Eftir að við komum heim úr Ikea.

Jæja, þá erum við hjónin komin heim úr Ikea ferðinni sem við fórum í á laugardaginn. Hún tók átta klukkutíma allt í allt! Eins og ein vakt í vinnunni nema launalaus með öllu og rúmlega það. Reyndar voru tvær matarpásur inn í þessu þar sem ég verð alltaf svo svöng og get þá borðað allt sem að kjafti kemur. Líka plastmat í Ikea. Við villtumst líka inn í Ikea. Og lögðumst í eitt rúmið og sofnuðum. Síðan tók keyrslan þrjá klukkutíma því aftanívagninn tók verulega í. Hann var fullfermdur á leiðinni heim því við keyptum þrjá fjórðu af Ikea.

2015-07-04 16.48.39

Þið eruð eflaust að bíða eftir að ég segi ykkur frá hvernig Fúsa Fellamanni og tilfinningunum hans reiddi af í þessari ferð. En þar verð ég að vísa til lokaorðanna í Austurglugganum næstkomandi föstudag. Hann kostar bara fimmhundruðkall eða svo. (Austurglugginn, ekki Fúsi).

Ég aftur á móti þurfti tíma til að jafna mig þar sem þetta tók verulega á andlegu hliðina.

Í gærmorgun vaknaði ég um sjö leytið við að morgunsólin umvafði mig hlýjum geislum sínum og bauð mér brosandi góðan daginn. Grín, ég þurfti bara að pissa. Ég svipti af mér sængurverinu og fann um leið og ég stóð upp að það var enn ósýnilegt þykkt lag af Ikea utan á mér, svipað og belgur. Eitthvað sem ég yrði að skola í burtu. Því klæddi ég mig í snatri í stuttbuxur og bol, tók hundinn og ók í loftköstum niður á strönd. Áður en það yrði of heitt.

Ég get svo svarið það, þarna sem ég lá snemma morguns og svamlaði í sjónum, fann ég hvernig verslunarferð gærdagsins skolaðist af mér út í Sönderborgflóann, niður með Flensburgarfirði og líklegast alla leið í Kielarkanalinn og þaðan út í Atlandshafið. Við Vaskur horfðum á eftir þessu. Þetta leit út eins og risavaxin marglytta. Síðan fórum við upp úr og létum okkur þorna í sólinni. Sem er ofsögum sagt því Vaskur með sinn tvöfalda feld var fyrst orðinn þurr um kvöldmatarleytið í gærkvöldi.

Daginn í dag ætla ég að nýta í að gera lagalista fyrir afmælið. Kannski klippa eitt tré líka. En mest að gera lagalista. Ég er komin með Helga Björns eins og hann leggur sig, en er það nóg? Er kannski of sorglegt að spila lagið „Blakkur“ um það bil fjórum sinnum í fertugsafmæli?

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *