1. des. -10 ára giftingarafmæli.

Jeminn dúdda mía! Ég hef verið gift Gamla Gaur í 10 ár í dag. Að hugsa sér.

Þessum mikla gleðigjafa, sem gerir líf mitt betra á hverjum degi, virkum sem óvirkum. Ég er svo óendanlega stolt af honum, nei, ég meina, stolt af að vera gift honum, eða stolt af að vera konan hans. Eða kannski stolt af að vera móðir barnanna hans. Eða eitthvað. Var ég annars búin að nefna að hann er gleðigjafi?

Ég man bara ekki hvað maður skrifar meira í svona kveðju eða hvað skal kalla þetta. Þetta er náttúrulega ekki afmæliskveðja en samt svona álíka.

Jú og svo er ég þakklát. Þakklát fyrir að hann umberi tiktúrurnar í mér. Þakklát fyrir að hann skuli alltaf styðja mig þegar mér dettur eitthvað í hug. Þakklát fyrir að hann umberi flakkið á mér og passi hús og hund á meðan. Þakklát fyrir að honum skuli ALLTAF finnast ég fyndin. Þakklát fyrir að hann skuli ALDREI segja: „Nú stopparðu Dagný Sylvía“ eða „HÆTTU Dagný“.

Æ, ég er svo mikill sauður í svona tilfinningabloggi… kann ekkert á þetta. Var ég örugglega búin að segja að Fúsi er gleðigjafi?

Ef ég væri ekki líka sauður í giftingarafmælum og hverskyns hvert væri, þ.e.a.s. efnislega séð, hefði ég keypt eitthvað út tini í París en ég var að koma þaðan. Í staðinn reddaði ég mér og keypti sokka á flugvellinum í Hamburg. Þegar ég keypti sokkana, vissi ég ekki að ég hefði átt að kaupa tin. Ég var bara að gúggla það rétt í þessu. Hvað er annars úr tini? Fingurbjörg? Öngull? Ekki hugmynd. En ég keypti sokka sem eiga að gera fólk hamingjusamara. Fjögur pör í pakka. Læt Fúsa fara í þá alla saman í einu, ef það skyldi dofna yfir honum, kannski þegar ég er í burtu, eða að mér skyldi verða á að stríða honum einum of mikið.

En 10 ár! Hugsið ykkur. En haldið ykkur fast. Í febrúar höfum við verið saman í 25 ár! 25 ár með þessum gleðigjafa.

Ég veit hreinlega ekki hvers vegna ég er að nota þetta orð „gleðigjafi“ því það er ekki ég. Afhverju þarf ég endilega að reyna að vera fyndin og djóka með mikið notað orð sem er fullt af gleði, þegar ég á að vera rómantísk?

Sumt í þessari færslu var bull, sumt ekki. Fúsi veit nákvæmlega hverju hann á að taka mark á.

Fúsi, til hamingju með að hafa verið giftur mér í 10 ár.

Ég smellti í nokkrar selfie af okkur hjónum í tilefni dagsins.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *