Frönskurnar í raspinum, þessar sem ég elska.

Kæru lesendur.

Góð heilsa og kólesteról í jafnvægi kemur ekki af sjálfu sér. Ekkert frekar en góðar einkunnir eða góð laun. Við þurfum að hafa fyrir flestu í lífinu ef gott á að vera.

Þið ykkar sem mig þekkið í eigin persónu vitið að mér finnst sykur góður og íþróttir ekkert spes. Nema hópíþróttir ef hópurinn er skemmtilegur. En þá er þetta að mestu leyti hætt að vera íþrótt og breytist í félagsskap í mínum huga. Það er bara plús að púlsinn fari upp.

Fyrir örfárum árum og við erum að tala um ansi fá ár, rann upp fyrir mér ljós að með hækkandi aldri sækist styrkleikinn og liðugheitin suður á bóginn. Það er svo margt sem minnir mann á það í hversdagsleikanum.

T.d.:

 • þegar bingóvöðvinn hristist svo mikið við hárblástur að tárin byrja að leka niður kinnarnar.
 • þegar maginn klemmist í baðherbergisskúffunni.
 • þegar maður hugsar sig tvisvar um áður en maður skellir sér í Levis 501 stuttbuxum niður á göngugötu í góðu veðri.
 • þegar maður fær hroll þegar gripið er um upphandleggi og læri til að „finna hversu sterk ég er“, mér að óvörum og ALLT er í hvíldarástandi.

Ég viðurkenni að ég er orðin örlítið örvæntingarfull og kemur það berlega í ljós þegar ég er farin að gera leikfimisæfingar úti í náttúrunni. Ég var frænka Þorbergs Þórðarsonar ef svo ólíklega vill til að það skyldi hafa farið framhjá ykkur. En þó geri ég ekki Möllersæfingar á nærbuxunum. Heldur nýti ég tækifærið á meðan Vaskur grandskoðar umhverfið og mígur á hverju einustu þúfu í skóginum og geri nýtísku leikfimisæfingar svo sem framstig, englahopp, hnébeygjuhopp og bingóvöðvabeygjur. Ég trúi því að þetta virki og við þetta liggi leiðin norður á bóginn aftur enda hefur trúin oft og margsinnis flutt fjöll.

En það er ekki nóg, mataræðið verður að vera í stíl við leikfimisæfingarnar. Ég er afarhrifin af skyndibitamat hversskonar, nema hvað, mér finnst hann oftast bara góður ef hann er heimagerður. Pizzurnar okkar eru betri en þessar á pizzustöðunum því að við notumst við grófan pizzubotn, ferskan mozzarella (ekki rifin plastost sem líka er kallaður mozzarella) og alveg helling af sveppum. Á pizzustöðunum fæ ég í mestalagi einn svepp.

Ég borða helst ekki pylsur, kannski einu sinni á ári og ef það gerist hérna heima, notast ég við heilhveitipulsubrauð sem fást í kaupfélögunum hér í bæ.

Hamborgararnir okkar eru líka betri en á hamborgarastöðunum. Aftur, gróft brauð, stundum heimalöguð sósa og nákvæmlega það sem við viljum þar á milli.

Franskarnar mínar eru bestar í heimi. Ég er ekki að bulla í ykkur. Þetta er reyndar nýjasta æðið á heimilinu og er að öllum líkindum komið til að vera.

Ég ætla að deila þessu með ykkur því að mér er líka annt um heilsuna ykkar.

Það eru tvær tegundir  sem eiga eftir að sjást á myndunum og af einlægni hreinskilni er þessa raspaða mín uppáhalds.

Það sem þarf til af grænmeti er eitthvað af eftirtöldu:

 • gulrætur
 • sætar kartöflur
 • kúrbítur
 • aspas (mitt uppáhald)
 • rauðrófur (líka mitt uppáhald)
 • mögulega rófur (hef ekki prófað)
 • eitthvað annað sem þolir bökun sem ykkur dettur í hug.

Það sem þarf til í olíublönduna:

 • olíu (ég elska ólífuolíu mest af öllum olíum)
 • gróft salt (munið, alltaf gróft salt í mat, fínt salt í bakstur)
 • pipar úr piparkvörn
 • rósmarín (eða annað krydd)

Það sem þarf í raspblönduna:

 • einn bolli rasp (spáið aðeins í hvernig rasp þið veljið ykkur, mjög gult rasp getur t.d. verið með mjög miklum litarefnum í)
 • 1/2 bolli rifin parmesamostur
 • 1 msk basil (eða annað krydd)
 • 1 msk hvítlaukssalt (síðast notaði ég chili flögur í staðinn)
 • 1 tsk gróft salt
 • 1 tsk pipar úr piparkvörn

og egg til að velta upp úr áður en velt er upp úr raspblöndunni.

Það sem þarf í ídýfuna:

 • einn bolli grísk yoghurt (eða sýrður rjómi eða skyr)
 • 1 msk sítrónusafi
 • 2 msk graslaukur
 • 1/4 tsk gróft salt
 • 1/4 pipar úr piparkvörn

Ef þið eigið ekki allt þetta er hægt að skella í tzatziki. Eða ef þið eigið kannski bara sýrðan rjóma eða kotasælu og eruð í latagírnum þá er tilvalið að nota kryddblönduna frá Kims og búa til þessháttar ídýfu. Mín uppáhalds er Holiday. Þar sem ég er að öllu jöfnu frekar dipló og vil ekki vera með móral, vil ég fráráða ykkur á kurteisislegan hátt að sniðganga vogaídýfu vegna óhollustu og gerfibragðs. Það tekur 3 mínútur að búa til sínar ídýfur heima og þið vitið hvað er í þeim.

Byrjað er að gera góða tilraun til þess að skera grænmetið í aflöng stykki sem minna á franskar. Það tekst misvel.

Ég hreinlega elska rauðrófur. Fúsi elskar þær ekki en lætur sig hafa það að borða þær ef ekkert annað er í boði.

Á myndunum sjáið þið aðeins gulrætur, rauðrófur og sætar kartöflur. Þetta var það sem til var á okkar heimili þegar þessar myndir voru teknar. Munið að hafa aspas líka, það er best.

Svona lítur olíubað með rósmarín, salti og pipari út.

Þetta minnir óneytanlega á þegar um steikingu á fiski í raspi er um að ræða. Enda nákvæmlega sama aðferð. Eggjasullið fyrst, síðan raspblandan.

Bakað í ofni við ca. 220 gráðu hita í 20-25 mínútur, fer að sjálfsögðu eftir stærð stykkjana og tegund ofns. Ég tek enga ábyrgð á steikingarárangri. Þessar franskar er hægt að borða sem snakk eða sem meðlæti með öllu mögulegu.

Ég lofa ykkur og þetta er ekki loforð uppi í erminni, að þetta er svo dásamlega, undursamlega, syndsamlega gott að það mætti halda að María mey hafi kokkað þetta handa Guði strax eftir að getnaður átti sér stað og misst nokkur stykki á „gólfið“ sem endaði á borðstofuborðinu mínu á Möllegade. Krakkarnir gripu andann á lofti þegar þau tóku fyrsta bitann og Fúsi stundi þungan. Fjölskylduna setti síðan hljóða og „franskarnar voru étnar upp til agna.

Þetta er ein útgáfan að hamborgurum á okkar heimili. Lífrænn kjúklingur, gróft brauð, slatti af grænmeti og heimatilbúin sósa. Stundum höfum við nautahakksborgara, þá kaupum við lífrænt nautakjöt. Lífræn dýr hafa meira pláss, fara út í ferskt loft, fá fóður sem einnig er lífrænt og eru ekki útpumpuð af sýklalyfjum. Það er bannað að slípa og klippa gogginn á lífrænum kjúklingum.

Til að forðast allan subbuskap, þið vitið hvernig krakkar geta hagað sér við matarborðið, er best að hver og einn fái ídýfudall til að dýfa frönskunum í. Það er nefnilega alveg gjörsamlega óþolandi þegar fólk tvídýfir í ídýfurnar. Það eykur hættuna á herpessmiti, ælupestarsmiti og mörgum öðrum smitum sem ég vil ekki smitast af því þá get ég ekki gert leikfimisæfingarnar mínar úti í náttúrunni.

Verði ykkur að góðu.

Uppskriftin er fengin hér.

2 Responses to “Frönskurnar í raspinum, þessar sem ég elska.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *