– Sá sem enga áhættu tekur, vinnur ekki neitt-

Søren Kierkegaard átti að hafa sagt: „At vove er at tabe fodfæste en kort stund. Ikke at vove er at tabe sig selv“. En hann sagði þetta víst ekki, heldur var þetta stílfært upp úr einni af bókunum hans. Á íslensku myndi þetta þýða: „Að taka áhættu er að missa fótfestuna í stutta stund. Að taka ekki áhættu er að týna sjálfum sér“. Og þótt hann (Søren) hafi ekki sagt þetta, þá er spakmælið meistaralega gott, enda alþekkt meðal Dana og útlendinga búsetta í Danmörku og mikið notað.

„Hoo inthet wawær han inthet windher“ er gamalt danskt spakmæli frá árinu 1506. Á nútímadönsku stafast það svona: „Hvo intet vover, intet vinder“ og þýðir um það bil: „Sá sem enga áhættu tekur, vinnur ekki neitt“. Marianne Ihlen sagði þetta (eða var það Axel Jensen, kærastinn hennar? Nú man ég það ekki) þegar þau voru að gera upp við sig hvort þau ættu að flytja frá Osló til grísku eyjarinnar Hydra eða ekki. Marianne og Axel fluttu, eignuðust barn, hættu saman og Marianne byrjaði með Leonard Cohen. Lagið So long Marianne, sem svo mörg okkar þekkja er um samband Marianne og Leonards. Þarna sannaðist spakmælið svo sannarlega, því ef þau hefðu ekki tekið áhættuna og flutt frá Osló til Hydra, hefði Marianne ekki unnið hjarta Leonards. Það var dágóður vinningur að mínu mati.

Í byrjun ágúst sat í ég flugvél á leið til vinnu. Vinnu sem ég hef unnið oft áður, oft og mörgum sinnum, með hinni vinnunni á Gjörinu í Sönderborg. En í þetta skiptið var engin hin vinna. Ekkert fast undir fótum, ekkert öryggi þannig séð nema í höfðinu á mér því ég þykist vera bjartsýnismanneskja eins og þeir félagar, Birtingur og Altúnga sem sögðu að maður ætti að segja að allt sé í allra besta lagi. Það er allt í allra besta lagi. Þó það hafi hvarflað að mér að ég væri að taka áhættu og framtíðin væri kannski óviss. Og rosaleg líður mér vel með þessa ákvörðun mína um að vera bara í lausu lofti. Frjáls eins og fuglinn á vissan hátt.

Í fluginu um daginn var ég að hlusta á bókina So long Marianne og hnaut um spakmælið sem hún notaði þegar þau þurftu að gera upp hug sinn varðandi flutningana. Mér fannst þetta passa svo vel við mig þar sem ég kastaði öryggi, titlum og ágætis launahækkun nú síðast um þar síðustu mánaðarmót frá mér og kvaddi vinnustaðinn til margra ára með um það bil tveimur tárum. Ef ég hefði ekki gert þetta hefði ég mögulega týnt sjálfri mér. Ég hefði allt eins getað stillt mér upp við hliðina á öndunarvél og verið öndunarvél. Þið vitið hvernig öndunarvélar virka, þær eru bara kjurrar og fyrir framan þær stendur læknir eða hjúkrunarfræðingur sem ýtir á takka eða snýr tökkum og öndunarvélarnar gera eins og þeim er sagt. Mig langaði ekkert til að vera öndunarvél. Þegar allt kemur til alls er mér líka sama um titla og launahækkanir. Og föst laun á mánuði, fasta vinnufélaga, starfsmannafundi og jólafrokosta. Slétt sama eins og stendur. Ég hef aldrei verið meðlimur í atvinnuleysiskassa (danska a-kassanum sem tryggir manni dagpeninga í atvinnuleysi) og ég íhuga alvarlega að segja mig úr stéttarfélaginu. Já, ég lifi svo sannarlega á brúninni þessa dagana.  Ef ég væri að labba upp á Kirkjufellið núna, myndi ég fara alla leið upp á topp í stað þess að fara andlega yfirum á síðustu metrunum eins og gerðist þarna um árið.

Ég fékk meira að segja þá skyndihugdettu að fara á hestbak þegar ég var á Íslandi um daginn og bara vegna þess að ég sá hest og vissi hvar reiðtygin voru geymd. Ekki það að ég þekki hestana hennar mömmu vel, veit tæplega hver þeirra er ótemja eða krakkahestur. Nokkur ár eru liðin frá síðasta reiðtúr og tók það mig allamargar mínútur að leggja á. Stilla beislið, stilla múlinn, á með hnakkinn, lengja í gjörðinni, hesturinn of feitur, framar með hnakkinn, spenna gjörðina og herða af öllum lífsins sálarkröftum. Þið vitið hvernig þetta er gert. Síðan fór ég á bak og reið niður í skóg. Við fyrsta tækifæri lét ég klárinn hlaupa og lagðist hann í þetta fína lull og vildi ekkert annað. Ég reyndi að lyftonum upp og losa að framan, þvingonum betur innundir sig að aftan og mýkjann í miðjunni. Það eina sem ég hafði upp úr því var að skipta honum yfir á brokk. Stórfenglegt brokk og hast eftir því. Einu sinni í gamla daga sat ég brokkið algerlega, fylgdi hreyfingum hestisins eins og við værum ein og sama skepnan. En það sama var ekki uppi á teningnum þarna. Klárinn kastaði mér fyrst til hægri, svo upp í loft og síðan til vinstri, sí endurtekið. Ég greip í hnakkinn en það hjálpaði lítið, ég sat ekki bölvað brokkið. Ég var eins og hálviti. Ég stöðvaði hestinn, leit í kringum mig og sá ekki neina einustu hræðu, Guði sé lof. Ég hafði nefnilega fundið gamla Freyfaxapeysu inni í skáp og var íklædd henni og það hefði sett ansi dökkan blett á félagið (Freyfaxa) ef sést hefði til mín.

Þessi færsla er ekki alveg ný. Ég skrifaði hana um daginn þegar ég var í Bergen. Ég tók líka mynd af niðurrifinni barnadeildinni á Haukeland sjúkrahúsi og rigningunni renna niður Ulriken. Þegar ég tók myndina, tengdi ég hana við færsluna en núna man ég ekkert hvernig. Það er gjörsamlega stolið úr mér en samt ætla ég að láta hana fylgja með.  Og eina af mér á hestbaki því það þóttu tíðindi sem varð að mynda.

One Response to “– Sá sem enga áhættu tekur, vinnur ekki neitt-

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *