Splúnkunýttog sjóðheitt útlit á blogginu!

Kæru lesendur í gegnum öll þessi ár.

Hvað haldið þið að ég hafi verið að gera um helgina?

  • Fyrir utan að borða kvöldmat í Flensburg á laugardagskvöldið.
  • Fyrir utan að fara út að hlaupa meðfram hafinu í gær með vinkonunum og pósta því á facebook af því að hlauphraðinn mældist svo andskoti vel; 6,95 km á 34,12 mínútum! Sannleikurinn var samt annar og aðeins þið, takið eftir, AÐEINS ÞIÐ fáið hann að vita. Auðvitað hlupum við ekki tæplega 7 km. Það væri fásinna. Það gerir maður einungis í göngum þegar maður er að elta fé. Eða í fótbolta á stærðarinnar velli í 90 mínútur plús framlenging. Við hlupum tæplega 5 km sem er miklu meira en nóg. Annað veldur manni meiðslum. Á tíma sem ég man ekki, enda gengst ég síður en svo upp í lengd og tíma. Ég hleyp með stelpunum því þær eru svo skemmtilegar.
  • Fyrir utan að svamla um í 1,5 gráðu heitum sjónum í gær og svitna í sauna.
  • Fyrir utan að steikja vöfflur og troða mig út á mettíma þar til ég stóð á blístri. Sauna gerir mann svangann.
  • Fyrir utan að æða út með Vask í ljósaskiptunum í gærkvöldi með myndavélina því ég átti að taka mynd í gær. Að ég skuli láta ráðskast svona með mig. Fara út í brunagaddinn, nýkomin upp úr svölum sjónum.
  • Fyrir utan að overdósa af súrefni. Of mikið súrefni er slæmt. Ég ætti að vita það, ég er gjörgæsluhjúkrunarfræðingur!

IMG_3850

Já hvað haldið þið að ég hafi verið að gera?

Jú, ég fór í það að breyta og bæta bloggsíðuna mína. Enda svo innilega löngu komin tími til.

Ég réði mann í Reykjavík til verksins. Einn þann albesta.

Hann heitir Þór Sigurðsson og þið þekkið hann héðan úr Sönderborg. Ef ekki héðan, þá úr tónlistarheiminum á Íslandi. Hann er frekar frægur. Hann er tvímælalaust besti gítarleikari Íslands.

Þór vann allt föstudagskvöldið og alla nóttina baki brotnu við að skipta út þemanu og setja síðuna upp í núverandi mynd. Á laugardagsmorguninn var ég tilbúin til að taka við.

Við höfum notast við WordPress síðan 2005 en þetta  er í fyrsta skipti sem við ráðumst í alsherjar breytingar. Þess vegna hef ég eytt ófáum klukkustundum við að fínpússa eftir mínu höfði með góðri aðstoð tæknihönksins Fúsa brúsa.

Þetta er svipuð tilfinning og að breyta duglega heima hjá sér. Mjög skemmtilegt! Mjög tímafrekt. Ég breytti í stofunni á þrettándanum þegar ég tók niður jólaskrautið. Ég meðal annars raðaði bókunum upp á nýtt. Það tók 4 klukkutíma.

Ég er afar ánægð með nýju bloggsíðuna og hún hefði aldrei tekist svona vel án aðstoðar Þórs. Hann er líka alvöru maður. Heimasíður eru vinnan hans og hann er afskaplega sanngjarn varðandi laun. Þó þýðir ekkert að reyna að borga honum í sperðlum. Né ílla grænröndóttum vasa. Þar dregur hann mörkin.

Ég vona að þið takið vel á móti nýju bloggsíðunni minni og mér þætti mjög vænt um ef þið vilduð hjálpa mér við að deila henni og auglýsa.

Það er bæði hægt að líka við  Alrúnarbloggið á facebook eða deila því.Skærmbillede 2016-01-17 20.39.28

Já eða líka við og eða deila þessari bara beint.

Gefið ykkur tíma til að vafra um. Núna eru þið t.d. á færslusíðunni en ef þið ýtið á „Forsíða“ sem er efst á síðunni, þá opnast annar heimur. Ég er ekkert að ýkja…

Ég er langt frá búin, svona verkefni tekur óratíma hvort sem mér líkar betur eða verr. Ég hélt að ég yrði búin fyrir hádegi á laugardag. Þrátt fyrir það, þigg ég alla uppbyggilega gagnrýni í athugasemdunum hér að neðan.

Njótið.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *