Það sem hún sagði.

Einu sinni var ég í bekk með konu og kynntist henni allvel vegna þess að við vorum alltaf samferða í skólann. Þetta var árið 2003-2004.

Konunni fannst mjög gott að fara í göngutúra.

Mér fannst gaman að vera á línuskautum, hjóla, spila körfubolta, fara í sund, fara í rundbold, fara í allskonar leiki, djamma og dansa. Hinn almenni göngutúr var útúr myndinni. Það gerðist ekki jack í göngutúr.

Hún sagði að það væri best að labba á strönd eða á víðavangi í miklum vindi því þá myndi blása í gegnum höfuðið á henni.

Ha? kváði ég.

„Já, vindurinn hreinsar á mér höfuðið, ég er eiginlega aldrei með húfu vegna þess að hún blokkerar“ sagði hún.

Mér fannst þetta nú eitt það vitlausasta sem ég hafði heyrt. Mér leiddist vindur.

Í skólanum stóðum við oft úti í frímínútum vegna þess hve margir reyktu á þessum tíma. Ég reykti líklega eitthvað líka en ekki í skólanum. Alla mína tíð var ég laumureykingamanneskja þangað til ég hætti. Við stóðum oft og tuðuðum yfir vindinum. Konan sagði oft við okkur að hætta að agnúast útí vindinn. Við kynnum bara ekki að meta hann.

 

 

Árið 2013 og árin á eftir fóru að koma allskonar uppákomur og margvísleg verkefni inn í heimilislífið sem áttu það til að fylla höfuðið á mér of mikið. Plássið er nefnilega takmarkað. Árið 2013 kom Vaskur líka inn í líf okkar.  Hann er þannig gerður að hann njörvar niður heimilisdagskrána og henni verður ekki haggað. Hvernig sem stendur á og hvernig sem viðrar, skal hann fara í göngutúr og hann neitar að fara sjálfur. Alveg ótrúlegur þrjóskuhundur. En þetta hefur leitt til þess að undanfarin ár hafa verið farnir óteljandi göngutúrar í allskonar veðrum. Fyrir örfáum árum síðan uppgötvaði ég vindinn og skildi hvað konan í gamla daga var að tala um. Nú kann ég að meta hann. Kaldur vindur er bestur og það allra besta er þegar hann slettir sjónum framan í mig. Þegar laufin eru fallin af trjánum, á vindurinn greiðari aðgang og það er gott.  Í dag fer ég helst ekki með húfu (svo lengi sem hitastigið leyfir) niður á strönd né í Skansana í Dybböl því húfan blokkerar.

Á morgun eru alþingiskosningar á Íslandi. Ef þú lesandi góður, ferð í göngutúr áður en þú kýst, slepptu þá húfunni.

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *