Kvöldgangan þar sem akkúrat ekkert gerðist.

Ég tilkynnti allmörgum það á öðrum samfélagsmiðli í dag að Fúsi væri að hlaupa í spik um sig miðjan og að ég þyrfti að hreyfa hann eins og hundinn. Hann er núna farinn að sofa. Ekki ég. Ég skríð uppí þegar hann verður sofnaður.

Ég skil samt ekki að hann hafi ekki verið sáttur við að ég sagði örfáum hræðum frá þessum. Þetta eru eðlileg viðbrögð karllíkamans á þessum aldri. Hormónaröskunin og allt það. Hann á kannski bara eftir að venjast þessu þar sem þetta er svo nýtt fyrir honum.

En ég gerði það í dag. Ég hreyfði hann. Og hundinn. Setti báða í bíllinn rétt fyrir kvöldmat, keyrði niður í Kaupfélag og sendi Fúsa inn eftir nesti. Hann fékk skýr skilaboð um að kaupa jöklasalat, gúrku og grænt epli, allt saman lífrænt. Nú verður sko tekið á því eða farið í átak eins og landinn segir.

Ég var í svo miklu stuði að ég ákvað að sýna Fúsa strönd í Danmörku sem hann hafði ekki séð áður.

Ég get svo sem ekki sagt að neitt merkilegt hafi gerst í þessum göngutúr sem var um 7km, annað en það að við rákumst á gæsir í girðingu. Það var reyndar skilti á girðingunni sem á stóð að það mætti alls ekki fóðra grísina en ég er nú samt handviss um að þetta voru gæsir. En þeir um það (bændurnir). Fyrir mér mega þeir halda að þetta séu grísir.

Fúsi hafði sama og enga skoðun á gæsunum/grísunum enda ekki alinn upp í sveit og ber þess oft augljós merki. Gott dæmi frá í dag var, þegar við vorum búin að klippa allt sem hægt var að klippa í garðinum og Fúsi fór að raka saman með hrífu. Þá verður hann skyndilega kaffiþyrstur og leggur hrífuna frá sér; ÖFUGA. Það munaði engu að það brysti á með rigningu. Mér tókst bara að bjarga veðrinu fyrir horn með því að snúa hrífunni við á síðustu stundu.

Það var nefnilega tvennt sem garanteraði rigningu í sveitinni í gamla daga; öfug hrífa og ský yfir Snæfellinu.

 

Annað gerðist svo sem ekki merkilegt fyrir utan að Fúsi byrjaði strax eftir 1km að tilkynna mér það að hann væri orðinn svangur. Ég sagði honum bara að slaka á því að við ætluðum ekki að borða fyrr en eftir 5km. Þá hljóp einhver kergja í hann og fitjaði hann upp á nefið og sagði að það væri kúadellulykt í loftinu. Að það væri varla hægt að anda. Ég benti honum á að ég gæti nú aldeilis blásið í fólk og myndi gjarnan blása í hann, færi hann í öndunarstopp vegna kúadellulyktar.

 

 

Ég er voðalega hrifin af skýjum (og kirkjugörðum, byggingarkrönum, brúm, nýjum byggingum, gömlum byggingum, kirkjum og bókum). Einn uppáhaldsskýjastaðurinn minn (ef það er orð) er heimleiðin frá Hamburg á sólseturstíma. Skýin í vestri geta verið stórkostleg. Og þetta útsýni var í vesturátt.

Þessi ský voru líka í vestri. Og þarna borðuðum við nestið okkar. Það gómsæta nesti.

Þarna sést yfir til Þýskalands og fólk sem tekur þátt í Urriðavatnssundinu gæti auðveldlega synt þarna yfir. Ég gæti það, held ég.

Það var nú allt með kyrrum kjörum þarna, enginn sjómaður sást í kringum þessa báta heldur lágu þeir bara þarna og nutu sólarlagis eins og við. Þeir eru bara heppnir að geta gert það á hverju kvöldi.

Reyndar sáum við tvær manneskjur úti í miðjum sjó í öllum fötunum. Það myndi seint hvarfla að mér! Ég get sagt ykkur það að eftir að maður hefur vanist sjósundi, getur maður ekki hugsað sér annað en að synda nakin í sjó. Ég sætti mig við að þurfa að vera í sundfötum í sundlaug en ekki í sjó. Hvað þá fullklædd.

Ég bað Fúsa um að kalla til þeirra (hann er raddsterkari en ég) og spyrja þá hvort að vandamál þeirra væru nokkuð á andlega sviðinu. Hvort að hugsanir þeirra væru nokkuð heimskari en gínur? Hvað veit maður? Fólk sem fer fullklætt út í sjó getur verið í hinu ýmislega ástandi.

Á meðan ég man, það  þýðir ekkert að rýna í myndirnar og leita að þessu fólki né að gæsunum, ég tók mynd af hvorugu.

Eiginlega var ég bara að skrifa þessa færslu til að sýna ykkur myndirnar og sjá til þess að þær varðveitist „online“. Eins og ég skrifaði fljótlega í færslunni, þá gerðist ekkert merkilegt í þessum göngutúr.

Þetta er útsýnið frá bílastæðinu. Göngutúrinn var meðfram Illerstrand á Broager land.

Lifið heil.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *