David Bowie, Helgi Björns, Robert Plant, Leonard Cohen, Kurt Cobain o.s.frv.

Ég er ekki alin upp á tónlistarheimili. Síður en svo. Á móti kom að ég þekkti alltaf nöfnin á landbúnaðarráðherrunum og skírði eina hrútinn sem ég eignaðist í æsku, Jón Helgason.

Ég hef að einhverju leyti fylgt straumunum í kringum mig hvað varðaði tónlistarhlustun.

Á grunnskólaárunum voru í minningunni Duran Duran, Alice Cooper og Roxette best af þeim erlendu. Roxette platan, Look Sharp! var fyrsta platan sem ég eignaðist. Ég rokkaði feitt við hana inn í stofu á Tókastöðum. Ég hef náð að fylgja þessum æskuidolum mínum ágætlega eftir með því að fara á tónleika með Duran Duran og Alice Cooper. (Simon Le Bon er enn sá sætasti). Söngkonan varð síðan veik og ég hef ekki náð að fara á tónleika með þeim.

Af þeim innlendu var það Bubbi með Aldrei fór ég suður sem skólasystir mín söng svo eftirminnilega á einhverri kvöldvökunni og Sálin hans Jóns míns sem gerði lagið Hey kanína vinsælt. Ég fór einmitt í sleik við það lag eða ekki við lagið heldur við strák í koju á meðan lagið hljómaði sterkt í kassettutækinu. Ógleymanlegt!

Sumarið ´91 hlustaði ég nær eingöngu á Rolling Stones. Þá var ég að vinna í Kaupvangi á Akureyri og borðaði alltaf Twix í eftirrétt í hádeginu.

Í Alþýðuskólanum á Eiðum heillaðist ég af eldri mönnum eins og Leonard Cohen, Herði Torfa og Cat Stevens. Ásamt þungarokkinu. Ég elskaði Metallica, Iron Maiden, AC/DC og svei mér þá ef ekki Anthrax líka. Trassarnir voru samt bestir. Þegar Nirvana kom á sjónarsviðið fannst mér ég vefjast inn í hálfbatteríslausa rafmagnsgirðingu. Ég er enn þann dag í dag yfir mig ástfangin af Kurt Cobain þrátt fyrir að hann sé dáinn. Þrátt fyrir að hann hafi alltaf verið með skítugt hár.

Af þeim innlendu var það að sjálfsögðu Helgi Björns! (Síðan skein sól) Ég notaði plötuna Halló ég elska þig fyrir kodda heilan vetur.

Ég hef alltaf heillast af þessu gamla; Pink Floyd, Led Zeppelin, Jethro Tull, The Doors, Tom Waits, Bob hinn og Bob þessi… allskyns héðan og þaðan, get meira að segja fellt tár ef John Denver er spilaður í útvarpinu… Annie´s song! Gæti líklega talist stöðnuð og angurvær.

En einhverra hluta vegna fór David Bowie frekar mikið framhjá mér. Fannst hann þó alltaf góður og flottur en sótti ekki í hann. Eins einkennilegt og það nú er.

Ekki fyrr en Aldís kolféll fyrir honum þegar hún var ungur unglingur, bjó heima og allt sem hún hlustaði á, hlustaði ég líka á. Annað var óhjákvæmilegt. Svoleiðis var það bara. Húsið okkar er ekki stórt. Það var þá sem ég uppgötvaði David Bowie fyrir alvöru.

screen-shot-2014-11-10-at-7-39-21-am

Í dag vitna margir í foreldra sína eða eldri systkini þegar rætt er um hvernig maður uppgötvaði David Bowie. Ég þarf að vitna í 20 ára yngri dóttur mína. Það er reyndar ekki slæmt þegar öllu er á botninn hvolft. Aldís hefur alltaf haft mjög breiðan og skemmtilegan tónlistarsmekk. Og hækkar vel í. Við höfum lagt okkur í líma við að kynna stelpurrnar fyrir því sem okkur finnst að allir eigi að þekkja. Helsti bílferðaleikurinn okkar sem við lékum sífelldlega var að „getta lag og flytjanda“.

Ég meina, ég hef hitt ungt fólk sem veit ekki hverjir Pink Floyd og David Bowie eru. Ég hef tekið bílferðaleikinn okkar með í vinnuna og komistst að því að fólk er misjafnlega upplýst. Það náttúrulega gengur bara ekki. Það er ekki nóg að nemarnir mínir viti hvernig maður neutralíserear pH gildi blóðsins með að afstilla kalíummagnið. Nei þau þurfa líka að þekkja sígilda snillinga sem heyrast reglulega í útvarpinu.

Á laugardaginn síðasta tókum við niður og gengum frá jólaskrautinu. Fúsi setti nýju plötuna hans David Bowie í græjurnar en okkur fannst hún ekkert spes og settum því bara allt þetta gamla á í staðinn. Í nokkra klukkutíma ómaði hann um húsið.

Síðan bara er hann dáinn.

Þetta er brot af uppáhaldslögunum okkar hérna á Möllegade… Allt mjög góð og ódauðleg lög. Þökk sé listamanninum David Bowie.

Þetta lag tengjum við mæðgur alltaf við myndina Moulin Rouge sem við horfðum á árið 2002. Stelpurnar þá alltof ungar fyrir þvílíka dramatík en urðu ekki fyrir teljandi skaðlegum áhrifum. Held að við höfum grátið í kór yfir þessari mynd svona um það bil 10 sinnum síðan. Og sungið hástöfum, hver með sínu nefi þegar „Christian“ söng þetta lag svo fallega.

Though nothing, will keep us together
We could steal time,
just for one day
We can be Heroes, for ever and ever
What d’you say?

Mig grunar að þarna hafi Bowie aðdáun Aldísar kviknað.

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *