Sönderborg í Vikunni

Í haust hafði Ragnhildur, gömul skólasystir mín og vinkona, samband við mig og bað mig um að vera með í Ferðalagaþema í Vikunni þar sem ég segði frá Sönderborg og nágrenni. Ég sagði auðvitað já.

Síðan kom Vikan og það fór ekki framhjá nokkurri manneskju á snapchat…

Ég hinsvegar gleymdi að birta greinina á blogginu.

Svona var greinin:

Ferðalög

Umsjón: Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Sögulegar minjar og sælkeramatur

Sönderborg á Suður-Jótlandi er fallegasti bær Danmörku að mati Dagnýjar Sylvíu Sævarsdóttur gjörgæsluhjúkrunarfræðings sem þar hefur búið ásamt manni sínum og tveimur dætrum í 14 ár. Við fengum hana til að segja okkur nánar frá svæðinu.

„Í Sönderborg tengjast höfnin, gamli bærinn og náttúran saman á örfáum metrum. Stutt er í allt og stundum stendur bíllinn í innkeyrslunni dögum saman, sérstaklega áður en dæturnar fengu bílpróf. Í bænum búa um 30 þúsund íbúar og hér er allt til alls. Þá má sérstaklega nefna menningar og götulífið þar sem mikið er lagt upp úr að það sé eitthvað við allra hæfi allra allan ársins hring á verði sem allir ráða við,“ segir Dagný.

 

Miðbærinn

Í miðbæ Sönderborgar sameinast göngugatan, verslunarmiðstöðin, Ráðhústorgið með tilheyrandi kaffihúsum og veitingarstöðum, gamli bærinn og höfnin þar sem Sönderborgar kastali er miðpunkturinn. En út frá þessum kastala byggðist bærinn á 12. öld. Þarna ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi, hvort sem það eru veitingar, verslun, söfn eða saga. Mitt uppáhaldskaffihús heitir Kislings´s þar sem matseðillinn er agnarsmár en brakandi ferskur.

 

Hjólatúr

Til að njóta Sönderborgar sem best er nauðsynlegt að vera á hjóli. Frá miðbænum er um 10 mínútna hjólatúr meðfram ströndinni, lystbátahöfninni og út í Sönderskóginn. Fyrir utan ótal trjátegundir og ríkt dýralíf, er þar að finna, djúpt inn í skóginum, kuml frá bronsöld sem geyma gamla höfðingja. Í útjaðri skógarins eru háir kantar þar sem í góðu skyggni sést yfir til Þýskalands. Eftir svona hjólatúr er tilvalið að fara aftur í miðbæinn og borða inn á Bella Italia sem er ítalskur veitingarstaður þar sem 2 kynslóðir af Ítölum hafa í gegnum 35 ár galdrað fram ítalskan mat á góðu veðri. Sjálft húsið er gamalt hesthús frá 1875 sem gerir staðinn enn meira sjarmerandi.

 

Sögulegar minjar

Sjálfur bærinn er að mestu leyti á eyjunni Als en ef farið er yfir gömlu brúnna og yfir til Jótlands, kemur maður yfir í þann hluta sem kallaður er Kristilega hliðin. Þar er meðal annars Alsion, háskólinn sem margir Íslendingar stunda. Efst upp á hæðinni trónir Dybböl mylla ásamt stríðsminjasafni frá hinu blóðuga stríði árið 1864. Samnefndir þættir voru sýndir á RÚV fyrir ekki svo löngu. Þetta er mjög sögulegt og áhugavert svæði að skoða, jafnt safnið sem og svæðið allt í kring.

 

Stutt til Þýskalands

Frá Sönderborg er um 40 mínútna akstur til Flensburgar í Þýskalandi. Flensburg iðar af mannlífi, hafnarlífi og verslun er almennt á betra verði en í Danmörku. Að mínu mati er skylda að ganga um Rote strasse og setjast inn á einn af veitingarstöðunum sem eru til húsa í örsmáum hliðargötum sem að auki hýsa ótal lítil gallerí og handverksstofur. Ég mæli með litlum þröngum og eldgömlum stað sem heitir Weinstuben in Krusehof og það eina sem er á matseðlinum er Tarte de Flambee frá Alsace. Þar situr fólk svo þröngt að maður fær þýsku menninguna beint í æð.

 

Sveitalíf

Ef við viljum fara aftur í rólegheitin á Suður-Jótlandi, er gaman að taka rúnt um sveitirnar, sérstaklega þegar repjuakrarnir eru í blóma og enda á stað sem heitir Krusemölle rétt hjá Aabenraa. Þar er handverksverslun og veitingarsala í gömlu fjósi þar sem maður fær að vera á bás. Mikið er um afþreyingu fyrir gesti þar sem maður getur tekið þátt í matargerð eða til dæmis kertagerð.IMG_1385Þessi mynd fylgdi með í Vikunni. Ljósmyndari: Fúsi frá Fellabæ city.

Ragnhildur vildi ekki láta mig hafa 10 blaðsíður í Vikunni, hvernig sem ég suðaði og því var ekki pláss fyrir fleiri myndir, en það er alltaf pláss á blogginu og því læt ég fleiri handahófsvaldar fylgja með hérna.

IMG_9367 IMG_8632 IMG_8740 IMG_6641

IMG_8878IMG_9371

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *