Með Fúsa á Írlandi – 2.kafli. Flug og bíll.
Við Fúsi fórum í 8 daga ferð til Írlands um daginn. Hversvegna til Írlands? Vegna þess að Fúsa hefur alltaf langað til Írlands og hann mátti ráða. Þá sjaldan. Til að ferðin gleymist ekki, ætla ég að blogga um hana. Írlandsfærslurnar verða kaflaskiptar og algerlega óvíst hversu margir kaflar verða.
1.kafli Gististaðirnir (linkur á bakvið).
2.kafli Flug og bíll (linkur á bakvið).
3. kafli Maturinn (linkur á bakvið).
4. kafli Og hvað var svo gert? (linkur á bakvið).
Vegna hagstæðs flugtíma, völdum við að kaupa miða hjá Ryanair frá Hamburg til Dublin og ekki skemmdi miðaverðið fyrir. Hræbillegt alveg hreint. Þangað til á að fara að kaupa tösku en töskurnar eru u.þ.b. helmingi dýrari en miðinn sjálfur þótt það sé bara 15kg taska. En við þurftum ekki meira en eina 15kg tösku og eina handfarangurstösku (hámark 10kg) því við ætluðum bara að vera í 7 nætur. Við höfum flogið með Ryanair áður og töldum okkur þekkja gildrurnar sem þeir leggja fyrir fólk sem les ekki smáa letrið.
Við Fúsi vorum með allt okkar á hreinu. Þangað til við komum að afgreiðsluborðinu í Hamburg, þá var taskan okkar horfin af miðanum og við látin kaupa nýja tösku.
Hálftíma seinna birtist taskan aftur á miðanum og þá voru tvær töskur á miðanum.Þegar við komum til Dublin fórum við beint að þjónustuborði hjá Ryanair en þeir vildu ekkert við okkur tala, sögðu okkur bara að senda tölvupóst.
Þegar kom að heimferð, eyddum við u.þ.b. þremur klukkutímum kvöldið áður í það að tékka okkur inn. Alltaf kom upp villumelding. Kannski viljandi? Vegna þess að ef maður tékkar sig ekki inn á netinu fyrir ákveðinn tíma, þarf maður að borga tvöfalt miðaverð fyrir að láta tékka sig inn á flugvellinum. Loksins tókst það og við sáum að taskan var með á miðanum. Morguninn eftir, þegar við komum á flugvöllinn, var taskan „horfin“. Við fórum að þjónustuborðinu og hún var svo almennileg stelpan að færa auka Hamburgartöskuna yfir á heimferðarmiðann. Þegar við bentum henni á að við værum enn að borga þrisvar sinnum fyrir töskuna í það heila, í stað tvisvar, gat hún ekkert gert; sagði okkur bara að senda tölvupóst. Sem við erum löngu búin að gera og ekkert heyrt.
En samt var flugið fínt.
Hversvegna er ég svo að segja frá þessu? Jú, til þess að fólk sé með augun galopin ef ferðast er með Ryanair, það er ekkert elsku mamma þar ef þú lest óvart ekki smáa letrið eða það tekst ekki að tékka sig inn á netinu vegna t.d. villumeldingar. Trúið mér.
Við höfðum leigt okkur bíl hjá Avis og þar sem við vorum á bílferðalagi, vildum við ekki dós, við vildum næstum því jeppa ef við skyldum lenda í torfærum eða einhverskonar ófærð.
Breiðan jeppa. Eða breiðan jeppling.
Við keyrðum útúr Dublin og upp í heiði. Leiðin lá eftir gömlum hervegi. Haustlitirnir skörtuðu sínu fegursta og kindurnar jörmuðu í vegkantinum. Og bíllinn fyllti út í allan veginn, að okkur fannst. „Hvernig í ósköpunum áttum við að geta mætt bíl?“ hugsuðum við bæði. En það reyndist mögulegt. Grjótgarðurinn vinstra meginn, þrjá sentimetra frá hliðarspeglinum og vörubíllinn hægra meginn á hvínandi siglingu og eiginlega inn í okkar bíl. Þannig leið okkur. En við sluppum heil.
Hvorugt okkar hefur nokkurntímann verið ragt við að keyra í hinum ýmsu „eðlilegu“ aðstæðum og var vinstri umferðin frekar fljót að venjast. En breidd veganna var annað mál. Hinn almenni vegur á Írlandi er hlykkjóttur, hæðóttur og smellpassar fyrir tvo bíla hlið við hlið. Blindhæðirnar eru tíðar og grjótgarðarnir einnig. Sem gerir það að verkum að þó maður vilji víkja vel, þá er það ekki hægt. Bílaleigan sagði okkur að algengasta skemmdin á bílunum væri að það vantaði vinstri spegilinn á bílinn við skil. Kom ekki á óvart.
Allavega, við skiptumst á að keyra og höfum alltaf gert í okkar sambúð. Hér áður fyrr keyrði ég reyndar meira í útlöndum en Fúsi en það var fyrir tíma GPS. Ég gat ekki verið á kortinu því Fúsi sagði að ég væri ropandi eins og rjúpa… Í minni sveit var þetta kallað bílveiki.
Á Írlandi þurftum við Fúsi að æfa okkur í að keyra hratt, venjulega æfum við okkur í að keyra hægt. Hámarkshraðinn á þessum vegum var 80km/klst. og var víst nýbúið að lækka hann úr hundrað. Þó svo að okkur Fúsa tækist oft að halda þessum hraða (80), nema þegar við mættum bílum…, myndaðist iðulega röð fyrir aftan okkur. Löööng röð þar sem okkur fannst við heyra í þeim: „andskotans túristar…“. Við vorum orðnir lestarstjórar. Tju tju. Við áttum vegina og stjórnuðum umferðinni. Tju tju. En við skiluðum þó bílnum með báðum speglunum á.
Leiðin frá Kilkenny yfir til Dingle var yfir heiðar og í gegnum dali. Veðrið var gott og landið fallegt. Við vorum heldur seinna á ferðinni en ætlunin var, vegna þess að það þurfti að skoða enn einn kastalann og katedralinn. Á ég að segja ykkur svolítið? Þegar við komum til Dublin, tilkynnti ég Fúsa það að ég færi ekki inn í neinn einasta katedral né kastala… ekki að ræða það. Að ég væri búin að fá nóg. Og ég sem hef alltaf verið katedralssjúk.
En já, við komum „of seint“ til Dingle. Við borðuðum í bænum og skoðuðum 37 pöbba af 52. Þeir segja að í Dingle sé einn pöbb fyrir hverja viku og í þessum litla bæ búa tæplega 2000 manns. Hvað eru margir pöbbar á Egilsstöðum?
Síðan keyrðum við fyrir Dingleskagann og þvílík fegurð. Við náðum í skottið á sólsetrinu og áttum bara ekki til orð.
Dingleskaginn var það eina í ferðinni sem við hefðum viljað skoða betur.
Þarna vorum við komin á Villta Atlandshafsveginn og er hægt að sjá 10 sekúnda langt myndbrot af honum í myndbandinu fyrir neðan.
Þarna má keyra á 80km hraða á klukkustund. Sem væri í sjálfu sér í góðu lagi, ef það væru ekki endalausar blindbeygjur og hæðir.
Daginn sem við keyrðum frá Dingle til Cliffs of Moher var mjög lélegt skyggni vegna ausandi rigningar meiri hluta dagsins. Því var lítið að sjá og urðum við því að hafa ofan af fyrir okkur sjálf. Eða ég hafði ofan fyrir Fúsa, svona til að létta honum lundina og stytta stundina.
Örstutt myndbrot af því er hérna fyrir neðan.
(Þegar Fúsi segir „hættu“ í myndbandinu, þá meinti hann „haltu áfram“)
Fúsi skemmti sér konunglega og þakkaði mér kærlega fyrir skemmtilegheitin þegar við komum á áfangastað sem var bærinn Galway. Þar vorum við í tvær nætur og fórum síðan á síðasta áfangastað sem var Dublin.
Þetta var semsagt hringur: Dublin-Kilkenny-Dingle-Galway-Dublin. Eftirá að hyggja, svona þegar litið er í baksýnisspegilinn, hefði ég viljað taka minna svæði fyrir á þessum 7 dögum.
Þrátt fyrir að vegirnir séu mjóir á Írlandi, er gott að keyra þar um. Það er vel skiltað og gríðarlega mikið að sjá.
Við mælum eindregið með bílferðalagi um Írland.
Og ef þið eruð hrædd um að ykkur leiðist, þá er ég alltaf til í að koma með og hafa ofan af fyrir ykkur á milli staða.