Ekki er seinna vænna… gleðilega hátíð!

Jólin eru síður en svo búin, til allrar hamingju. Ég get enn náð að setja út jólafærslu með tilheyrandi myndum, þökkum og friði á jörð.

Við vorum bara fjögur í ár og í rólegheitunum eftir því. Ég vel á vissan hátt einfaldleikan og því að mestu leyti laus við jólaskapgerðarbresti. Aftur á móti fer ég í hátíðleikagírinn rétt fyrir klukkan sjö í Danmörku og ætlast til að það sé læðst um og talað í hátíðlegum tón. Svoleiðis var það á Tókastöðum í gamla daga, í minningunni. En þar skarast fjölskyldan á Møllegade. Eins og amerísku og evrópsku flekarnir undir þveru Íslandi. Það geta mögulega orðið hræringar þegar klukkur Dómkirkjunnar hringja inn jólin og það er sagt „fuck“ á sama tíma. Þá er um tvennt að velja; annað hvort að sleppa sér og láta húsið leika á reiðiskjálfi eða brynja sig fyrir „fuckinu“ og halda friðarjól.

IMG_3559-2

Við höldum íslensk jól með dönsku ívafi. Ívafið er öndin sem heimasæturnar hafa viljað undanfarin ár. Fyrir mér skiftir það ekki öllu. Allavega minna máli en að byrja að nota hátíðlegu raddirnar rétt fyrir sjö og fram yfir guðsþjónustu.

Kvöldið fer síðan í að taka upp pakkana á hraða skjaldbökunnar. Við erum rosalega lengi að því, segja þau á Íslandi. Ekki af því að við fáum svo marga, heldur fer mikill tími í að sækja hvern og einn. Mér finnst að yngsti fjölskyldumeðlimurinn eigi að sækja. Henni finnst mjög ósanngjarnt að hún eigi að gera það, 17 árið í röð frá því hún fór að ganga. Fyrst það er útilokað, þá finnst mér að við eigum að skiptast á. En það er nú bara heiglum hent að fá þau þrjú til að reisa sig upp úr sófanum eftir matinn og því lendir þetta á mér. Og ég er ekki lengi að jólatrénu, ó nei, en ég er ofboðslega lengi að velja pakkann undan trénu. Hver fékk síðast, hver er næstur, frá hverjum á að taka upp fyrst, hvern á að geyma? Og afhverju? Afþví að sá pakki er mest spennandi eða öfugt? Stundum er ég svo lengi að þau í sófanum gleyma að nota hátíðlega tóninn gagnvart mér.

IMG_3566 IMG_3576 IMG_3569

Eftir pakkana fer all langur tími í símann. Það þarf að hringja í nánast alla og ALLIR að tala við ALLA.

Á Eiðum voru mamma og pabbi bara tvö í ár. Sem þýðir að það voru átta mismunandi samtöl milli okkar og þeirra á Aðfangadagskvöld. Fyrir utan alla hina. Maður þakkar nú fyrir sig.

IMG_3588 IMG_3600 IMG_3611 IMG_3593

Síðan horfum við á íslensku myndina sem við fáum alltaf í jólagjöf frá Magga litla bróður. Í ár fengum við Fúsa.

Já, við þökkum kærlega fyrir öll fallegu jólakortin frá ykkur í ár. Inn í mjög mörgum stóð: Elsku Dagný, Fúsi, Aldís, Svala og Vaskur. Þetta kom Vaski skemmtilega á óvart. Aldís heldur því reyndar fram að þetta hafi ekki komið honum á óvart því hann sé bara hundur.

IMG_3704

Þessi mynd var tekin á afmælinu hans (31/12) þegar hann fór í sparifötunum út í skóg.

Einnig var minnst á afmælið mitt í sumar í mörgum kortum. Ég ákvað að sleppa því þar sem ég hélt að ég hefði næstum drekkt ykkur í afmælismyndum og bloggfærslum langt fram í september. Þótti nú samt mjög vænt um að sjá í kortunum að þetta kvöld skyldi líka vera ykkur minnistætt.

Já jólakortin… sum ykkar hafa ekki enn fengið sín. Og sum jólakortin fórust fyrir. Aðallega hér innanlands og þykir mér það mikið miður. Ég féll bara á tíma rétt fyrir jól þar sem ég forgangsraðaði yfirlestri á bachelor fyrir góða vinkonu sem átti skilið greiða frá mér. Hún er búin að greiða mér svo oft.

IMG_3303 IMG_3304 IMG_3305 IMG_3306

Auðvitað var tekin fjölskyldumynd í jólakortið í ár. Eins og þið öll vitið erum við hin hamingjusama vísitölufjölskylda, full af ótakmarkaðri gleði og þolinmæði og sem ferst allt sem við gerum, vel úr hendi. Við eigum því miður ekki jólapeysur en þær hefðu fullkomnað myndina. Þessi neðsta var valin í kortið. Hún þótti best.

En afhverju hafa sum jólakortin verið svona lengi á leiðinni? Sendi ég kannski of seint af stað? Nei, það taldi ég mig ekki gera. Þann 14. desember fór ég með pakka á pósthúsið sem átti að fara í Eiða. Fimmtán manns áttu í honum annaðhvort pakka eða kort.

16. desember fór pakkinn frá Danmörku samkvæmt danska póstinum. Eftir það hvarf hann með öllu. Danski pósturinn kenndi íslenska millilandaflutningsaðilanum um. Íslenski pósturinn kenndi danska póstinum um. Hvorugur vildi taka ábyrgð. Pakkinn kom síðan í Eiða 31. desember. Þá var pabbi farinn norður og því þarf að senda pakkann hans frá Eiðum til Árskógsstrandar.

Ég borgaði um 11.000 ISK undir pakkann. Ég skal alveg viðurkenna það að þetta hefur valdið mér töluverðu uppnámi yfir hátíðirnar. Ég sem hafði fundið gjöf handa hverjum og einum án óskalista og pakkað inn eftir bestu getu.

Ef ég kaupi buxur og rennilásinn bilar eftir stuttan tíma þá er eftirfarandi í boði:

  • Ég fæ nýjar buxur í staðinn
  • Búðin lætur gera við rennilásinn mér að kosnaðarlausu
  • Ég fæ buxurnar endurgreiddar

Hversvegna vill pósturinn ekki taka neina ábyrgð á gallaðri þjónustu? Manni er bara spurn.

Þrátt fyrir pakkaleysið á Eiðum áttum við hin fínustu jól.

IMG_3624IMG_3638

(Rebekka frænka heklaði þessar stjörnur og sendi okkur)

Á Þorláksmessu borðuðum við vel kæsta skötu.

Við vinkonurnar fórum út að hlaupa á jóladag sem eiginlega var hin mesta fásinna því ég er enn í líkamlegu og andlegu súrefnissjokki, 10 dögum seinna.

Við fórum í dagsferð til Kaupmannahafnar og hittum litlu systir og fjölskyldu og Ósk frænku og fjölskyldu.

Við spiluðum.

Við vinkonurnar eyddum mörgum mínútum í ísköldum sjónum og enn fleiri mínútum í sauna.

Við fórum á jólaball.

Við fórum í matarboð.

Eitthvað þurfti ég að vinna.

Við áttum frábæran gamlársdag og gamlárskvöld

IMG_3746 IMG_3747 IMG_3752 IMG_3764 IMG_3766 IMG_3768

Það var töluverð áskorun í flugeldamyndatökunni þar sem við vorum með myndavélarnar í sama garði og flugeldunum var skotið upp. Sem sagt allt of nálægt og ekkert útsýni yfir flugeldana í kring.

Nýársdagurinn var enn betri með sundi, sauna og restum.

12473642_10208057060126014_8679608490011960078_o 12484705_10208057066526174_6999910676893195478_o

(Myndirnar tók Anna Jóna Kjeld)

Þetta er ekki sundlaug, þetta er sjálft Norður-Atlantshafið þar sem meðaldýpi er 3,3 km.

Að lokum, Alrúnarbloggið óskar ykkur öllum gleðilegs árs og takk fyrir innlitin, lækin og kommentin á árinu sem er að líða.

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *