„Keyrðu bílnum í höfnina,“ sagði hún og meinti það.

Planið fyrir viku 24 hélst svona la la. Ég fór ekki niður á landamæri til að versla áfengi heldur notaðist ég við það sem ég átti. Reyndar drakk ég bara romm og ekkert annað. Ekki einu sinni vatnssopa. Ég horfði ekki á neina þætti um hábjartan dag heldur tók ég til. Ég tók reyndar meira en til. Ég tók mig til og kveikti í öllu eldfimu sem tengdist skólagöngu minni síðustu árin. Að sjálfsögðu fór hreinsunin fram í beinni á snappinu (Alrun).

Það skíðlogaði alla nóttina og framundir morgun og vellíðanin sem streymdi um mig þegar ég kveikti í þessu og horfði á logana læsa sig í greinar, rannsóknir og glósur var góð. En lyktin af lóðinni er ekki eins góð. Það virðist sem lykt af báli hafi læst sig í allt og þá sérstaklega skúrinn, bílskýlið og annað tréverk innan lóðamarkanna. Pínu pirrandi en alveg þess virði.

Ég fékk skilaboð frá danskri vinkonu um hvort það væri ekki æðislegt að vera búin að verja ritgerðina? Nú væri allt yfirstaðið, flogið í veg og horfið á brott að eilífu. (Hún á það til að vera svolítið ýkt í orðalagi, svolítil dramastelpa).

Ég svaraði henni að ritgerðin væri enn til, hún lægi undir aftursætinu í bílnum.

Keyrðu bílnum í höfnina, svaraði hún þá og meinti það.

Ég íhugaði það. Það eina sem aftraði mér frá því var hversu vænt mér þykir um nýja bílinn okkar. Mér þykir svo gaman að keyra hann að það hvarflar stundum að mér að fara á honum í vinnuna í staðinn fyrir að hjóla, en ég geri það ekki.

 

Myndina fann ég á netinu því ég hef enn ekki tekið almennilega mynd af okkar bíl. 

Vissuði annars að bílasölur í dag eru með heimsendingarþjónustu? Við sýndum bílnum sem var í 222km fjarlægð, áhuga og þeir buðust til að koma með hann til að sýna okkur. Okkur leist vel á kaggann en vildum láta bóna’nn aðeins betur. Þannig að það var farið með hann aftur á bílasöluna til að bóna og gera meiri glans. Síðan var þessi elska send til okkar. Í þessa rúnta er notast við ellilífeyrisþega í ökufæru ástandi. Ansi sniðugt fyrirkomulag finnst mér.

Restin af planinu fyrir viku 24 fór algerlega í vaskinn. Ég mætti hvorki þunn né full í vinnuna, gubbaði því ekkert og var ekki send heim. Komst því ekki á tónleika með Elton John.

Annars hef ég legið talsvert undir feld undanfarið eins og Þorgeir Ljósvetningagoði Þorkelsson gerði á sínum tíma þegar hann hugsaði málið. Ég hef einnig verið að hugsa málið en ekki enn komist að neinni niðurstöðu um neitt.  Þó held ég að framtíð mín sé að skýrast. Mest heillandi finnst mér að fara að selja Merrild kaffi af tveimur ástæðum. Þær eru: betri laun og ferðir til Bandaríkjanna (líka til Seattle) einu sinni á ári MEÐ maka. Ég veit þetta því ég hef verið að ræða fyrir fyrrverandi Merrild kaffisölumann undanfarna daga, sem fór ca. 30 sinnum til Bandaríkjanna því að hann seldi Merrild kaffi í ca. 30 ár.

Ég læt einu kaffimyndina sem ég man eftir að eiga af mér fylgja með. Þarna erum við bæði 4 árum yngri en við erum í dag. 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *