Manns eigin dagur.

Ég vildi bara nota tækifærið og nýta mér mína eigin aðstöðu á mínu eigin bloggsvæði og þakka kærlega fyrir daginn ásamt því að gera grein fyrir afmælisdeginum í grófum dráttum.

Ég vaknaði líkari vofu en sjálfri mér. Henti í úfið hálftagl, greip með mér köku og keyrði út í bakarí eftir brauði á hálfu hundraðinu. Orðin alltof sein í vinnuna.

Þegar ég mætti í vinnuna – of seint – var beðið eftir mér með stakri þolinmæði. Þau þekkja mig svo vel. Þau kalla tímann sem ég mæti á „Sylvía´s time“. Ég hratt upp hurðinni og í sama augnabliki hófu vinnufélagarnir upp raust sína og sungu afmælissönginn. Ég roðnaði að sjálfsögðu ofan í tær. Höndla nefnilega ílla athygli þegar ég panta hana ekki sjálf og hef ekki sjálf stjórn á aðstæðum.

Upp úr miðjum morgni eða um 8.30 var síðan morgunkaffi. Ég bauð upp á brauð og heimabakaða köku. Köku eftir uppskrift sem ég hef bakað nánast stanslaust síðan sumarið 1994 og hefur aldrei mistekist. Uppskriftina fékk ég hjá Heiðu heitinni Sigurðardóttur. Þessi uppskrift klikkar bara ekki. Ekki fyrr en í gærkvöldi. Ég gerði tvær tilraunir en öfugsnúin eins og ég var eftir næturflug og ýmsar uppákomur, var öll bökun dæmd til að mistakast.

Ég þurfti að skera innan úr misheppnuðu kökunum tveimur og utan af líka , til að fá um það bil 20 litla munnbita. Ég skreytti þá síðan með kókos, hrískúlum, nóakroppi með pipar og íslenska fánanum. Ég reyndi allt til að fela misheppnaða bragðið. Vinnufélögunum fannst þetta fínt. Urðu líka sáttir við stærð bitana (sem voru í alvörunni agnarsmáir) eftir að ég hélt þessa fínu ræðu um heilsufarsvandamál tengd sykurofneyslu. Og endaði ræðuna á að tilkynna að litlu munnbitarnir væru passlegir því annars myndu þau öll fitna fram úr hófi.

Restin af deginum á Gjörinu fór síðan í að tala um aldurinn minn. Annað hvort gerðu þau grín að mér fyrir að vera komin á fimmtugsaldurinn eða döðruðu með því að segja að ég liti ekki út fyrir að vera degi eldri en 31 árs. Reyndar var það bara einn sem sagði það. Það var nýjasti læknirinn sem heitir Prins Polo Columbus. Ég gekk til hans þar sem hann sat niðursokkinn í tölvunni, kynnti mig og óskaði honum til hamingju með afmælið í gær. Sagði síðan við hann að hann ætti að segja til hamingju við mig núna. Hann gerði það. Ég sagðist svo vita að hann hefði orðið 34 ára í gær og tilkynnti honum að ég varð 41 árs í dag. Hann sagði: „Í alvöru? Mér líður eins og þú sért í mesta lagi 31 árs…. og við erum bæði ljón…“. Hann er útlendingur og þetta var annar dagurinn hans á Gjörinu. Hann lofar góðu. Ég á örugglega eftir að blogga um hann seinna.

Þegar ég kom heim, bauð Aldís mér í 100 gráðu heitt fótabað. Hún benti mér á að bíða í 5 mínútur. Sem betur fer gerði ég það.

Eftir það fórum við til Flensburgar og borðuðum á einum af uppáhaldsstöðunum mínum (Die Weinstube im Krusehof).

Síðan fórum við bara heim og þá var þessi dagur ekki lengri þannig séð.

P.s. Takk æðislega fyrir allar kveðjurnar, bæði á facebook og snapchat!

2016-08-02 20.13.52

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *