Jólakveðja frá Möllegade.

Kæru lesendur, kæra fjölskylda, kæru vinir.

Hér á Möllegade erum við í rólegheitagírnum. Jólin hafa ekki verið svona fámenn síðan árið 1995, þegar við ákváðum, í einhverju sjálfsstæðisbaráttubulli, að halda jól sjálf. Þá var Aldís 4ja mánaða. Eftir það höfum við að minnsta kosti verið fjögur, en oftast fleiri.

Ég var alveg cool þegar ég kvaddi Aldísi í Hamburg um daginn. Eiturcool og svolítið stolt af henni fyrir að höndla að halda jól „alein“ í útlöndum. Hún er reyndar ekki alein, heldur umvafin fjölmennri tengdafjölskyldu sinni nær og fjær í 9. hverfinu í París. Rétt í þessu var hún að klára vaktina sína á Rose bakary og er í þessum skrifuðu orðum á leið heim á Rue Moncey sem liggur steinsnar frá Moulin Rouge, með metróinum. Guð hvað ég sakna hennar.

Tengdamamma hennar Sylviana, kom henni skemmtilega á óvart í morgun með því að vera búin að hengja jólasokk með hennar nafni á, á arininn.

Í dag og í gær höfum við bara dundað okkur. Fórum í hina hefðbundnu skötuveislu í gær í Sönderborg sem er eitthvað svo mikil sárabót fyrir að vera fjarri fjölskyldunni. Í dag fórum við Fúsi í göngutúr með Vask og lá leiðin í kirkjugarðinn, vegna þess að þegar ég var krakki, var alltaf farið að leiðinu hans afa á Finnsstöðum á aðfangadag og sett kerti. Það gerir maður bara. Þess vegna förum við í kirkjugarðinn og sendum huglæg kerti heim. Svala var að vinna til þrjú, allt í einu eru skólajólafríin forbí hjá börnunum og maður fjötrast ekki vegna sinnar eigin vinnu, heldur annarra. Skrítið.

Kosturinn við að börnin eru orðin svona fullorðin, er að teiknimyndaáhorf hefur að mestu leyti lagst niður. Því hef ég getað hlustað á Rás1 lon og don síðustu daga og tekið langflestar jólakveðjurnar persónulega til mín. Ég hlýt að vera ættingi flestra. Svoleiðis er það á Íslandi. Rás2 hefur fengið að hljóma allan daginn í dag og höfum við notið þess að hlusta á þáttastjórnendur og viðmælendur. Gott fannst mér að heyra að bæjarstjórinn á Ísafirði ætti eftir að skrifa jólakortin, þá er ég ekki ein… Halla Tómasdóttir hefur alltaf eitthvað gáfulegt að segja. Ég vildi að hún væri náskyld frænka mín. 101 árs maðurinn á Neskaupsstað kom bara svei mér þá með jólin. En síðan, í miðjum þættinum hans Guðna Már Henningsonar þar sem hann valdi svo falleg lög og sagði svo skemmitlega frá, kom heimasætan og skipti… yfir á sjónvarpið. Stundum verður maður að sleppa takinu á íslenska útvarpinu þó það rífi nánast úr manni hjartað.

Já, hugurinn er óneitanlega útum allt í kvöld. En mest í París og á Eiðum þar sem mamma heldur jól með Snotru sinni og kettinum Gul.

Kæru þið, nær og fjær. Ég óska ykkur gleðilegra jóla hvar sem þið eruð og njótið hvors annars.

Ást og friður.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *