Tvítugsafmælið

Ásrún Svala verður ekki tvítug með einni köku! Nei, það er pissað undir þvottasnúrunum, það er farið í sturtu og löggan kemur í heimsókn.

„Auðvitað máttu halda partý elskan“.

„Fyrir allan bekkinn? Afþví að þið eruð að útskrifast og sjáist aldrei aftur? Jú ekkert mál“.

„Ekkert mál, ekkert mál“.

Þangað til ég rölti út til að athuga aðstæður og kem að pissandi menntskælingi undir þvottasnúrunum.

Þangað til ég heyri að einhverjir séu farnir í sturtu.

Þangað til löggan rennir inn í innkeyrsluna. Og spyr hvort allt sé ekki í gúddý og hvort það sé ekki gaman? En hvort sé ekki í lagi að lækka í tónlistinni því granninn sé ekki í góðu skapi og fílar ekki The Chainsmokers.

Svona rúlla utandyraafmælin í Möllegade, annað hvort hótar granninn að hringja í lögguna eða hringir í lögguna. Eins og hún hafi andskotann ekkert annað að gera en að biðja fólk um að lækka í tónlistinni kl. 22.00 á laugardagskvöldi.

Hann er svoldið úríllur hann Gerald granni.

Kvartanirnar byrjuðu árið 2008 þegar við vorum að flísaleggja neðri hæðina og Fúsi vogaði sér að skera flísarnar á sunnudegi um hábjartan dag. Samkvæmt siðareglum nágrannaskapsins var það bannað.

Síðan vorum við ekki með læti í nokkur ár, þangað til ég hélt upp á afmælið mitt 2015. Við vöruðum hann við að það gæti orðið hávaði fram eftir nóttu (eða framundir morgun). Hann hringdi þrisvar í Fúsa sem var sá eini sem var í standi til að heyra í síma. Fúsi kom skilaboðunum áleiðis til afmælisbarnsins um að lækka í Helga Björns en afmælisbarnið var svo ánægt með að vera orðið fertugt og í gleðivímu og skildi því ekki skilaboðin því miður. Ekki fyrr en kl. 6 um morguninn.

Árið eftir ákveður Svala að halda upp á 19 ára afmæli sitt og varar Gerald granna við með miða í póstkassann um að það verði partý frá kl. 20.00 til 23.30. Um leið og Gerald granni er búinn að lesa miðann, birtist hann í dyrunum hjá okkur og segir: „Ég samþykki ekki“ og strunsar síðan í burtu. Hann er af erlendu bergi brotinn og mjög stuttorður.

Síðan hófst afmælið hennar Svölu og Gerald granni hringdi um tíuleytið og skipaði afmælisbarninu að lækka í tónlistinni. En svo óheppilega vildi til að Svala hafði nánast misst heyrnina þarna og sagði því bara: „Vaaad? Vaaad siger du?“. Henni heyrðist hann þó segja: „Jeg ringer politi“.

Seinna um sumarið bankar Gerald granni, alveg trítilóður, veifandi miða og segir: „ég samþykki ekki!!!“

Við: „ha?“

Gerald granni: „ÉG SAMÞYKKI EKKI!!!“

Við komum af fjöllum og báðum um að fá að sjá miðann.

Jú þetta var tilkynning um partý og viðvörun við hárri tónlist… úr garðinum hinumeginn við hann og það hafði farið fram kvöldið áður.

Maðurinn þjáist líklega af áfallastreituröskun eftir þessa þrjá hávaða hjá okkur frá árinu 2007 til 2016.

Þess vegna hringdi hann í lögguna í gær sem hafði ekkert annað að gera en að biðja glaða menntskælinga um að lækka í tónlistinni kl. 10 á laugardagskvöldi.

Kl. 23.30 var allt dottið í dúnalogn, það kom skúr um nóttina sem skolaði pissinu undir þvottasnúrunum niður á milli hellnanna og Svala bauð að venju nokkrum vinum gistingu eftir bæjardjammið.

En það nægði ekki að halda heilt bekkjarafmæli til að halda upp á tvítugsafmæli. Ekki þegar um Svölu ræðir.

Hún hefur alltaf verið svona.

Hún sparkaði fast þegar hún var að breytast úr fóstri í barn. Hún fæddist með festu, ég remdist tvisvar. Hún saug brjóstamjólkina svo fast að háræðarnar sprungu og hún kúkaði blóði. Hún gerir fátt með hálfkáki. Nema kannski húsverkin. En lífið snýst ekki um húsverk að hennar mati. (Hún áttar sig…). Ég gæti skrifað hefðbundna lofræðu um hana Svölu en tel mig ekki þurfa þess. Hún veit hvað mér finnst um hana. Það er nóg fyrir okkur.

Ég ýtti við henni í morgun kl. 10 þegar dagurinn var að verða hálfnaður og sagði henni að lóðin tæki sig ekki til sjálf. Hún dreif næturgestina með sér í verkið og á meðan göldruðum við faðir hennar fram hinn dýrindis morgunverð skreyttan myntu og granateplakjörnum. Á meðan þær tóku lóðina í gegn, kom fjölskyldan sem hún hefur verið barnapía hjá í 6 ár, við og kom henni algjörlega á óvart og færði henni gjöf. Einhverjir fóru síðan heim og aðrir bættust við. Þá var kominn tími til að horfa á Aquamarine. Það virðist sem svo að tvítugt sé ekki of gamalt fyrir Aquamarine.

Þarna má sjá Emmu hina þreyttu, afmælisprinsessuna, Helenu æskuvinkonu og Selmu Richter sem á ættir að rekja til Vestfjarða.

Stuttu seinna var kaka.

Ég meina, maður verður bara einu sinni tvítugur.

Í mörg ár hefur það verið hefð hjá fjölskyldunni að fara út að borða á afmælisdögunum ef afmælisbarnið vill. Afmælisbarnið má líka velja veitingarstað. Í fjöldamörg ár völdu stelpurnar Mongolian Barbeque. Sönderborgarar þekkja staðinn. Fyrir tíu árum síðan fékk ég meira en nóg af þeim stað (án þess þó að geta gagnrýnt hann neitt því það er ekkert út á hann að setja), en þá höfðum við borðað þar ca. 200 sinnum. 200 sinnum á 6 árum. Svala valdi Mongolian í kvöld. Má rassskella tvítug börn?

Allavega, að öllu gamni slepptu, þá er Svala er líklega sú manneskja sem hefur þroskað mig hvað mest. Og ekki veitti víst af.

Elsku hjartans barn. Til hamingju með daginn þinn.

Á myndinni sem er tekin í júní 2013 er hún með sínum uppáhaldskennurum sem kenndu henni allmikið á sínum tíma.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *