Planið fyrir viku 24.

Viku 24… þið hafið væntanlega ekki hugmynd um hvað ég er að tala -nema þið búið í Danmörku eða hafið gert. Kona að nafni Polina Bachlakova tjáði sig um fyrir ca ári síðan inn á Vice hvað það var sem sjokkeraði hana mest við Dani þegar hún flutti til Danmerkur. Einnig talaði hún við aðra útlendinga og þar á meðal Kristínu Larsdóttur Dahl sem sagði eftirfarandi: „Danskerne er derimod fremragende til at organisere og holde orden – og de er nok også det eneste folk i verden, der planlægger alt efter ugenumre. I Danmark kan det simpelthen ikke lade sig gøre at være lidt spontan og ændre planerne for „uge 15″“. Á íslensku útlegst þetta ca. svona: „Danir eru frábærir í að skipuleggja sig og hafa stjórn á hlutunum og þeir eru að auki líklega þeir einu sem skipuleggja allt eftir vikunúmerum. I Danmörku er ekki fræðilegur möguleiki að vera svolítið hvatvís og breyta plönunum fyrir viku 15“. 

Við hjónin getum ekki lært vikunúmerin. Fúsi er samt verri en ég því ég kann viku 1, 26 og 52. Hann kann enga og svo segja Danirnir við hann í vinnunni: „Ej altså, nu må du snart lære det… du har boet her i 14, 15, 16 år“ (nú verðurðu að læra þetta, þú ert búinn að búa hérna í 14, 15, 16 ár). En Fúsa er svo fokk sama hvað þeir segja og neitar að læra vikunúmerinn, ekki einu sinni 1, 26 og 52.

Ég er í þessum skrifuðu orðum að leggja drög að plani fyrir viku 24. Því verður ekki haggað. Og ég vara viðkvæmar sálir við sem og bindindisfólk. Þetta plan er mettað áfengisvímu og fjarri allri skynsemi.

Mánudagur: Fara niður á landamæri og kaupa eins mikið áfengi og ég get borið. Fleiri Aperolflöskur, nokkrar Campariflöskur, Gin, Romm -líka ódýrt Romm eins og t.d. Bacardi og Captein Morgan og að auki ætla ég að vera hvatvís og kaupa bara eitthvað sem mér lýst vel á. Þegar ég kem heim, ætla ég að pakka öllum þessum bókum (sjá mynd) ofan í kassa sem geymdur hefur verið úti í skúr síðan í mars, óþreyjufullur eftir að vera fylltur af akkúrat þessum bókum. Síðan ætla ég að raða öllu áfenginu ofan á barinn svo að aðgengið að því verði sem greiðlegast. Þegar ég er búin að því, ætla ég á utandyra-kojufyllerí, alein með kertaljós og spotify. Pirra Gerald granna svolítið.

Þriðjudagur: Ég ætla að vera grúttimbruð og horfa á þætti allan daginn. Bara einhverja þætti. Halda áfram að blanda mér í glas, eða ekki, drekka rommið mitt með röri en ekki af stút (því ég tími ekki að slefa ofan í flöskuna) og fagna lífinu eins og það leggur sig. Nei annars, ég ætla ekki að horfa á þætti allan daginn. Ég ætla að standa upp annað slagið og dansa við nýjasta lagið hans Justins Biebers. Fagna lífinu.

Ég ætla að klæðast Levis 501 stuttbuxunum mínum og bleikum topp, vera svaka pæja og syngja DEEESPAAACITO This is how we do it down in Puerto Rico… Já svona verður þriðjudagurinn í grófum dráttum. Ó, ég hlakka svo til.

Miðvikudagur: Ég ætla að vakna kl. 14:00, fá mér morgunmat og fara beint á kvöldvakt og skila blessuðu bókunum um leið. Þórhildur Bjalla, bókasafnsfræðingur sjúkrahúsbókasafnins, saknar þeirra vafalaust. Ég á ekki eftir að sakna þeirra. Ég ætla ekki að farða mig, ekki að greiða mér og ekki að tannbursta mig í hreinu mótmælaskini við kvöldvaktir. Tilhugsunin um kvöldvaktir er jafnslæm og að koma við útþaninn og blóðfullan skógarmýtil með berum höndum.

Þegar ég kem heim, ætla ég að fá mér fjórtánfaldann Campari ofan á klaka og horfa á þætti, bara einhverja þætti. Eiginlega alveg sama þótt það séu bara „Hringdu í ljósmóðurina eða Hin óbrjótanlega Kimmy…“. Sama hvað shit það er. Fara að sofa eftir að sólin er komin upp.

Fimmtudagur: Ég vakna korteri fyrir kvöldvakt í allslæmu ástandi. Ég veit það. Fer skálfandi á beinunum og gubbandi upp á Gjörið og er send heim strax aftur vegna þessarar hrikalegu „flensu“ sem ég hef nælt mér í. Ó jei. Þá kemst ég á Elton John tónleikana sem eru í bakgarðinum mínum á fimmtudagskvöldið. Ó jei. Ég elskaði Elton John á tuttugasta áratugnum og dauðlangar því á tónleikana á fimmtudaginn. Stutt að fara og svona.

Ykkur finnst plön mín um drykkju kannski heldur glæfraleg, enda komin af vínkæru fólki eins og Viggó heitinn Jóns, vinur hans pabba orðaði það, þegar hann varaði Fúsa við að vera halda of miklu víni að mér, stuttu eftir að við byrjuðum saman árið 93. Ég var 17.

Föstudagurinn, laugardagurinn og sunnudagurinn eru enn óráðnir enda er víst þó nokkur hætta á að líkamlegt ástand mitt verði fyrir neðan allar hellur þegar líða tekur á vikuna. Ég sem þoli ílla þessháttar óhemjuskap í meira en eina stutta kvöldstund.

En ég hef búið í Danmörku í 16 ár og planinu fyrir viku 24 verður ekki breytt héðanaf.

 

 

6 Responses to “Planið fyrir viku 24.

  • Goda skemmtun elsku snapp-vinkona ?

  • Helena
    7 ár ago

    Þetta er besta plan sem ég hef séð lengi, hvenær kemur þessi vika? Ég ætla að vera coworker á plani!!

  • Guðrún
    7 ár ago

    Öll þessi ár sem ég bjó í Svíþjóð þá fattaði ég aldrei þetta viku system hj þeim
    Lýst vel á viku 24 hjá þér 🙂

    • Nei og svo fer allt í kerfi ef maður biður um frí frá 26/7-2/8. Það er fer allt í rugl þar sem vika 30 eða 31 var ekki valin. En svona er þetta bara 😉 Vika 24 er yndisleg!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *