Ég sá í alvörunni draug í gær

Kæru lesendur

Þar sem þið hafið gengið með mér í gegnum súrt og sætt, þó aðallega sætt, langar mig til að deila með ykkur einni þeirri undarlegustu upplifun sem ég hef á ævinni orðið fyrir.

Í haust vorum við Vaskur á göngu og eins og oft áður, lá leið okkar um einn af tveimur kirkjugörðum í nágrenninu. Þennan dag vorum við innarlega í Maríukirkjugarðinum á græna svæðinu þar en samt það nálægt leiðunum að ég sá þau vel. Við gengum framhjá að því virtist, nýlegu leiði og þegar ég var komin 5-10 metra framhjá því, stoppa ég, sný við og kíkji á legsteininn. Mér brá heldur í brún við að sjá nafnið sem blasti við. Ég kýs að kalla hana því afar algenga danska kvennmannsnafni: Jette Hansen en það er að sjálfssögðu ekki hennar rétta nafn, eða var, heldur notast ég við nafnleynd. Þarna lá þá fyrrverandi samstarfskona mín frá 2008 og „skólasystir“ í þrjár annir á undanförnum þremur árum. Hún var líka að læra klíníska kennarann en þar sem hann er kenndur frekar losaralega þá er ekkert sem segir að við fylgjumst alltaf að. Maður getur sniðið þetta eftir hentugleika. Við Jette vorum alltaf samferða til Vejle og Kolding þegar við vorum saman í skólanum. Þess á milli höfðum við ekki samband. Fyrir utan að við áttum það til að rekast á hvor aðra í Víkingaklúbbnum sem er sjósundsaðstaða Sönderborgara og þar verður maður að vera nakin, líka í sánanu og þar þóttumst við ekki sjá hvor aðra. Seinna fékk að ég vita að Jette hafi verið nánast sjónlaus án linsanna sinna.

Ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin augum þarna sem ég stóð og horfði á legsteininn. En bæði nafn og aldur passaði. Ég tók upp símann og sendi sms á vinnufélaga minn en konan hans vann með Jette. Jú jú, þetta passaði allt saman, Jette hafði fengið krabbamein í vor og dó í haust, aðeins 48 ára gömul.

Í gær var ég stödd í kaupfélaginu niður í bæ og er að skoða áleggið sem er ofan í kæliborði. Mér verður litið upp og stendur þá ekki Jette brosandi hinum megin og segir „hæ“.

Ég get svo svarið það að þarna sem ég stóð, hvarf allt blóð úr höfðinu á mér og mér rann ískalt vatn á milli skinns og hörunds. Ég hröklaðist frá áleggsborðinu og í áttina að rækjunum og hugsaði með mér að ég væri í fokking alvörunni að sjá draug. Jette hafði verið mjög ljós yfirlitum og leyfði náttúruleikanum að njóta sín í andlitinu. Þarna í kaupfélaginu var hún enn ljósari, eiginlega bara grá! Ég laumaðist til að gjóa augunum á hana þarna sem ég stóð hjá rækjunum og sá það að hún var með eldri konu. Þetta hlaut að vera mamma hennar og þá báðar dánar? Þarna röltu þær um, ítandi á undan sér innkaupakerru, takandi upp hluti og ekki gangandi í gegnum neitt. Það hafði heldur ekki stafað af þeim kuldi. Ég sá líka að Jette var að gjóa augunum á mig eins og hana langaði til að spjalla. Spjalla? Um hvað? „Bíddu, varst þú ekki dáin?“ Ég hélt ég yrði ekki eldri! Þetta kaupfélag hlaut að hafa verið uppáhaldsbúðin þeirra. Kannski ekki tilbúnar til að fara yfir móðuna miklu, kannski ósáttar? Maður hefur heyrt um svoleiðis… þar sem fólk festist á milli því það vildi ekki deyja. Ég hélt að heilinn í mér væri að springa, á svo miklum yfirsnúningi var hann. Mig langaði til að fara að gráta, augun fylltust reyndar af tárum. Mig langaði líka til að hringja í vinnufélagann og spyrja hvað í ósköpunum ég hefði miskilið varðandi Jette???

Ég ranglaði þarna um, hef örugglega litið út eins og ég hefði séð draug, enda var ég að sjá draug. Ég var eiginlega hundrað prósent viss. Ég fór að fara krókaleiðir í átt að kassanum og vildi bara komast heim sem allra allra fyrst. Kom að brauðinu og stóðu þá ekki mæðgurnar þar. Jette leit aftur á mig brosandi og þá rann skyndilega upp fyrir mér ljós og ég næstum hrópaði af feiginleik: „MALENE!!! ÚR LEIKSKÓLANUM!!!“ Þá var þetta bara Malene sem ég hafði unnið með árið 2002 í næst elsta leikskóla Danmerkur og ekki séð í fjölda ára. Þegar ég svo kynntist Jette, varð mér oft hugsað til þess hversu mikið hún minnti mig á Malene. Aftur barðist ég við grátinn (léttelsesgrátinn) og reyndi eftir bestu getu að segja eitthvað gáfulegt, í það minnsta ekki: „ég hélt að þú værir önnur kona sem dó í haust“. 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *