Loftsteinn og kynlíf í himingeimnum

Ég er búin með Orange is the new black þættina hvort sem þið trúið mér eða ekki. Fann leið til að horfa, leið sem þó ekki truflaði hversdagsleikann. Get því miður ekki sagt ykkur hvernig ég fór að því að horfa á 39 þætti á 6 vikum. Yrði dæmd. Fúsi hefur nú þegar dæmt mig sem þáttasjúkling. 

Ég elska þessa þætti, þeir eru vel leiknir og gefa góða mynd af hvernig manneskjan bregst við í aðstæðum sem þessum (að vera í fangelsi). Hversu mikill einmanaleiki er, þunglyndi, klikkun, biturð, neysla og svona má lengi upp telja. Hversu rotið kerfið er og hversu takmarkaðir möguleikarnir eru þegar þær loksins verða frjálsar aftur. Þættirnir eru byggðir á minningum konu sem var í fangelsi í Bandaríkjunum.

Ég héld mikið upp á persónurnar í þáttunum og sakna þeirra – án gríns.

Ég gæti hugsað mér að hafa OITNB þema. Áklæðið utan af gamla sófanum (Hill Billy sófanum sem endaði út í garði í sumar) myndi sóma sér vel sem búningur. Ég á efni í ca. 40 búninga.

Á meðan ég horfði, sá ég konurnar í hverju horni. Boo var að versla í Fötex um daginn, hún var á undan mér í röðinni að kassanum.

oitnb_big_boo2Norma skúrar á sjúkrahúsinu.

oitnb_pds_107_h

Daya hef ég oft mætt á hjóli.

DayaPromo2Og rússneska Red fylgir mér eins og skugginn. Ég sé henni bregða fyrir allsstaðar. Síðast sá ég hana niður á höfn með lítla hundinn sinn.

maxresdefault

S1Cast

Þær eru allar hérna í Sönderborg. Á hverju götuhorni.

Meira að segja Soso litla. Eða hún er í Vejle.Brook1

Ég er með henni í hóp í skólanum. í þáttunum talar Soso út í eitt og fólk á því erfitt með að höndla hana. Í skólanum talar Soso út í eitt og ég man ekki hvað hún heitir í alvörunni. Inn í mér kalla ég hana Soso. Hún er líka af asískum uppruna. Í gær var skóli í þriðja skiptið og því þriðji hittingurinn. Við erum þrjú í hópnum (alltaf hópavinna í Danmörku), hann er sjúkraþjálfi og mjög fínn en Soso er hjúkrunarfræðingur. Hún spurði mig hversu mikla vasa- og fatapeninga við hefðum látið stelpurnar fá þegar þær voru yngri. Hvar og hvernig ég hefði fengið tölvuna mína því mín líktist vinnutölvunni hennar. Hvort mig hefði alltaf langað til að verða hjúkrunarfræðingur??? Og þegar ég sagði henni að ef ég væri tvítug í dag með hæstu einkunn eftir stúdentspróf, myndi ég ekki velja hjúkrunarfræði, þá rak hana í rogastans og varð eiginlega bara blá. Sjúkraþjálfinn var komin í viðbragðsstöðu til að nudda hana en hún jafnaði sig þegar mér sagðist líka vel í vinnunni. Soso í skólanum er týpískur hjúkrunarfræðingur sem lítur á starfið sitt sem kall og gengur í síðri hettuúlpu og með bakpoka, þótt það sé 7 stiga hiti (sem er ekki úlpuveður nema maður sé orðin „eldri“).

Ég nefndi það í byrjun að þættirnir væru vel leiknir. Það eru nokkrar þarna sem leika betur en bara vel.

T.d. Uzo Aduba sem leikur Crazy Eyes. c059c85609a014675a63b876206d07fbCrasy Eyes er yndisleg persóna og ég stend mig að því að vera ósjálfrátt með taktana hennar. Fúsa finnst ég þá stórskrítin.

Í síðustu seríunni skrifar Crazy Eyes sögu eða annál. Hann heitir Time hump chronicles og ég veit hreinlega ekki hvernig ég á að þýða þetta á íslensku. Kannski Tímakynlífsannállinn. 

Fúsi hafði stundum horft á þættina með öðru auganu en þegar byrjað var að fjalla um Time hump chronicles vaknaði áhugi hans fyrir alvöru.

Fúsi minn hefur alltaf haft svo mikinn áhuga á geimnum.

Time hump chronicles fjallar um Geimaðmírál Rodcocker sem er í framtíðinni, Gilly sem er í fortíðinni og  Edwina sem getur ferðast um tímann en þó bara í aðra áttina. Hún á í stökustu vandræðum með að velja á milli þeirra tveggja.

Þetta er svæsin saga þar sem snípur verður að kálormi, Rodcocker er með tvö typpi, ein konan með þrjú göt og er rannsökuð af skeldýri og getnaðarlegi Vaselin maðurinn kemur sterkur inn og lyftir Edwina upp á hæstu hæðir. Rodcocker er þó aðalmaðurinn og hefur stundum samfarir við konur frá öðrum víddum með fjólubláa ástarvöðva og fullnægingartor (orgasmator).

.Crasy Eyes segir að þetta sé ekki um kynlíf, að þetta sé um ást. Þetta er um tvær manneskjur sem tengjast… ásamt fjórum öðrum og geimverum.

Þetta eru óborganlegar senur í þáttunum.

Og nú þegar ég var að minnast á að Fúsi hefði áhuga á geimnum…

Það hefur varla farið fram hjá ykkur að á laugardagskvöldið síðasta kl. 19.05 var hnefastór loftsteinn á ferð yfir yfir norðurhluta Póllands. Hann kom á 94.000 km hraða á klukkustund og sprakk þegar hann skall á gufuhvolfinu. Þetta var í fréttunum í tvo daga stanslaust.

Á sama tíma vorum við Vaskur að koma niður brekkuna hjá Mölledammen (tjörninni) og horfðum til suðausturs. Það var þá sem ég sagði upphátt: „HOLY SHIT“ og klóraði mér í hausnum.

Þegar heim var komið sagði ég ekki orð. Klukkutíma seinna mannaði ég mig upp…

Fúsi, ég sá eitthvað skrítið fyrir ofan þökin á Mölleparken, svona eins og græn púðursprenging og svo ljóshala á eftir sér, eða á undan. Gerðist mjög hratt. Mjög spes, ekki flugeldur, ekki stjörnuhrap, ekki flugvél… er ég nokkuð orðin klikk?“ 

cq5dam.web.1280.1280

(Þessi mynd er tekin af netinu og er frá Póllandi)

Við fórum á netið og fundum út að ég hafði þá séð þegar loftsteinninn sprakk yfir Póllandi. Hversu svalt er það? Ég skal svara þessu fyrir ykkur… MJÖG SVALT! Og ég af allri fjölskyldunni, ég sem hef minnstan áhuga á geimnum af okkur fjórum. Ég sem horfi ekki á Star Wars. Ég sem fer með á Interstellar, Gravity og The Martian af því að þau bjóða mér með (hafði reyndar gaman af þeim öllum), ég sem fæ þyngsli í bringuna þegar ég stari of lengi upp í stjörnubjartan himininn því ég get ekki hugsað svona langt og breitt.

https://www.youtube.com/watch?v=KweQzADFFUU

Við Mölledammen var hann ekki svona bjartur, enda þúsund kílómetrar frá tjörninni til Póllands. Samt var þetta flott og mjög sérstakt.

Já ég er bara öll í geimnum þessa dagana…

Í nótt ætla ég að dreyma geimdrauma með geimverum í.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *