Charles de Gaulle flugvöllurinn er ekki stór. Alls ekki.

Á næstu dögum er fyrirhuguð Parísarferð með ónefndum ættingja á efri árum. Ættinginn flýgur frá Keflavík, ég flýg frá Hamburg. Ættingi þessi er á margan hátt ferðavanur en þó ekki aleinn á framandi slóðum. Þurfti ég því að eyða heilum þremur mínútum í að telja í viðkomandi kjark um að lenda á Charles de Gaulle (CDG) þó svo að það væri móttökunefnd til staðar (ég), og það tókst, sko að telja í ættingjann kjarkinn. Enda þessi tiltekni ættingi frekar cool á því svona að öllu jöfnu.

Örfáum dögum seinna, skæpa ættinginn á efri árunum og dóttir mín sem er nýbúin að vera í París. Ég sit í sama rými og heyri samtalið með öðru eyranu.

Ættinginn: „Var ekki gaman í París?“

Svala: „Jú, æðislegt“. 

Ættinginn: „Er flugvöllurinn ekki stór?“

Svala: „Jú, hann er HJÚTS.“

(Þarna byrjaði ég að veifa báðum handleggjum til að gefa Svölu merki um að hagræða sannleikanum svolítið).

Ættinginn: „Og er mjög erfitt að rata þarna.“ 

Svala: „Já, hann er mjööög flókinn…“ 

Ættinginn: „Nú, mamma þín segir annað…“

Svala: „Já, hún segir nú svo margt, það er ekkert að marka hana…“ 

Ættinginn: „Mig grunaði það…“

Takk Svala… takk fyrir að mölva það sem ég hafði eytt mikilli orku í að byggja upp. Nú þurfti ég að byrja upp á nýtt.

Örstuttu seinna komu skilaboð til mín frá ofangreindum ættingja um að víst væri völlurinn stór. Að Svala hefði sagt það.  Ég spurði hana hvað hún héldi að gæti gerst? Ekkert, var svarið. Nákvæmlega ekkert, svaraði ég til baka. En síðan kom:

„En kannski rænt í versta falli…“. 

Þegar ég las þessi skilaboð, gat ég ekki annað en brosað og sá fyrir mér franska ribbalda taka íslenskan bónda af Héraðinu undir handlegginn og labba með hann út. Bóndinn að sjálfsögðu ekki þegjandi né hljóðalaus. Ég get ekki ímyndað mér að þeim kæmumst langt með hann.

En mér tókst nú samt, að ég hélt, að sannfæra hana aftur um þetta væri bara pís off keik, í mesta lagi.

Tjáði henni að CDG væri bara ýktur og ofmetinn í stærð, að Leifstöð væri miklu flóknari og troðnari (jú hann er troðnari, það eru ekki sæti nema fyrir brot af farþegum) og að Vopnafjarðarflugvöllur væri meira að segja meiri áskorun. Man þegar ég millilenti þar einu sinni í myrkri sem barn og var alveg lost!

Jú jú, ættinginn á efri árunum taldi sig nú spjara sig þangað til ég fyndi hana.

En svo fór hún í bæjarferð og hitti fólk sem sagðist hafa farið í gegnum CDG og aðspurt játti það því að hann væri hjúts og mjög flókinn. Og ættinginn hélt áfram og heldur líklega áfram, fram að brottför að leyta uppi fólk sem hefur reynslu af CDG og segir hann sé hjúts og flókinn. Að hún eigi aldrei eftir að komast út. Aldrei.

Ég býð  bara eftir heyra að einhver dramatíkusinn fyrir austan mæli með við hana að hún horfi á The Terminal með Tom Hanks fyrir brottför. En ekki gera það.

Kæra fólk sem býr í nágrenni við ónefnda ættingjann á efri árunum sem er að fara til Parísar eftir örfáa daga. Stundum má hagræða sannleikanum. Það þarf ekki að fylgja sögunni að CDG sé næst stærsti flugvöllur í Evrópu og að það fari um 66 milljónir manneskja í gegnum hann á ári. Ég meina, það eru 10 milljónum minna en í gegnum Heathrow. Sem sagt bara oggulítill völlur. Og það þarf heldur ekki að fylgja sögunni að mismunurinn á CDG og Leifstöð sé um 60 milljónir. Oft má satt kjurrt liggja.

Þetta verður nefnilega pís off keik.

(Þarna er Aldís stödd á CDG, 14 ára gömul í fermingargjafaferðinni sinni).

Hér er færsla um Parísarferðina fyrir ári síðan.

Hér er færsla um Parísarferðina fyrir rúmlega 7 árum síðan.

2 Responses to “Charles de Gaulle flugvöllurinn er ekki stór. Alls ekki.

  • Guðrún Benediktsdóttir
    7 ár ago

    Þetta verður auðvelt fyrir þá „öldruðu“. Hún hefur ekki spurt mig ennþá , þó er ég búin að fara þarna um „alein“. Njótið samverunnar í París

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *