Allt þetta sem betur má fara.

Sum atriði í hversdagsleikanum eru bara alls ekki nógu góð. Lífið er enginn leikur þó svo maður vilji það og láti sem svo. Það koma upp hlutir í hverri einustu viku sem mega missa sín.

Um daginn hafði ég farið í nokkra klukkutíma fegrunaraðgerð til vinkonu minnar og var að venju sársvöng að aðgerðinni lokinni. Maður brennir nefnilega heilan helling bara við það eitt að sitja og horfa á sjálfa sig í spegli. Ég kom við í hverfisbakaríinu og greip með mér djúsí hollustu samloku. Þegar ég kom heim og fletti utan af henni og beit í hana, rak mig í rogastans. Það var gúrka inn í henni.f198e8878c8a4e97a26b84ef1fa83dab_agurk

Þetta getur gert mig alveg galna. Þegar maður eyðir hellings pening í alvöru loku og það er búið að troða gúrku á milli. Gúrka á ekki heima í samlokum, né í salötum ef út í það er farið. Gúrka er bragðlaus með öllu og því tilgangslaus. Einungis uppfyllingarefni til að spara annað dýrara og betra. Þess vegna er þetta afar lágkúrulegt af fínu bakaríi að leggjast svona lágt.

Gúrka á einungis heima í grískri dressingu með hellings hvítlauk og salti. Eða í sérstöku gúskusalati sem sést ekki í fyrir pipari. Og án kjarnans. Það er það versta þegar gúrkunni er skellt á borð með kjarnanum í.

Ég sé bara engan tilgang með gúrkum.

Annað sem má missa sig í hversdagsleikanum er ákveðið atriði á nóttunni. Ég á það til að gefa frá mér undurfögur og afar heillandi hljóð í svefni. Sérstaklega ef ég er yfir mig þreytt, kvefuð eða prómillan er meiri en 0,0. Fúsa aftur í móti finnst þetta ekki róandi hljóð. Hann er svo viðkvæmur karlanginn. Ég sofna alltaf á undan og hann segir að ég trufli sig. Og hvað tekur hann til bragðs? Jú hann danglar í mig, pikkar í mig eða borar í bakið á mér.

Ég upplifi þetta öðruvísi. Þegar hann danglar, þá virðist það í svefnrofanum sem hann kýli mig af öllum kröftum. Og mig sárnar alltaf mjög mikið. Ég hef spurt hann kjökrandi, afhverju?

Nú er best að taka það fram að mesta persónulega ofbeldi sem ég hef upplifað á ævinni er þegar strákarnir á Eiðum voru alltaf að dúndra í öxlina á mér og þegar ég fékk fljúgandi kaffibrúsa í bakið á Geðinu um árið. Svo engin áfallastreituröskun í gangi hérna.

Þegar Fúsi pikkar í mig í nóttunni, finnst mér eins og hann sé með litla útgáfu af höggbor og ætlar aldrei að hætta. Ég á bágt með að trúa þessu upp á hann.

Það versta er þegar hann borar í bakið á mér. Það er hryllingur! Mér finnst hann vera kominn inn í mænuna og vera að sækja mænuvökva sér til rannsóknar. Ég skil ekki í svefnrofanum, afhverju hann notar ekki bara nál eins og annað fólk. Finnst mjög óþægileg tilfinning að hafa putta inn í mænunni minni.

Á morganna þarf ég tíma til að jafna mig. Stundum er ég sár út í hann fram undir hádegi.

Gúrkan og mænuborið eru þó lítilræði í samanburði við það versta sem á undanfarna daga mína hefur drifið. Mér er nefnilega að verða ljóst að giftingarhringurinn er týndur, enn einu sinni.

Nú í alvöru.

Síðast þegar hann týndist, var hann undir hitaboxinu undir sætinu í bílnum. Ég vissi það alltaf en sá hann ekki í upp undir hálft ár. Það var árið 2013.

Núna man ég ekki hvenær ég sá hann síðast. Það eru orðnir margir margir mánuðir síðan. Ég hugsaði alltaf með mér: „hann finnst“. En hann hefur ekki fundist. Nú er ég orðin verulega svartsýn og skyndilega gerði ég mér grein fyrir að ég get ekki hugsað mér að týna honum.

Hann er ekkert merkilegur, ósköp mjór og látlaus. Við keyptum hringana árið 1995, þá var lítilsháttar kreppa og hringatískan mjó eftir því. Við trúlofuðum okkur þegar ég var komin 7 mánuði á leið. Mig minnir að það hafi verið 16. júní. Fúsi hefur ekki hugmynd. Ég hélt að það stæði inn í hringnum svo ég bað Fúsa um hringinn hans. Hann sagðist ekki ná honum af. Ég sagði honum að rétta hendina upp. ZTOvkkTIHvokrSldlvp3Ama_S_KONGgDNpAe1jAA3Fo

Síðan gleymdi ég að segja honum að setja hendina aftur niður. Hann var svona allan fréttatímann. Hringurinn rann því af.

En trúlofunardagsetninginn stendur ekki inn í hringnum. Það var örugglega 16. júni 1995. Mér minnir að ég hafi ætlað að hafa það 17. júní en gat ekki beðið.

Giftingardagurinn var svo tólf árum seinna eða 1. des 2007. Sama dag og við keyptum húsið.

Hringurinn var orðinn í það þrengsta. Kannski hef ég bætt aðeins á mig á þessum tuttugu árum. Alltof stórir skammtar af rúkóla og maður fer bara í hundana. Auk þess að vera starfsmaður á sjúkrahúsi. Alltaf að taka hringinn af, setja á, taka af,  geyma og gleyma honum í veskinu, á baðherberginu, á skápslyklunum í vinnunni, í hinum og þessum gluggakistum, borðum og hillum. Þrátt fyrir eina háskólagráðu má hringurinn ekki vera með. Ekki heilagi giftingarhringurinn sem er hreinni en allt hreint. Þótt háskólagráðurnar væru fimm, yrði maður samt að taka hann af. Ótrúlegt.

B5EGsXVHxxm78G0mlH9Uz7rRMGQ1fVEujkuifBR6Pls

Skyndilega, eftir að hafa verið kærulaus gagnvart honum í þessi tólf ár sem maður hefur verið viðloðinn sjúkrahúsið, áttar maður sig á hversu mikils virði hann er.

Passið hringinn ykkar. Hann verður ekki bættur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *