Þegar eiginmaðurinn segir fréttir í sófanum…

Ég hafði í hyggju að henda í eina færslu í kvöld um ákveðinn líkamsvessa en ég fæ engan frið. Húsbóndinn hefur nefnilega plantað sér í sófann við hliðina á mér með símann sinn og tjáir sig um ALLAR fréttirnar í dag. Hin árlega útihátíð stjórnmálamanna og almennings á Borgundarhólmi í júni er meðal þess efnis sem hann hefur sterkar skoðanir á í kvöld. Einnig fær Margrét Friðriksdóttir frumkvöðlafræðingur sinn skammt. „Frumkvöðlafræðingur“… ég rak upp stór augu, þetta hafði ég ekki heyrt áður. Þetta jafnast nú bara næstum á við „eldfjallafræðing“. Dagný Sylvía Sævarsdóttir eldfjalla- og frumkvöðlafræðingur. Þetta væri meira en fullkominn titill. Reyndar hélt ég að þessi titill væri bara grín þangað til ég googlaði og sá að þetta hangir saman við nýsköpun. Nýsköpun og frumkvöðlafræði. Já auðvitað… ein í vinnunni minni er með mastersgráðu í þessu. Stundum er bara engin tungumálatenging í höfðinu á mér.

Gamli Gaur hefur einnig sagt mér sorglegar fréttir, bæði um andlát Halldórs Á, en hann var að austan eins og við og um 8000 flóttamenn frá Myanmar sem reka um á hriplekum döllum um Suður Kínahaf og fá hvergi að fara í land. Afhverju fara þeir ekki bara heim til Myamar aftur? Jú sjáiði til, þeir eru múslimskur hópur sem heitir Rohingya og samkvæmt FN er þetta fólk eitt það mest ofsótta fólk í heiminum. Því hefur verið hótað, pyntað, mismunað og drepið í mörg ár. Þessvegna verður að hleypa því í land.

Eiginmaðurinn sýndi mér mynd af úri og sagði að honum finndist það flott og langaði í svipað þegar hann yrði fimmtugur.

2015-05-18 01.15.43Hann er farin að sjá ofsjónir sá gamli, það er ekki neitt einasta úr á þessari mynd!

Fúsi minn fylgist líka spenntur með Eurovision og ætlar að kjósa Finnana. Hann gerir ráð fyrir að vinna sér inn vinsældarstig hjá tengdamóður sinni og mági því Finnarnir eru með downs syndrom. Ekki allir Finnar, heldur bara þeir sem eru að keppa í Eurovision 2015. Pertti-Kurikan-Nimipaivat-PKNÖnnur dóttirin kom áðan, truflaði föður sinn í fréttaflutningnum og sagði okkur frá samtali sem hún hafði átt við vinkonu sína í dag. Vinkonan sagði að fjölskyldan hefði verið að tala um og greina sjálfa sig yfir kvöldmatnum í gærkvöldi: Mamman sagði að dóttirin (vinkonan) væri líklega sú sem hefði mesta sjálfstraustið af öllum í fjölskyldunni. Ef hún hefði verið strákur hefði hún getað orðið forstjóri. Vinkonan sagði Svölu frá þessu eins og ekkert væri eðlilegra og með stolti.

Er skrítið að maður verði svolítið tens annað slagið?

Eiginmaðurinn hefur reynt að segja mér frá óteljandi fjölda frétta sem hann rekst á þegar hann blaðar í símanum. T.d. var ein um það að ef allt mannkynið væri tvíkynja. Hvað þá? Annars man ég ekki nærri því allt, réttara sagt eiginlega ekkert af því sem hann les upp.

Stundum, en bara stundum erum við Fúsi ekki á sömu bylgjulengd. Ég er klárlega þögla týpan, hann er símalandi týpan. Trúið mér… eða „við trúum“ eins og rússneski eurovision engillinn söng svo fallega áðan. Ég get orðið eilítið pirruð á þessu masi. Hann verður alveg snar þegar ég svara bara með „mmm“… „mmm“… „mmm“. Hann segir að það sé greinilegt að ég sé ekki að hlusta. Ég geri samt mitt besta.

Að lokum vil ég nota tækifærið og auglýsa Pink Ladies síðuna okkar (smellið hérna). Það eru komnar inn fullt af nýjum myndum og enn fleiri á leiðinni. Ljósmyndarinn okkar, hann Pato, vinnur hörðum höndum að því að framkalla myndirnar en það hefur tekið tíma þar sem við réðumst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur í síðustu tvö skipti. Að sjálfsögðu munu öll læk og deilingar gleðja okkar litlu hjörtu og hvetja okkur til áframhaldandi dáða.11194488_10153202698222347_8079460545412261333_o

 Ljósmynd: Pato Soto

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *