Þegar ég passa barn…

Lífið á Gjörinu gengur vanalega sinn vanagang, stundum tekst að bjarga mannslífum, stundum ekki. Um það snýst þetta að mestu leiti.

Nema um daginn.

Þá kom til okkar hálfs árs drengur, alheilbrigður og undurfagur. Hann var bara í heimsókn. Börn sem þurfa á gjörgæslu að halda, fara oftast beinustu leið til Odense.

Ég datt í lukkupottinn því drengurinn tengdist minni stofu. Ég setti mig í gírinn og sagði „cucci cucci“ aftur og aftur ásamt því að gera augu mín stór eins og augu hundanna í Eldfærunum. Þetta virkar. Börnin gera nefnilega sín augu líka stór og fara svo að brosa og sprikla.

Eftir að drengurinn og ég höfðum verið á sömu stofu svo klukkutímum skipti, kom það í hlut minn að gæta hans á meðan móðirinn átti eitt orð við Ástarsögulækninn (sem kemur mikið fyrir hér, hér og hér… Mögulega vantar ykkur lesefni).

Ég tók hann fengins hendi, tyllti á mjaðmirnar á mér og hossaði honum. Fór síðan fram í dyr til að sýna mig með hann. Þar sem drengurinn var eins og áður sagði, undurfagur, þyrptust vinnufélagarnir að til að segja cucci cucci og gera augun stór. Barnið brosti út að eyrum og hjalaði. Ég hossaði honum sigrihrósandi yfir hvað allt gekk vel hjá mér. Loksins. Því ég hef einhverja hluta vegna lítið verið beðin um að passa börn vina okkar í gegnum tíðina.

Skyndilega hrópaði ein: „BLÁSUM UPP BLÁAN HANSKA!“

Við hinar: „JÁÁÁÁÁ!!!“

Ohhh þetta var svo gaman, þarna stóðum við ca 7 konur á öllum aldri og vildum gera ALLT til þess að pössunin myndi lukkast vel. Engin grátur, ekkert í bleyjunni…

Það var sóttur blár hanski í stórri stærð sem var blásinn upp á mettíma og bundið fyrir.

Þá hrópaði önnur: „HEY, TEIKNUM ANDLIT Á HANSKABLÖÐRUNA!“

Við hinar: „JÁÁÁ!!!“ og klöppuðum saman lófunum.

Það var sóttur blár túss og andlitið teiknað á. Nefið var sett á þumalinn.

Drengnum var síðan rétt hanskablaðran. Hann greip um þumalinn, setti hann upp í sig og saug. Við ætluðum allar að missa okkur yfir krúttlegheitunum. Og ekki síst ég. Þarna stóð ég og hossaði honum á mjöðminni á meðan hann saug hanskablöðruþumalinn af krafti.

Þangað til ein hrópaði: „GUÐ MINN GÓÐUR! BARNIÐ ER BLÁTT!!!!

Hanskinn var rifinn af drengnum og í ljós komu bláar varir,  bláir gómar, blá tunga og blá hendi.

Við hrópuðum allar: „GUÐ MINN GÓÐUR!!!“

Við tóku björgunaraðgerðir áður en móðirin kæmi. Sjúkrahússprittflaskan var sótt og búnki af grisjum. Sprittinu var síðan sullað á grisjurnar og út um allt í leiðinni… þangað til við áttuðum okkur á því að það væri ekki hægt að þvo ungabarni upp úr hreinu ethanóli!

Þá voru nýjar grisjur sóttar ásamt sótthreinsuðu vatni. Það hafði akkúrat engin áhrif á bláa litinn.

Svona er Gjörið í hnotskurn. Við getum stýrt öndurnarvélum, blóðskilunarvélum og fleiri vélum með annarri hendinni en getum ekki passað lítinn dreng í 20 mínútur án þess að klúðra því!

baby-face-painted

(Þessi mynd er fengin að láni á netinu, enda er barnið meira grænt en blátt).

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *