Heitu næturnar á Möllegade…

Undanfarna daga hafa heitir Afríkuvindar liðið upp með Evrópu og alla leið til Skandinavíu. Við á norðurhvelinu fögnum oftast slíkum veðurspám alveg þangað til spáin rætist. Þá fara fagnaðarlætin dvínandi. Sérstaklega hjá þeim sem ekki geta ráðið um hvar þeir eru staddir þegar hitinn skríður yfir 30 gráðurnar.

Á Gjörinu í Sönderborg eru 6 stofur. Tvær eru með ágætis loftkælingu sem virkar reyndar sem loftkæling allt árið um kring og eru því eins og kæliklefar yfir köldustu mánuðina. Á hinum stofunum er engin loftkæling. Og því blátt bann við að draga gardínur frá og opna glugga þegar svona heitt er í veðri. Það verður að byrgja hitann úti. En í miklum hita verður fólk stundum hálf ruglað, gleymir sér og opnar gluggann til að sækja sér súrefni… og þá hrópa hinir: „LOKAÐU GLUGGANUM“, sækja síðan skrúfjárn og skrúfa snérilinn af og læsa hann inni. Voðinn er nefnilega vís ef glugginn er opnaður. Og eftir það verður ekki snúið. Skaðinn skéði. Á föstudaginn leið okkur eins og við værum lokuð inni í sauna í 8 klukkutíma -í öllum fötunum.

En þetta var ekkert miðað við ofskynjunar og ranghugmyndanóttina á undan. Hitabylgjunætur eiga það til að vera strembnar fyrir svona hvítingja eins og mig. Gardínan hafði verið dregin frá yfir daginn og því var skaðinn skéður. Við hjónin, Fúsi og ég, lögðumst fyrir og breiddum sængurnar yfir okkur. Brátt rumska ég við það að Fúsi er að reyna að ýta mér út úr rúminu. Ég sagði: „nei nei“ og spyrnti á móti. Hann spurði hvað væri að. Ég sagði honum að hætta að ýta mér út úr rúminu. Hann sagðist ekkert vera að því. Hann var sem sagt strax orðinn ruglaðri en ég. Stuttu seinna var ég alveg að sofna og þá reyndi hann þetta aftur. Ég varð reið og skipaði honum að hætta, ég hefði jafn mikinn rétt á rúminu eins og hann. Hann sagði að ég hefði verið að hrjóta! Og þess vegna lagst utan í mig. Hahaha ég að hrjóta!?! Myndi persónulega seint kalla mín undurfögru svefnhljóð hrotur. Jæja allavega, hann á það til að pikka í mig þegar ég leyfi mér að anda í svefni. Og í svefnrofanum magnast þetta pikk upp í ofbeldi. Mér finnst hann kýla mig af öllum kröftum í öxlina. Alltaf sárnar mér jafn mikið og hef margoft beðið hann um að beita mig ekki ofbeldi á nóttunni. Núna hefur hann tekið upp nýja aðferð og leggst utan í mig… þ.e.a.s. reynir að ýta mér út úr rúminu.

Þegar aftur var lögst ró yfir hjónarúmið, heyri ég þungan dink frá efstu hæð hússins. Ég reis upp við dogg og segi: „hvað var þetta?“. Fúsi vissi það ekki. Í svefnrofanum var ég viss um að Svalan okkar hefði dottið vegna einhvers í höfðinu á henni.

Ég snarast á fætur, gríp handklæði á baðherberginu, vef því utan um mig og tek tröppurnar í 4 skrefum. Ríf upp hurðina á herberginu hennar Svölu og sé þá hvar kærastinn situr á rúminu og er að hátta sig í mestu makindum. Hann var að koma heim af menntaskóladjammi og rak sig í hárblásarann hennar Svölu sem datt niður á gólf. Mikið var ég fegin að Svala var heil á húfi. Mikið horfði hann Jacob undarlega á mig! Klukkan var þarna um 3.

Ég fer niður í herbergi aftur og næ aðeins að festa svefn, en vakna við að verkurinn í bakinu lætur á sér kræla. Verkurinn sem kom þegar ég var að aðstoða þvottavélaviðgerðarmanninn tveimur dögum áður og það kom hnykkur (þetta útskýrði ég nákvæmar á snapchat þegar atburðurinn átti sér stað).

Ég fer aftur á fætur og upp í eldhús til að dópa mig af verkjalyfjum. Gleypi 1g panódíl og 400mg ibuprofen sem er skotheld blanda við bakverk ef hún er tekin reglulega og á réttan hátt í 2-3 daga. Ég leggst aftur upp í rúm og er eiginlega sofnuð þegar ég uppgötva að ég gleymdi að borða með ibuprofeninu (sem er eitur fyrir magann og því mikilvægt að taka með mat). Ég fæ öran hjartslátt og kvíðahnút í magann og finn hvernið pillan byrjar að éta sig inn í meltingarfærin… En nenni samt ómögulega aftur á fætur til að elda mér eitthvað. Hafði auk þess enga matarlyst. Í stað þess veltist ég um í rúminu, sparkandi sænginni í allar áttir, handviss um að ég myndi vakna um morguninn með blóðið lekandi út um munninn.

Allt í einu rann upp fyrir mér ljós og ég áttaði mig á að það sem var að, var að ég mig vantaði sængurver. Fór aftur á fætur, sótti sængurver, ýtti sænginni til hliðar (eða réttara sagt, bjó til vegg á milli okkar Fúsa, svo að hann gæti ekki ýtt mér út úr rúminu), breiddi sængurverið ofan á mig og sofnaði vært til þess eins að sofa í 2 tíma áður en ég þurfti endanlega á fætur.

Sængurver eru lífsnauðsynleg í hitabylgjum. Þau mega ekki gleymast. Fólk hefur dáið úr ofskynjunum og ranghugmyndum. Mér liggur við að segja að sængurver séu jafn nauðsynleg í hitabylgjum og stakkar sjómannanna úti á sjó. Við vitum hvernig fór fyrir Bárði sem gleymdi stakknum sínum í bókinni Himnaríki og Helvíti eftir Jón Kalman.

En sængurverið fyrirbyggði samt ekki hlaup mín út í garð í nótt. Ég vaknaði við þrumur og eldingar, reif mig upp, klæddi mig í stóra skyrtu, hneppti ekki og æddi út í hellirigninguna til að bjarga því sem bjargast gat. Ég gekk berserksgang og setti sessur, teppi, pappírsluktir, þvott og annað sem ég vildi ekki að blotnaði, í skjól.

Vaskur fylgdi mér ekki heldur beið í dyrunum. Svo mikil var rigningin.

Þegar ég lagðist síðan rennandi blaut upp í rúm, spurði Fúsi: „hvað varstu eiginlega að gera?“

„Nú BJARGA öllu sem því átti ekki að blotna!!!“

Fúsi: „Dagný mín, það er búið að rigna í minnsta kosti 2 klukkutíma!“

Nú jæja…

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *