Starfsmaður á Gjöri.

Hann byrjaði ágætlega, dagurinn. Ég vaknaði fyrir aldur fram að mér fannst og taldi vekjaraklukkuna ganga aftur á bak. Hún taldi niður, öfugt við það sem hún er vön. En það var ekki svo slæmt því ég mætti 5 mín fyrr í vinnuna. Sem þýddi að ég hljóp ekki inn á sjúkrahúsið eins og sjálfur dauðinn væri á hælunum á mér og ég þurfti heldur ekki að klæða mig í buxurnar um leið og ég klæddi mig í treyjuna. Þess vegna byrjaði hann ágætlega. Þangað til sumarið í heild sinni hrundi svart á hvítu. Ekkert ólíkt því þegar Vetrarfellið í Game of Thrones stórskemmdist. Eða þegar Truman varpaði kjarnorkusprengjunni á Hiroshima forðum daga. Kannski er þetta full gróf samlíking, en það breytir ekki minni upplifun í dag á hruni sumarsins. Ímyndið ykkur lítið barn sem búið er að byggja spilaborg, þó ekki mjög háa því þetta barn er nokkuð raunsætt og veit að sumrin eru lítið annað en vinnuþjark. Svoleiðis er að vera starfsmaður á Gjörinu. Þetta var engin skýjaborg, bara venjuleg, frekar lág spilaborg. Síðan kemur einhver og slær hana niður, sópar henni upp í fægiskóflu og sturtar henni niður um risastórt skítugt klósett. Þegar ég skrifa þessa færslu, líður mér svipað og þegar ég skrifaði færsluna um pabba þegar hann dó. Aftur mögulega fullgróf samlíking en þannig er það nú samt.

Ef þú lesandi góður, hefur möguleika á að velja lag núna, veldu þá String Reprice /Treaty með Leonard Cohen. Það á vel við.

Eftir að hafa uppgötvað hrun sumarsins, fór ég heim í miður góðu skapi. Ég gæti orðað þetta öðruvísi en fæst orð bera minnsta ábyrgð. Mögulega hefði ég getað gert eins og maðurinn sem keyrði bíl sínum inn í aðalinngang sjúkrahúsins snemma í morgun. Það náttúrulega fór allt í rúst og allt saman voðalega sorglegt. En ég fór heim og eftir klukkutíma öndunaræfingar mannaði ég mig upp í að kíkja betur á sumarið. Eiginlega í þeirri agnarsmáu von um að allt hefði bara verið misskilningur af minni hálfu. Það hefur áður gerst. Ég hef misskilið og allt hefur fallið í ljúfa löð aftur. Ég sem sagt taldi í mig kjark og kíkti á sumarið aftur. Í örvinglun minni hafði ég nefnilega ekki skoðað sjálft sumarfríið. Við mér blasti sumarfríið, þessi litla vesæla vika sem ég hafði óskað mér, á hraðri niðurleið niður um sama skítuga klósett og allt sumarið í heild sinni. Ferðin til Hollands sömuleiðis. Fótboltaleikur á EM sömuleiðis. Vinarhittingur sömuleiðis. Bókstaflega ALLT sömuleiðis.

Nú er vel við hæfi að hækka bara í String Reprice, nú eða hlusta bara á alla plötuna hans Cohens – You want it darker.  Það eina í allri veröldinni sem hjálpar á svona dögum er Cohen – You want it darker. Ég skil hann ekki við mig. Aldrei. Svo heitt elska ég hann.

Síðan kom Fúsi heim og sagði: „förum í göngutúr og láttu blása vel í gegnum hausinn á þér…“. Í 20 stiga hita, sól og 2 metrum á sekúndu? Gangi vindinum vel að blása í gegnum hausinn á mér.

Við fórum í göngutúr út á tún, þar sem mögulega einhver gola var. Ég hugsaði með mér að kannski væri til einhver lausn einhversstaðar úti í alheiminum. Tilveran gæti ekki orðið verri. En þá finnur Vaskur kúamykju og veltir sér mjög mjög mjög vel upp úr henni svo hún þekur allan líkama hans frá vinstra eyra og alveg út á hálft skott. Þegar heim var komið, var hann settur undir garðslönguna og bleytt upp í honum og mykjunni. Ég nuddaði líka Star Wars sjampóinu hans Fúsa vel í hann. Það freiddi grænbrúnu og allt gekk að óskum – þangað til hann stakk skyndilega af, hljóp að þvottasnúrunum þar sem tandurhrein handklæðin hanga og þrátt fyrir óp mín,  hristi  hann sig duglega -þrisvar sinnum!

Ég sem hélt að dagurinn gæti ekki versnað.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *