Hvar verður þú 24. desember?

Eftirfarandi texti hefur verið að birtast á facebook undanfarna daga:

Það er mikilvægt að muna að ekki eru allir sem hlakka til jólanna. Sumir eru ekki umkringdir stórum skemmtilegum fjölskyldum. Sumir eru yfirbugaðir af sorg þegar þeir minnast ástvina sem eru ekki á meðal okkar. Fyrir marga er þetta þeirra fyrstu jól án tiltekinna ástvina og margir aðrir hafa misst ástvini á jólunum. Margir eru einmana og hafa engan til að deila jólahátíðinni með sér. Við þurfum öll ást, umhyggju og nærandi hugsanir núna.
Má ég biðja vini mína, hvar sem þið eruð, að þóknast mér og setja þessa stöðu á FB í klukkutíma til að veita stuðning til allra þeirra sem eiga við sorgir, fjölskylduvandamál, heilsuleysi , atvinnuleysi eða hvað sem hrjáir fólk.. Svo þeir viti að einhverjum þykir vænt um þá og gera það fyrir okkur öll, því að enginn er ónæmur. Ég vona að ég sjái þetta á FB veggnum hjá öllum vinum mínum, til að sýna siðferðilegan stuðning.

——————

Á föstudagskvöldið fórum við Fúsi til Flensburgar (í Þýskalandi) til að versla það sem okkur langaði í. Við keyptum svínahamborgarahrygg, Filippo Berio ólífuolíu og jólatrésseríu í lit. Af því að okkur langaði í það.

Eftir það, fórum við niður í miðbæ, lögðum við enda Roter strasse, til þess eins að rölta í gegnum þá götu, upplifa stemminguna þar og halda síðan áfram niður aðalverslunargötuna, hönd í hönd. Af því að við höfðum hvort annað til að halda í.

Í aðalverslunargötunni er krökt af litlum jólakofum sem selja þýskan götumat og ýmisskonar punch.

Þar var líka mikið af fólki sem óskaði eftir aur. Fólki sem plokkaði gítar, barði grilllok eða spilaði á harmonikku. Eða bara fólki sem sat og vonaðist eftir að maður léti smápening detta niður í dallinn.

Við Fúsi héldum áfram göngu okkar niður göngugötuna, þaðan niður hvítmálaðar upplýstar tröppur og niður í kjallara. Við ætluðum nefnilega að halda upp á giftingarafmælið okkar sem var um daginn, upp á aðventuna og komandi hátíð með því að borða á veitingarstaðnum Gnomenkeller. Niður í þessum kjallara var annar heimur en uppi á götu. Þarna voru allir vel til hafðir, drukku kampavín sem þjónarnir komu með, óumbeðnir og nutu umhverfisins sem er síðan 1586. Við bókstaflega tróðum okkur út af góðum mat þar til við stóðum á blístri. Af því að okkur langaði til þess og gátum það.

Þegar við komum upp á götu aftur, gengum við sömu leið til baka, fram hjá sama fólkinu. Sem ekki heldur í höndina á neinum og borðar ekki á sig gat á veitingarstað. Ekki einu sinni á McDonalds.

Daginn eftir var okkur boðið í smørrebrød í hádeginu hjá vinum okkar. Þetta var lítill hópur og við skellihlóum og skemmtum okkur. Af því að við eigum svo góða og skemmtilega vini.

En það gleymdist eitt í Flensburgarferðinni, við gleymdum að kaupa jólagosið.

Um kvöldið spurði ég frumburðinn hvort hún nennti á rúntinn niður á landamæri með mér (það tekur um 30 mínútur að keyra). Hún er flutt að heiman og það vill oft verða þannig að við gefum okkur ekki tíma til að hittast og vera saman, bara tvær.

Hún var til í landamæraferð. Ekki það að það fáist ekki gos í Danmörku, heldur var þetta afsökum til að kíkja niður í Flensburg í leiðinni, af því að við höfðum tíma og okkur langaði að vera saman.

(þetta er örmyndband, tekið af snapchat en sýnir hversu skemmtileg stemmingin er í Flensburg fyrir jól).

Við fórum út að borða og gátum ekki klárað skammtinn sem við fengum. Ræddum hvað miklum mat væri hent út um allan heim á hverjum degi.

Á leiðinni til baka í bílinn, gengum við fram hjá manni í hjólastól, vel skorðuðum í rökkrinu inn í innskoti við búð. Buxur, jakki, hár og húð rann í eitt. Það vantaði á hann nasavængina. Augun virtust dáin, þau minntu mig á augun í dána fólkinu á Gjörinu.

Þessi maður er/var sonur, kannski bróðir, kannski faðir. Kannski hefur líf hans alltaf verið á þessum nótunum. Kannski var lífið hans gott áður fyrr, en eitthvað gerst sem olli því að hann endaði sem brún hrúga í hjólastól. Hvar verður þessi maður 24. desember?

Svona rétt fyrir jólin finnst mér enn erfiðara að sjá svona. Ég sem á önd, svínahamborgarahrygg og tvö hangikjötslæri í frystinum. Ég á líka laufabrauð og sörur. Og fer út að borða tvö kvöld í röð.

Þegar við komum heim til Sönderborgar, kíkti ég í stutta heimsókn til vina okkar til að ræða komandi áramótaveislu. Hún verður margmenn af því að við erum umkringd yndislegu fólki.

Daginn eftir fórum við að sækja jólatréð. Ekki ein. Nei við fórum með vinum okkar og enduðum ferðina heima hjá Ágústu í vöfflum og randalínum. Enn einu sinni borðaði ég á mig gat. Af því að það er svo mikill matur í kringum mig sem ég þarf aldrei að borða ein, heldur alltaf með fólki sem mér þykir vænt um. Af því að ég tilheyri þeim hópi fólks sem hefur verið heppið í lífinu og aðstæður í kringum mig hafa gert mér kleift að nýta mér þessa heppni. Og ég hef verið í standi til þess.

Á Gjörinu nálgast jólin líka óðfluga. Hvort sem fólk vill eða ekki. Ég hef ekki spurt, en grunar að foreldra sjúklingsins sem er á þrítugs aldri, hlakki ekki til. Né heldur gamla manninum sem á stutt í hundraðið og kemur á hverjum degi til að heimsækja konuna sína. Hann á bara hana að.

Alltof alltof margir eru í allt annarri aðstöðu en ég. Því miður.

(Myndirnar að neðan eru frá því þegar við sóttum jólatréð í fyrradag og frá vöfflukaffinu á eftir)

IMG_3414 IMG_3417 IMG_3439 IMG_3447 IMG_3460 IMG_3475 IMG_3481 IMG_3495 IMG_3502 IMG_3520

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *