Með Fúsa á Írlandi.-4. kafli Og hvað var svo gert?

Við Fúsi fórum í 8 daga ferð til Írlands um daginn. Hversvegna til Írlands? Vegna þess að Fúsa hefur alltaf langað til Írlands og hann mátti ráða. Þá sjaldan. Til að ferðin gleymist ekki, ætla ég að blogga um hana. Írlandsfærslurnar verða kaflaskiptar og algerlega óvíst hversu margir kaflar verða.

1.kafli Gististaðirnir (linkur á bakvið).

2.kafli Flug og bíll (linkur á bakvið).

3. kafli Maturinn (linkur á bakvið). 

4. kafli Og hvað var svo gert? (linkur á bakvið). 

Og hvað gerðum við svo á Írlandi?

Vegna flakks á öðru okkar og tímaleysis, höfðum við voðalega lítið rætt ferðina og skipulagt. Sem er að vissu leyti ekki sniðugt, því það sparar tíma að skipuleggja. Þó, eftirá að hyggja, tókst okkur að nýta tímann vel og voru aðeins ein „mistök“ gerð.

Eins og áður hefur komið fram flugum við til Dublin og var fyrsti áfangastaðurinn Kilkenny. Okkur langaði báðum að skoða helli á Írlandi og það var hellir þarna í nágrenninu. Dunmore cave. Þetta er í annað skiptið sem ég fer í hellaskoðun, fyrra skiptið var svaðilför á Íslandi þar sem sárafáum hellaöryggisreglum var fylgt og eiginlega ætti ég að þakka einhverjum góðum vættum fyrir að vera ekki ofan í hellinum ennþá, fjórum árum seinna.  Í Kilkenny var allt undir kontról. Farið var í hóp með leiðsögumanni, hellirinn skoðaður í frábærri lýsingu, sagan sögð og síðan voru ljósin slökkt og hnausþykkt myrkrið umlukti okkur. Eins og með marga aðra hella úti um allan heim, voru þeir oft notaðir sem felustaður fyrr á öldum. Þessi líka. Þarna fundust hellingur af mannabeinum (aðallega konur og börn) frá Víkingatímanum, en talið er að þau kafi dáið úr reykeitrun þegar Víkingarnir reyndu að svæla þau út.

Ég tók engar myndir þarna ofan í, þar sem ég get bara gert eitt í einu. Þarna þurfti ég að hlusta og horfa, það var meira en nóg.

Á leiðinni til baka til Kilkenny keyrðum við framhjá þessum litla kirkjugarði. Ég nauðhemlaði því ég varð að skoða hann. Ég þrífst alveg einstaklega vel í kirkjugörðum þótt ég sé sprelllifandi.

Engin var kirkjan í nágrenninu og það skemmtilega við þessa byggingu á myndinni fyrir ofan, var að framan á henni stóð gömlum stöfum Handboltahöll. Og að framan var hún klædd með bárujárni. Ég hef alltaf haldið því fram að það sé stórhættulegt að stunda íþróttir, fólk fær iðulega hjartaáföll. Og þarna hafa Írarnir verið sniðugir og haft kirkjugarð beint fyrir aftan handboltahöllina.

Daginn sem við vorum í Kilkenny var einhver spes dagur á Írlandi og því ókeypis inn í allt. Þess vegna fórum við inn í kastalann sem á sína sögu síðan 1195. Þetta svona dæmigerður kastali þar sem maður reynir að ímynda sér lífið á miðöldum og síðan aftur á Victoríutímabilinu þegar allur íburður ætlaði um koll að keyra.

Við fórum líka upp í turn hjá St Canice´s katedralnum sem byggður var á 10. öld.

Turninn var eins og turnar eru, afskaplega þröngur með löngum hringstiga. Allir gestir voru varaðir við fjölda þrepa og þrengslum. Ekki var hægt að mætast og ekki var hægt að taka framúr. Það tók okkur þónokkuð langan tíma að komast upp, því við lentum á eftir konu með óheppilegt BMI í svona turna. Sem var svo sem ekki í frásögum færandi, nema fyrir það að þessa konu sáum við í Galway og í Dublin. Írland er ekki stórt.

Kilkenny bærinn sjálfur er litríkur, fullur af kaffihúsum og veitingarstöðum og skemmtilegum skúmaskotum. Við skoðuðum hann allan held ég.

Við fengum reglulega spurninguna á meðan á ferðalaginu stóð, hvort það væri gott að versla þarna. Við áttum og eigum erfitt með að svara þeirri spurningu þar sem allt sem við versluðum í allri ferðinni hefði rúmast í þessum bleika poka. En þennan dag, þegar myndin var tekin, innihélt hann 6 tækifæriskort og einn pakka af salti. Viltu Atlantshafssalti.

Daginn eftir lá leiðin yfir á Dingle, en áður en við lögðum í hann langaði okkur til að skoða gamlar klausturrústir frá 12. öld, Kells Priory.

Morgunsólin skein svo fallega og við vorum alveg ein þarna á svæðinu, öngvir aðrir ferðamenn. Þarna gátum við aldeilis ferðast aftur í tímann í friði og ró og ímyndað okkur Prior Philip, eina af aðalsöguhetjunum úr bók Ken Folletts, Pillars of the earth. Það var eftir lestur þeirrar tvísögu sem sýki mín í katedrala og klaustur byrjaði.

Þessi skoðunarferð var ein af þeim betri í ferðinni. Kannski vegna kyrrðarinnar.

Já við vorum ein þarna, þangað til við hittum einn fullorðin Íra sem var að snurfusa svæðið og halda því fínu. Hann hataði Ryanair af öllum lífsins sálarkröftum. Hann vildi meina að flugfélagið væri smánarblettur á írsku þjóðinni.

Konan á B&B mælti með að við skoðuðum þessar rústir og einn kastala á leiðinni til Dingle. Rock of Cashel í Cashel.

Rock of Cashel voru mistökin. Allt í einu voru við lent inn í leiðsögn um kastalann og ég fann að ég var orðin kastala, katedrala og rústasödd. Pakksödd.

Yfir til Dingle keyrðum við síðan og það er ekki mikið meira um þann stað að segja en það sem ég skrifaði í þessari færslu.

Frá Dingle lá leiðin að Cliffs of Moher. Þar sem öll ferðamannaaðstaða er til fyrirmyndar. Maður borgar sig bara inn á bílastæði og volla, aðgangur að öllu svæðinu í boði. Við komum þangað í hífandi roki og mígandi rigningu en létum það ekki aftra okkur frá að skoða náttúruundrið.

 

Þar sem ég er svo líf- og lofthrædd, já og veður- og vatnshrædd, þá var ég voðalega fegin að sjá þessa varnar og öryggisgirðinu við hlið göngustígarins á 20m kafla.

Jú og síðan var sauðfjárvarnargirðing hinum meginn.

Ég: „Fúsi, stattu þarna, sittu þarna, vertu þarna…“

Fúsi: „Nei nú nenni ég ekki að vera propsið þitt lengur…“

Ég: „Gengdu bara, það verður að vera fólk á myndunum“.

„Já, farðu lengra niður, já flott…“

Það verður að vera fólk á myndunum. Punktur.

Í Galway skoðuðum við bara bæinn, fórum á örfá kaffihús og veitingarstaði eins og ég greindi frá hér og síðan ég sönglaði Galway girl lagið með Johnny Logan ALLAN daginn, við mikið fögnuð og ákaft klapp Fúsa. Ég gerði líka mitt allra besta til að vera jafn kynþokkafull og heillandi og Johnny Logan og það tókst. Það sagði Fúsi.

Jú, það var líka í Galway sem við versluðum rest; meira salt, smá súkkulaði, ilmkerti með lykt af Vilta Atlantshafinu og fleiri tækifæriskort.

Frá Galway lá leiðin yfir til Dublinar aftur með viðkomu í Brú na Bóinne eða Newgrange. Ég var víst ekki alveg komin með nóg af „gömlu“ en svæðið eru fornleifar frá því 3200 fyrir Krist. Ég hafði ekki kynnt mér þetta neitt sérstaklega og hafði því engar væntingar. Þetta var eitthvað sem Fúsi sagði að við yrðum að sjá og ég geri iðulega það sem hann segir að við eigum að gera. Hann stjórnar mest.

Þegar inn í „grafhýsið“ var komið, steyptist þessi magnþrungna tilfinning yfir mann. Hvað var fólk í gamla daga að spá. Ofboðslegri þekkingu bjó það yfir. Við mælum eindregið með heimsókn á þennan stað, hann er alveg þess virði. Engar myndir voru teknar inni, ég get bara ekki gert margt í einu.

Frá Brú na Bóinne fórum við til Malahide í Snapchat-matarboð eins og ég sagði frá í þessarri færslu. Þar fengum við besta matinn, besta vínið, besti Spotify playlistinn var spilaður og gestgjafarnir voru bestu gestgjafar á Írlandi.

Síðasta deginum í ferðinni vörðum við í Dublin, höfuðborginni sjálfri.

Þótt við séum kornung og fullfrísk, var ekki laust við að það væri komin smá ferðaþreyta í okkur. Hvað áttum við að skoða í Dublin? Veðrið var la la, við nenntum ekki að vera sporty og leigja hjól eða eitthvað álíka, svo við fórum auðveldustu leiðina og keyptum okkur miða í túristastrætó. Þannig gátum áttað okkur á borginni, séð það helsta og farið út og inn hvenær sem var. Við fórum á eitt safn, það var ágætt en ekki eitthvað sem ég mæli eindregið með. Sko ekki það safn. Skilst að við hefðum frekar átt að fara í fangelsissafnið. Temple bar hverfið var mjög skemmtilegt, iðandi líf um miðjan dag á mánudegi, blindafyllerí, djamm og tilheyrandi tjútt. Ekki á Írunum, heldur á ferðamönnunum. En samt gaman að rölta um og sjá.

Okkur fannst Írland í heildina, æðislegt. Það er vinalegt, gestrisið, hreint, ferðamannavænt og fallegt. Verðlagið á mat, gistingu og á ferðamannastaði (eins og í hellinn og Cliffs of Moher) var sanngjarnt. Verðlag á öðru veit ég ekki um.

Við getum vel hugsað okkur að fara aftur til Írlands, en þá yrði meiri viðvera á sama stað, hver sem sá staður yrði.

Kveðja frá Stavanger þar sem snjónum snjóar svo fallega í augnablikinu.

Trackbacks & Pings

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *