Innkaupakerra Kaupfélagsins – Lokaorð Austurgluggans.

Þegar sumarið var tæplega hálfnað flutti frumburðurinn Aldís aftur heim í foreldrahús með allt sitt hafurtask. Og það var ekki lítið skal ég segja ykkur – heilli búslóð var komið fyrir í 14 fermetra herberginu. Hún lauk síðan flutningsferlinu með því að koma gangandi inn innkeyrsluna með innkaupakerru úr Kaupfélaginu í Sönderborg, innihaldandi restinni úr íbúðinni. Föður hennar, Fúsa Fellamanni, til lítils fagnaðar.

Fúsi Fellamaður skipaði fullorðnu dóttur sinni að ganga með innkaupakerruna sömu leið til baka, sem sagt í gegnum göngugötuna og skila henni í Kaupfélagið. Frumburðurinn harðneitaði. Sagði að það væri nóg að ganga með þessháttar einu sinni í gegnum göngugötu um hábjartan dag.
Um nokkurn tíma andaði köldu á milli feðginanna vegna innkaupakerrunnar. Fúsi Fellamaður vildi ekki hafa hana á sinni lóð, enda harðbannað að fara með innkaupakerrur Kaupfélaganna heim til sín. Aldís vildi ekki ganga með hana aftur í gegnum bæinn. Enginn vildi fara með innkaupakerruna á kerru á ruslahaugana og fleygja stráheilli kerrunni í brotajárnsgáminn.

En nú á dögunum náðust sáttir innan heimilisins um innkaupakerruna þegar húsmóðurinni og hugvitsgúrúinum (mér) datt í hug að nýta hana sem þvottakerru. Ég prufukeyrði hugmyndina og lagði kerrunni fyrir utan og ofan þvottahúsið sem er staðsett niður í kjallara. Staðsetning þvottahússins er engin hindrun því þvottavélin er alveg við dyrnar og því lítið mál að taka hvert þvottastykki og kasta því upp og beint ofan í þvottakerruna. Þar kemur margra ára og mikil reynsla af körfuboltaiðkun hér í Sönderborg mér að góðum notum.

IMG_6250

Síðan er auðvelt að ýta þvottakerrunni út að snúrum eftir flísalögðum bakgarðinum, hengja upp þvottinn og á meðan þvotturinn þornar bíður þvottakerran hrein og fín, því að hún heldur hvorki vatni né laufblöðum.

IMG_6256
Þegar þvotturinn er þornaður er hann tíndur niður af snúrunni og beint ofan í þvottakerruna, henni keyrt inn í garð þar sem þvotturinn er brotinn saman á borði á góðvirðrisdögum.

IMG_6259

Á þessari mynd sést vel hvernig hægt er að skipuleggja þvottinn í þvottakerrunni; sokkar á sætinu, naríur á snaganum og stærri stykki niður í kerrunni. 

Úr garðinum eru fjórar tröppur inn í borðstofu og því er næsta mál á dagskrá að Fúsi Fellamaður smíði hjólastólaramp til að þvottakerran komist alla leið inn í stofu ef veðrið er verra. Fúsi Fellamaður sem er menntaður smiður frá Trésmiðju Fljótsdalshéraðs, klæjar hreinlega í fingurna að takast á við það smíðaverkefni.
IMG_6270
Þannig að þegar allt kemur til alls þá var þetta framlag Aldísar til heimilisins alls ekki svo galið, en þó er rétt að taka það fram að undirrituð mælir síður en svo með að þið Austlendingar farið að taka innkaupakerrur Kaupfélaganna á Austurlandi ófrjálsri hendi. Ef upp kemst er það um það bil 20.000 kr sekt, samkvæmt Aldísi sem kannaði afleiðingar þessa lögbrots ef upp skyldi komast.

IMG_6279

Hér má síðan fara beint á það sama en þau voru svo góðhjörtuð, þau hjá Austurglugganum, að pósta þessu  líka út á Austurfrétt.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *