2403Í húsinu mínu eru fjórir stigar sem hafa ekki það hlutverk að vera stigar. Þessi er gott dæmi um afskaplega gott handbragð þar sem ég þurrkaði yfir hann og pússaði aðeins með gulum sandpappír nr. 120. Þessi stigi er mjög góður til að geyma belti og ljónabúning. Auk þess þolir hann mikinn þunga þegar fatahrúgan verður einum of. Hún var fjarlægð fyrir myndatökuna.

Hina tvo stigana fáiði ekki að sjá að svo stöddu en trúið mér, þeirra hlutverk er töff.

Aftur að prjónaskapnum. Já nei nei, ég var ekkert búin.

IMG_2435

Þessu stykki hef ég einhverntímann byrjað á en ekki klárað. Get engan veginn gert mér í hugarlund hvað þetta hefur átt að vera, en líklega er þetta frá kóraltímanum, þ.e.a.s. þegar kóralliturinn var í tísku ca árið 2009.

IMG_2434

Nöj nöj þarna er annað sem ég hef byrjað á en líklega bara lagst í flensu eða eitthvað því þetta virðist einnig óklárað. Þetta gæti hafa átt að vera stroff. IMG_2444Það geta líklega ekki margir státað af að eiga smjörpappírssnið í prjónadótinu sínu. Veit samt ekki af hverju þetta snið á að vera. Get lítið lesið út úr því. En þetta er „pró“ eða atvinnumennskulegt eins og maður segir á góðri íslensku.IMG_2409Þessa peysu prjónaði ég líka… langleiðina upp. Verð víst að játa að Heiðbjört dróg mig að landi því mig langaði til að fara í henni (peysunni) til Íslands og var komin í tímaþröng. Hún átti að vera stór og víð (over size) en varð óvart millistærð sem gerir það að verkum að ég stækka um 22 kg í henni. Í framtíðinni ætla ég að þrengja hana því hún er þess virði.

IMG_2438IMG_2429

Það vantar ekki efniviðinn. Það virðist sem ég hafi verið nokkuð stórhuga um tíma. Svipað og Bretar á nýlendutímanum. Þetta skemmist svosem ekki og hver veit nema andinn komi yfir mig einn góðviðrisdaginn. Hann hefur allavega verið fjarverandi síðan einhverntíma í fyrra en samt er ég enn meðlimur í prjónaklúbbnum, nú bara sem áhorfandi, borðari og drekkari.

Hvort handverksmyndaáskorununum linnir eftir þessa færslu er ómögulegt að vita, við verðum bara að bíða og sjá til hvort það rýmkist eitthvað til á veggnum mínum á Facebook.

Að lokum vil ég bara segja: „þið getið þetta líka“. Þetta er nefnilega ekki eins flókið eins og þetta sýnist.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *