Með Fúsa á Írlandi – 1.kafli. Gististaðirnir

Við Fúsi fórum í 8 daga ferð til Írlands um daginn. Hversvegna til Írlands? Vegna þess að Fúsa hefur alltaf langað til Írlands og hann mátti ráða. Þá sjaldan. Til að ferðin gleymist ekki, ætla ég að blogga um hana. Írlandsfærslurnar verða kaflaskiptar og algerlega óvíst hversu margir kaflar verða.

1.kafli Gististaðirnir (linkur á bakvið).

2.kafli Flug og bíll (linkur á bakvið).

3. kafli Maturinn (linkur á bakvið). 

4. kafli Og hvað var svo gert? (linkur á bakvið). 

Hvort sem þið trúið því eður ei, þá var það Fúsi sem lá eins og skata yfir gistimálunum. Við vorum sammála um að búa ódýrt úti á landi og enda á hóteli í Dublin. Þessvegna varð B&B fyrir valinu og ég viðurkenni alveg að ég var örlítið skeptísk og spennt að sjá staðina, vegna fyrri reynslu af B&B í Danmörku og Noregi. Staðirnir þar sem ég hef búið á, hafa verið misjafnir.

Fyrsti staðurinn sem við komum á var rétt fyrir utan bæinn Kilkenny og heitir Newlands Lodge. Þetta var svolítið út í sveit fannst manni þegar við keyrðum að þessu í myrkrinu en húsið blasti við okkur, uppljómað og fallegt.

Á móti okkur tók Mairead, fullorðin kona sem elskar stór gerfiblóm í öllum regnboganslitum og gerðum. Þessi blóm setur hún í gríðarstóra gólfvasa sem síðan setja svip sinn á ALLT húsið. Hún elskaði ekki bara blóm, heldur elskaði hún líka okkur frá fyrstu mínútu. Eða hún lét okkur líða þannig. Herbergið sem við fengum var vel stórt, með frábæru rúmi og mjög fínu baðherbergi. Við sváfum eins og englar.

Daginn eftir fórum við í morgunmatinn, svoldið spennt að sjá á svona B&B stað. Væntingar voru alls ekki miklar. Þegar við komum niður var setið á tveimur öðrum borðum og allir buðu góðan daginn. Mairead kom aðvífandi, spurði hvort við vildum kaffi eða te og hellti í bollana okkar. Og það voru ekki bollar af verri endanum, allt virtist handgert með keramiki og á hverju borði var mismunandi stíll. Borðin voru fjögur í allt. Ég sló út fallega samanbrotinni tauservíettunni minni og væflaðist eitthvað með hana, vissi ekki alveg hvað var í gangi. Bjóst við að við fengum bara seríos eða álíka þurrfóður. En nei, Mairead kom aftur aðvífandi og nú með sitthvoran matseðilinn og rétti okkur. Á meðan við skoðuðum hann, bar hún nýheimabakað brauð og ferskt ávaxtasalat á borð fyrir okkur. Sótti síðan djús líka. Ég sparkaði í Fúsa undir borðinu og spurði hvort við værum ekki örugglega bara B&B? Jú, það hélt hann. Við pöntuðum okkur morgunmat af matseðlinum, hann fékk sér írskan morgunverð og ég fékk mér hafragraut í flóknara lagi. Þegar Mairead hafði tekið við pöntuninni og sent hana inn í eldhús til Jimmy sem var kokkurinn og einnig maðurinn hennar, fannst henni upplagt að kynna gestina fyrir hvor öðrum. Eitt borðið var frá Bandaríkjunum, annað frá Ástralíu og síðan trompið… við frá Íslandi. Henni fannst við stórmerkilegir gestir, hafði aldrei áður fengið Íslendinga í gistingu. Hinum fannst við líka merkileg, eða skrítin, ég átti mig aldrei á hvað það var. En á augabragði beindist athygli þeirra allra að okkur og spurningin hvaðan við hefðum eiginlega flogið, kom fljótlega. (Ekki spyrja mig afhverju). Svarið var frá Hamburg í Þýskalandi sem leiddi til þess að við sögðum þeim að við byggjum í Danmörku. Spurningaflóðinu ringdi yfir okkur og í einu svarinu kom það í ljós að ég ynni í Noregi. Fyrir Ástrala og Kana er ekkert grín að melta þetta.

Þennan dag skoðuðum við hella í nágrenni Kilkenny og bæinn sjálfan.

Kilkenny

Daginn eftir mættum við í morgunmat, pöntuðum okkur af matseðlinum, Fúsi fékk sér eitthvað kjötmeti og ég fékk mér reyktan lax. Til allrar hamingju þurfti ekki að kynna sig aftur því nú þekktumst við gestirnir og því var bara sí og endurtekið spurt hvort dagurinn í gær hefði verið góður og hvort hvert annað hefði sofið vel. Hvort allt væri í góðu og hvenær best sé að sjá norðurljósin.

Þetta persónulega er eini mínusinn við B&B, þ.e.a.s. ef maður er ekki mikið fyrir það og það er ég ekki en læt mig samt hafa það. Fúsa líkaði þetta stórvel og svaraði glaður í bragði öllum spurningunum.

Við vorum sammála um að það yrði erfitt að toppa þessa gistingu og eiginlega synd að við skyldum ekki hafa endað þarna.

Við vorum tvær nætur í Kilkenny og síðan lá leið okkar yfir á Dingle og gistum við aðeins eina nótt þar. Eftir að hafa keyrt meðfram Atlantshafinu, yfir fjöll og á eftir héra, komum við að The Shores Country House í svarta myrkri og líka út í sveit, að okkur fannst. Á móti okkur tók Annette, svo dásamlega elegant og vel snyrt kona sem vildi vita bókstaflega allt um fjármálastöðu Íslands. Hún hafði nefnilega aldrei hitt Íslendinga áður í lifandi persónu og þarna ætlaði hún greinilega að mjólka úr okkur allar þær upplýsingar sem hana fýsti í. Hún fylgdi okkur spyrjandi um inn- og útflutningsmál, inn í stórt herbergi þar sem ég tók andköf. Haldið ekki að rúmgaflinn, skápurinn og annar minni skápur, hafi verið úr massívu tré með útskurði sem minnti á algengt mynstur í katedrölum eða eins og aflöng biskupahúfa, já eða til að einfalda þetta; eyrnamark sem heitir heitir Alheilt. Það hentaði mér, katedralssjúkri manneskjunni. Annette hélt áfram að spyrja okkur um fjármál Íslands, um skattaprósentu, fjármagnstekjuskatt og vísitölu. Ég stóð þarna, eins og álfur úti á grösugum hól, sem langar til að hoppa en má það ekki, samt með ágætis greindarvísitölu samkvæmt fjöldanum öllum af prófum á Internetinu (sem ég hef borgað fyrir í þeirri trú um að þau séu þá marktækari) og það eina sem ég hugsaði um var að fara að hossa mér í katedralsrúminu. Ég nennti ekki að tala um vísitölu. En Fúsi stóð þarna með galopna líkamstjáningu, breitt bros og svaraði öllum spurningum Annette eftir bestu getu. Ég hefði nú bara sagt eitthvað ef ég hefði staðið fyrir þessum svörum. Enda hélt hún áfram að ræða þessi mál. Hún hefur líklega orðið smá skotin í Fúsa, enda þau á sama aldri. Ekki á mínum aldri. Ég vildi byrja að njóta… #njótanjótanjóta. #LÍFIÐVARNÚNA og þarna í þessu katedralsherbergi líka.

Dingle

Rúmið var eins og að sofa í himnaríki í nálægð við Guð. Mig dreymdi að ég væri biskup.

Ég gleymdi alveg að segja að húsið var gullfallegt, sérstaklega að innan, allt tandurhreint, falleg birta og elegantur stíll. Myndirnar á booking.com eru hundlélegar og engin mynd af rúminu okkar, né fallega baðherberginu okkar.

Við fórum niður í morgunmat. Annette tókst að toppa Mairead. Hvernig sem það nú var hægt.

Stuttu eftir að við settumst, komu hjón frá Dallas inn. Hvernig veit ég að þau voru frá Dallas? Nú, því að maðurinn kom inn með stóru fasi, kynnti sig með nafni og hvaðan þau væru. Og svo þið… Allir að kynna sig, það var setið við fjögur borð. Við hin borðin voru Ástralar og Írar. Við þóttum mest spennandi aftur… Ohhhh vá, ICELAND og svo var horft á okkur, brosað og kinkað kolli. Sem mér þótti stórundarlegt, því Írland er eitt það land sem styst er frá Íslandi fyrir utan Grænland og Færeyja. Það er bara eins og skreppa á Djúpavog (að sjálfsögðu frá Egilsstöðum) eins og að fljúga til Írlands.

Þarna var okkur einnig þjónað til borðs, allt á matseðli, drykkjarföngum var helt í glösin og aldrei þurftum við að standa upp. Ég var alveg að fíletta. Þjónninn kemur síðan með girnilega kanilköku og setur á borðbrúnina hjá okkur og ég segi: „Fyrirgefðu, en við vorum reyndar ekki að panta þetta“. „Nei guys, þetta er bara hluti af morgunmatnum okkar“. Það var svo margt gott sem var hluti af morgunmatnum þeirra. Stuttu eftir að kanilkakan kom á borðið, kom bandaríska konan aðvífandi að borðinu okkar og sagðist vilja að fara til Íslands í mars og spurði hvort það væru ekki örugglega norðurljós þá.

„Ha, jú líklega“.

„Great! hvar er best að sjá norðurljósin?“

Konan var með nefrennsli, það lak taumur af glæru hori niður úr nefinu á henni og í átt að kökunni minni. En hún náði að redda því með að sjúga það kröftuglega upp aftur. En horið lét ekki segjast, það vildi niður og vera glassúr á kökunni.

„Hvernig er hitastigið í mars? Hvernig jakka er best að taka með? Er best að horfa eftir norðurljósum á daginn eða á kvöldin? Er kalt á kvöldin?“

Hortaumurinn var á hraðri niðurleið, en konan náði að sveigja honum frá til vinstri (á milli spurningaflóðsis) með handarbakinu. Taumurinn fylgdi með handarbakinu, en þá reyndi hún að temja hann með hægra handarbaki. Hún náði taki á honum, sveigði honum aftur fyrir bak og í damaskusdúkinn á borðinu fyrir aftur. Ég andaði örlítið léttar og varð litið af konunni og sá þá Annette standa og horfa á, skelfingu lostna.

„Do you guys… have some önnur tips um hvað hægt sé að sjá á Íslandi?“

„Hvað með Reykjavík?“

En hortaumurinn átti bróðir sem ákvað að hefna bróður síns og halda uppi heiðri hans. Hann lagðist til atlögu um að vera glassúr á kökunni minni. Þetta skyldi bara takast hjá þeim hortaumsbræðrum.

Konan saug og saug upp í nefið, þurrkaði með handarbökunum til hægri og vinstri og spurði og spurði.

„Eru heitar laugar í Reykjavík?“

„Er miðnætursól í mars?“

Ég sat og starði á hana, Annette stóð og starði á hana og Fúsi svaraði henni samviskulega. Loksins fór hún og mér létti svo mikið að ég fór næstum því að gráta. En nei, þá kom maðurinn hennar hálfhlaupandi að borðinu okkar og spurði: „Do you guys, know Bobby Fisher?“

Ég sá að Annette greip með báðum höndum fyrir andlitið og fór inn í eldhús.

Ég stóð upp og sagði við Fúsa með augnaráðinu að hann yrði að redda sér sjálfur út úr þessu, og fór inn í herbergi.

Hálftíma seinna kom Fúsi glaður í bragði og sagði að það hefði bara verið gaman að spjalla við Kanann um Bobby Fisher. Úr hverju er maðurinn (Fúsi) gerður? Eða er hann of mikið einn heima og þyggur fegins hendi, ALLAR umræður sem hans kemst í tæri við? Veit ekki.

Þegar við komum út um morguninn sáum við að The Shores Country House liggur við hina fallegustu strönd. Við hefðum viljað vera lengur á þessu svæði.

Við vorum bæði sammála um að eitthvert annað B&B myndi nokkurntíma toppa þetta.

Það þarf líklega ekki að taka það sérstaklega fram, en við mælum innilega með báðum stöðunum og er linkur á bak við nöfnin, beint inn á Booking.com.

Í Galway vorum við í tvær nætur, einnig á B&B, sem var mjög gott. Allt var hreint, rúmið gott og morgunmaturinn góður. Þó ekki eins mikill lúxus eins og hinum stöðunum. Konan sem tók á móti okkur var skemmtilega utan við sig, eldrauðhærð með 7cm gráa rót. Það var alveg töff. Hún bauðst til að taka grútskítug og rennandi blaut fötin okkar og gönguskónna og hengja þetta upp til þerris. Þegar við vorum að fara og spurðum eftir fötunum, hafði hún steingleymt þessu og fengum við allt samankuðlað eins og við höfðum rétt henni. Og varð hún alveg ægilega leið. En við þurftum ekki að nota þetta meira í ferðinni og því skipti þetta engu og fyrirgáfum við henni algerlega því hún var svo indæl og utan við sig. Þetta B&B var, held ég, í útkanti miðbæjarins í Galway og stoppaði strætó beint fyrir utan.

Galway

Við ætluðum að enda ferðina á hótelgistinu í Dublin og þar með gera svolítið vel við okkur. Það var versta gistingin þótt hún væri fín. Morgunmaturinn var langverstur og eiginlega, að mínu mati, óætur. Það var þetta dæmigerða slepjulega hlaðborð með tilheyrandi eggjum, pulsum, beikoni, hvítum og svötrum pudding, verksmiðju brauði, óspennandi ávöxtum og allt þar á milli. Þó svo að matur almennt á Írlandi sé mjög góður. Það var á því hóteli sem við heyrðum kallað á Auði. En um það, kemur seinna, í annarri færslu.

Dublin

Það sem við lærðum um gistingar á Írlandi eftir þessa ferð, var að B&B virkar stórvel, sérstaklega úti á landi. Stórvel. Það sem við lærðum líka var að við þurfum að vera betri í að gefa skýr skilaboð. T.d. bara að segja: „Viltu fara frá borðinu mínu núna, svona áður en ég risti þig upp endilanga með kanilkökugafflinum, og sauma þig ekki saman aftur“.

(Myndirnar í færslunni tengjast ekki gististöðunum nema landfræðilega séð).

 

 

 

 

 

 

2 Responses to “Með Fúsa á Írlandi – 1.kafli. Gististaðirnir

  • Árný Hulda
    7 ár ago

    Jeminn hló upphátt ? góða helgi. Kveðja frá Höganäs i Svíþjóð.

  • Þorgerður E.Long
    7 ár ago

    Yndislegt takk elsku Fúsi frændi og Frú þetta var svo mikið skemmtilegt og flott hjá ykkur vel skrifað hló og allan pakkan takk Kveðja frá ODENSVIHOLM Svíþjóð

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *