Húrra, við ætlum í Ikea

Við hjónin fengum alveg snilldarhugmynd í gær og þess vegna þurfum við að fara í Ikea á morgun. Ég endurtek; þurfum (ekki viljum).

verdaechtiger-gegenstand

Síðast fórum við í Ikea árið 2013. Það var skotferð enda áttum við að vera mætt í fimmtugsafmæli á sama sólarhring. Þar síðast fór Fúsi einn í Ikea… það var árið 2008.

Ég meina, við þurfum að keyra í klukkutíma og korter í næsta Ikea, þetta er ekki alveg við túnfótinn hjá okkur.

Við Fúsi erum nokkuð samtaka þegar kemur að búðarrápi. Nema hvað ég nota skynsemina en Fúsi notar tilfinningarnar. Báðum leiðist okkur óskaplega inn í búðum. Ég fæ íllt í bakið og á erfitt með andardrátt. Fúsi bilast bara.

T.d. í dag: Við þurftum að fara inn í eina húsgagnabúð og tók það ca. 15 mínútur. Það var ekkert verið að tvínóna við hlutina. Þar á eftir var farið inn í skóbúð. Við ætluðum bæði að versla okkur skó. Fúsi keypti sér herralega töffaraskó, ég keypti mér svarta sumarsandala með fisk yfir ristina. Þetta ferli tók um það bil 10 mínútur.

Ég var búin að ákveða að Fúsi keypti sér föt, bæði buxur og eitthvað að ofan. Við fórum inn í Tøjexperten og Fúsi sagði: „ég ætla að fá svona og svona buxur“. Afgreiðslumaðurinn kom með fernar. Fúsi mátaði einar, þær pössuðu og hann sagði: „já þær eru fínar“. En hann harðneytaði að kaupa eitthvað að ofan því honum fannst eftir… tja 15 sekúndna leit, ekkert flott. Ekki neitt einasta!

Ég stakk upp á að við kíktum í aðra búð til að ljúka þessu af en NEI. Þá setti Sigfús mér stólinn fyrir dyrnar. „ÉG ER BÚINN AÐ FARA Í TVÆR BÚÐIR OG ÞAÐ ER NÓG!“

„Nú förum við og fáum okkur kaffi eins og þú lofaðir“ sagði hann, tók pokana og nánast hljóp upp göngugötuna og beint inn á Kislings sem er langbesta kaffihús sem sprottið hefur upp í Sönderborg. Ég þurfti nú eitthvað sterkara en kaffi því tvær búðir með honum er líka alveg yfirdrifið nóg fyrir mig. Ég bókstaflega þambaði stórt glas af Aperol Spritz og bruddi klakana með hávaða.

Á morgun verður farið í Ikea… Fúsi ræður sér ekki fyrir kæti. Klappandi lófunum í sífellu. Nei þetta var grín.

Fúsi: „ertu búin að ákveða algjörlega hvað á að kaupa?“

Ég: „já eiginlega“

F: „já því það verður ekki keypt neitt umfram það“

É: „nei nei, en ef ég sé eitthvað…“

F: „já nei, þú ert ert ekki að fara að sjá neitt!“

É: „nei elskan mín, auðvitað ekki“

F: „því Ikea er svo úthugsað. Það var andsetinn sálfræðingur sem var fenginn til að skipuleggja þessa búð. Maður fer inn um einar dyr og kemst ekki út um þær aftur. Maður verður að fara hringinn og framhjá öllu og kemst bara út í hinum endanum…“

É: „æ hættu þessu tuði, við ÞURFUM að fara og það er best að ljúka því af.

F: „En ef ég trompast allt í einu, æði út og tek strætó í vitlausa átt???“

Það er þetta sem ég er að tala um… Ég nota skynsemina – Hann notar tilfinningarnar. Hann væri vís til að trompast og taka strætó. Í vitlausa átt. ikeaÞví við ætlum í Ikea í Kiel og um leið og hann fer út fyrir lóðarmörkin heima hjá okkur, villist hann. Hvað þá þegar hann fer yfir landarmærin. Hann Sigfús minn snýst bara í hringi og fer síðan í vitlausa átt.

Mikið hlakka ég til morgundagsins 🙂

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *