Ertu hrædd/ur við skógarmítil?

 

Við Íslendingar eigum það til að vera svolítið ýktir. Svona almennt. Einn daginn fara ALLIR út að hlaupa og síðan fara ALLIR í Crossfit. Þegar því er lokið, fara ALLIR í Costco en eftir stuttan tíma verður það líka hluti af hversdagsleikanum en þá bjargar opnun H&M málunum með pompi, pragt og öryggisvörðum. Það er búist við biðröð fyrir utan H&M sem opnar í hádeginu næstkomandi laugardag en fávitar þjóðarinnar (já samkvæmt kommentakerfi DV er maður er eiginlega fáviti ef maður fer í biðröð til að komast inn í H&M) fá að bíða inni í Smáralindinni. Þar verður opið alla nóttina. En sú gæska. Ég segi nú ekki annað.

Við erum eins og ég segi, stundum svolítið ýkt.

Það gildir líka þegar fréttist af einum skógarmítli í grasi á Reykjanesskaganum. Þá tekur fólk U-beygju og fer frekar austur. Eða vestur. Eða bara eitthvað annað. Já og sendir tilkynningu til fjölmiðla sem birta að sjálfsögðu fréttina; „Morðóður skógarmítill gengur laus á norðvesturhorni Reykjanesskaga“. Enda afar skiljanlegt. Þetta er stórhættuleg padda sem drepur allt kvikt, í skásta falli, lamar allt kvikt. Allavega ekkert minna.

(Þarna sést lítill skógarmítill á matardiski uppi á eldhúsbekk heima hjá mér. Svona lítur hann út „blóðlaus“)

Íslenska þjóðin er nefnilega vör um sig og tekur enga áhættu þegar kemur að þessháttar hættum.

Stundum hvarflar að mér að við Íslendingar séum pödduhræddasta þjóð í heimi, svo pödduhrædd að það jaðrar við móðursýki. Sumir öskra svo hátt þegar þeir sjá geitung að undir tekur í nálægum fjöllum. Aðrir eru hræddari við Reykjanesið vegna þess að þar hefur sést til skógarmítils, en að keyra Reykjanesbrautina. Að mér vitandi er tölfræðilega hættulegra að setjast upp í bílinn sinn og keyra á þjóðvegum landsins, en að ganga þar um í náttúrunni. Einhversstaðar las ég að það slösuðust hátt í 200 manns, alvarlega, í umferðinni á Íslandi á ári.

Kannski er ég að ýkja. Að mér vitandi hefur ekki verið gerð rannsókn á því hvursu margir veikjast alvarlega af völdum skógarmítils á ári á Íslandi.

Allavega.

Ég hef búið í Danmörku í 16 ár. Þar sem skógarmítillinn lifir góðu lífi, bæði í skóginum, á túnunum og á mörgum stöðum inni í bæ. Ég hef farið reglulega í skóginn á þessum árum og eftir að við fengum hundinn Vask, fer ég mjög oft (stundum oft í viku). Ef það er heitt, þá fer ég í stuttbuxum og hlýrabol. Ég ber aldrei neina skordýravörn á mig. Ég fer djúpt inn í skóginn, sest í grasið og strýkst við laufin. Ég hef verið bitin af skógarmítli 4 sinnum. Á 16 árum. Og mér hefur ekki orðið meint af sem betur fer því mér finnst frábært að fara í skóginn. Ég hef margt oft talað við og heyrt um Íslendinga sem fara ekki inn í erlenda skóga vegna skógarmítils. Þeir missa af miklu.

(Þessi mynd er fengin af netinu, ég er ekki svona loðin. En þegar ég finn þá á mér, eru þeir bara „eitthvað dökkt“ sem fer ekki af þegar ég reyni að dusta það af. Myndin er ýkt).

Skógarmítlana hef ég uppgötvað nokkrum klukkutímum eða daginn eftir heimkomu og bara tekið þá eða þeir hafa verið teknir. Síðan fylgist ég með svæðinu ef það skildi myndast roði því þá fyrst þarf ég að fara til læknis til að fá meðferð. Það er nefnilega algjer óþarfi að fara á læknavaktinu til að láta taka skógarmítil  (við skulum virða vinnu annarra meira en svo) því það er alltaf einhver sem getur tekið hann úr ef maður getur ekki sjálfur.

Ég man eftir fyrsta skiptinu, mér fannst það óþægilegt og gat ekki tekið hann sjálf, heldur fór ég með lærið og mítilinn fastan á því í vinnuna því ég var hvort eð er að fara í vinnuna. Samt hafði ég tekið úr Svölu. Reyndar gat ég ekki tekið úr henni í fyrra skiptið sem var í fyrsta skipti sem við sáum mítil (hún hefur bara fengið skógarmítil á sig 2svar).  Ég hljóp með barnið í fanginu yfir til vinafóks okkar sem bjó á sömu stúdentagörðum og við og þau redduðu málunum. Aldís og Fúsi hafa aldrei verið bitin. Á 16 árum.

(Þarna er ég með einn í snörunni en mér finnst best að nota þessa græju til að fjarlægja þá, bæði úr mér og Vaski. Þetta er penni með lykkju).

Vaskur fær mikið á sig og er honum strokið og strokið, ekki eingöngu af ljúfmennsku, heldur er sífellt verið að þreyfa eftir mítlum. Hann veit hvað lykkjupenninn þýðir og kann að vera kyrr á meðan þeir eru fjarlægðir. En eftir að þeir hafa verið fjarlægðir vill hann fá þá, en fær þá ekki. Ég held að honum sé ílla við þá, hann bítur ekki í þá en byrjar að slefa þessi heil ósköp og veltir þeim til og frá. Eins og að hann vilji drekkja þeim. Þeir hafa dottið af honum þegar hann er einn heima og þá er allt á floti í slefi. Eitt sinn hafði hann stígið á einn og það voru blóðblettir út um allt hús.

(Þessi mynd er tekin heima hjá mér. Takið eftir svarta blettinum framan á mítlinum, þetta er í raun búkurinn. Þið sjáið hann á myndunum fyrir ofan). 

Þið ykkar sem hafið búið í löndum þar sem lús er mjög algeng í leik- og grunnskólum, kannist við það þegar farið er með börnin í klippingu og hjartað er eiginlega niður í brókinni manns yfir því að mögulega finnist lús í krakkanum. Ekkert væri vandræðalegra. Svoleiðis leið mér þegar ég fór í fyrsta sinn með Vask til dýralæknis og ég varð vör við að það datt mítill af honum og niður á gólf. Einn hlunkur. Ég stóð þarna og starði á ófreskjuna. Ég hafði aldrei séð hann svona blóðfylltan áður.  Átti ég að láta sem ekkert væri eða vera heiðarleg og segja dýralækninum frá því að það væri útþaninn ófreskja fyrir aftan hann? Ég ákvað að segja frá en leið eins og ég hefði vanrækt hundinn. Ég benti eins og bjáni á mítilinn og sagði eitthvað á þá leið: „Mér þykir það afar leitt en ég hef grun um að þetta sé komið úr mínum hundi. Fyrirgefðu“. Dýralæknirinn beygði sig niður, tók mítilinn með berum fingrum og henti honum í ruslið og sagði: „Hvabehar? (hvað sagðirðu?)“. Með berum fingrum… en honum varð greinilega ekki meint af.

Síðan þá hefur Vaskur fengið tugi, ef ekki hundruði skógarmítla á sig og er síður en svo lamaður, hvað þá dauður.

Ég viðurkenni að ég höndla ekki að halda á þeim svona stórum með berum fingrum, ég tek þá með skeið og set þá á diskinn uppi á eldhúsbekk til að taka mynd. En þessa litlu tek ég með berum fingrum og fleygi beint í niðurfallið og skola vel á eftir. Þessir stóru fara beinustu leið í tojlettið. Nema þegar mér dettur í hug að mæla blóðmagnið í þeim á sársaukalausan hátt.

Ég tek bara alls ekki sénsinn á að þeir lifi ruslið af, leggi 2000-3000 egg hver og einn, sem síðan fjölgar sér, hver og einn. Það myndi myndast skógarmítlanýlenda hérna á lóðinni hjá mér, þeir myndu ráðast á okkur þúsundir í einu og sjúga úr okkur hvern og einasta blóðdropa. Tægjurnar af okkur yrðu síðan sendar heim til Íslands til að vera jarðsungnar- og settar þar, með tilheyrandi sálmasöng.

Ég er ekki ýktur Íslendingur fyrir ekki neitt.

 

 

3 Responses to “Ertu hrædd/ur við skógarmítil?

  • Margrét Ólöf Magnúsdóttir
    7 ár ago

    Ég kaupi 2 töflur hjá dýralækninum á vorin sem duga 12 vikur hvor og þetta heldur mýtlunum frá hundinum mínum í skógum Noregs. Einstaklega þægilegt.

    • Já höfum líka gefið okkar svoleiðis, þó svolítið í neyð þar sem ég er ekkert alltaf of hrifin af því að gefa honum „skordýraeitur“. Ég gafst eiginlega upp á fjöldanum.

  • Gudrun Geirsdottir
    7 ár ago

    Spot on! 🙂 🙂 Snillingur ertu 🙂

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *