Móðurlíf á eftirlaunum…

Svona ykkur að segja, svo að það fari nú ekkert lengra, hef ég átt í vandræðum með getnaðarvörnina mína. Ekki það að ég sé á grafarbakkanum. Langt í frá.

Í gær ræddi ég það við vinnufélagana, svona eins og maður gerir á dæmigerðum vinnustað. Við sátum í miðjunni á gjörgæslunni, þar sem allt gerist. Þar sem allir eru (nema sjúklingarnir og þeir sem passa þá). Einn svæfingarlæknir sat og talaði við lungnalækni. Annar svæfingarlæknir sat og skráði samviskulega allt sem skrá á, á hverjum degi. Sendlarnir stóðu og döðruðu við nýju nemana mína. Afþurrkarinn ræddi um Róm við deildarhjúkkuna og mátust þær um hvor væri brúnni.

Ég sat og ræddi í trúnaði við tvær vinnufélögur. Sagði þeim frá raunum mínum um leið og ég skrifaði heimilislækninum tölvupóst og bað hann um að senda beiðni til kvensjúkdómalæknisins. Og að ég þyrfi að spá og spekulera í nýrri getnaðarvörn. Þá segir Sigga (leyninafn) um leið og hún stendur upp til að svara símanum: „þú þarft ekkert getnaðarvörn, móðurlífið í þér er líklegast komið á eftirlaunaaldur“. Orðrétt á dönsku, sagði hún: „du har da ikke brug for noget, din uterus er nok gået på pension“. open-uri20140312-28882-1yr3l7rHún sagði þetta hátt og snjallt. Hún er bara þrítugt krakkarasskat. Það sem eftir var af deginum í gær og í dag, hefur fólk umgengist mig með nærgætni, ekki almennilega vitað hvað ætti að segja við mig og gefið mér óteljandi klöpp á bakið.

Ég fór heim og ræddi þetta við Gamla Gaur. Eftir langa útreikninga í Excel og á gamlan vasareikni fundum við út að Uterusinn minn er ekki að fara á pension. Síður en svo, þetta er allt saman misskilningur, ég er bara 39.8 ára og gæti þessvegna heitið Freyja.

Þessvegna varð að ræða getnaðarvörn yfir kvöldmatnum. Bara við tvö, borðandi rúgbrauð og avokado. Ég kvartaði yfir verðinu á nýrri getnaðarvörn. 23.800 kall. Fúsi velti fyrir sér klippingu. Hvað það kostaði? Hahaha kostar? Það kostar ekki krónu að láta klippa á. Við þessar upplýsingar spertist sparsami Sigfús allur upp. Þangað til ég sagði honum frá áhættunni. Það fylgir nefnilega alltaf áhætta þegar hnífar eru annars vegar. T.d. er algengt að kvensjúkdómalæknarnir skeri þvagleiðarana í sundur, þarmaskurðlæknarnir skera gat í legið og svo fram eftir götunum. Ekki afþví að þeir eru klaufskir, heldur vegna þess að það er allt í einum hrærigraut inn í manni. Ég man t.d. á gömlu deildinni minni þegar ungi maðurinn kom inn með snúið upp á pungsann. Þetta er bráðaaðgerð og í flýtinum tók læknirinn stóra hnífinn, sveiflaði honum ógætilega, rak sig í tillann og skar hann óvart af við rót. Algjörlega óvart. Það varð uppi fótur og fit, því maðurinn var bara 23 ára, nýgiftur og sannkristinn. Þau hjónin höfðu ætlað Guði að stjórna fjölda barna í hjónabandinu. Þau höfðu vonast eftir rútufylli.

Fúsi er steinhættur við klippingu og segir að ég eigi að spandera því sem þurfi í almennilega getnaðarvörn.

En í guðana bænum, verið ekki að útvarpa þessu neitt. Ég er í þetta skiptið að blogga í trúnaði.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *