Vaskur, svona rétt fyrir jól.

Í gær var síðasta jólagjöfin keypt, jólagjöfin handa sjálfum prinsinum. Þar sem hann er frekar klofstuttur, setti ég gjöfina bara upp á bekk og bjóst við að hún væri þar í hvarfi.

En það liðu u.þ.b. 7 mínútur, þá var Vaskur búinn að finna jólagjöfina.

Veiii bolti. Og þar sem Vaskur er með þroska á við krakkagemling, þá vildi hann fá boltann núna. Gat ekki hugsað sér að bíða í eina sekúndu, hvað þá í tvo daga.

Vaskur er að mörgu leyti vel upp alinn og fer aldrei með lappirnar upp á bekk, reynir t.d. aldrei að stela mat af bekknum. En sjálf jólagjöfin 2017 uppi á bekk var of freistandi.

Vaskur elskar gjafir og kann að opna pakka. Hann veit líka að það þarf að bíða þangað til sagt er gjörrsvovel. Um daginn, þegar við héldum litlu jólin á meðan Aldís var hérna hjá okkur, voru opnaðir tveir pakkar. Þegar Vaskur sá hvað var í gangi, laumaðist hann undir tréð, náði sér í einn pakka og byrjaði að opna hann í rólegheitunum. En þar sem hann er bara á fimmta ári og því ílllæs, áttaði hann sig ekki á að hann var að opna pakka til Fúsa frá tengdamömmu. Mjúkan í þokkabót. Ekki það mest spennandi fyrir 4ja ára gemling.

Ég vildi ekki kvelja hundinn meira með því að hafa gjöfina fyrir augunum á honum og ákvað því að pakka henni snöggvast inn.

„Þú ert að djóka…“ hugsaði Vaskur. „Má ég í alvöru ekki leika með boltann núna?“

„Nei“ svaraði ég. „Þú verður að bíða eins og annað heimilisfólk“.

Ég sá vonbrigðin í augunum og fann til með honum. Ég þoldi líka ílla biðina þegar ég var yngri. Held að það séu um fjögur ár síðan ég hætti að kíkja í pakkana.

En rétt skal vera rétt. Jólagjöfinni skyldi pakkað inn, hvort sem Vaski líkaði betur eða verr.

Hann reyndi að hindra innpökkunina með því að ýta pappírsrúllunni útá gólf, mögulega hefði rúllan þá týnst undir borðinu og þá hefði gjöfinni ekki verið pakkað inn. Og þá hefði allt orðið gott og skemmtilegt.

En ekki heimsendir eins og var í aðsigi.

Vaski fannst þetta verra heldur en ef tívolíbomba hefði verið sprengd í loft upp úti á götu fyrir utan húsið okkar. Eiginlega eru flugeldar þar versta í heimi að hans mati. Hann var ekki fæddur í gær og því með hellings hundsvit. Hann veit að flugeldar eru stórhættulegir og hrikalega óumhverfisvænir. Hann veit að fólk getur dáið vegna flugelda, eða misst sjón, heyrn eða hendur. Honum finnst sóðalegt að fara í göngutúr um annars fallega bæinn okkar þann 1. 2. 3. 4. 5. og jafnvel 6. janúar því allt er í drasli úti um allt. Vaski finnst að það eigi að leggja niður flugelda. Allavega í höndum almennings sem skýtur þeim bara upp í allar áttir og lætur svo ruslið liggja fram undir vor. Ég er honum algerlega sammála.

Vaskur setti báða hnefana í borðið og mótmælti innpökkuninni með ámátlegu ýlfri.

Örvæntingin helltist yfir hann og reyndi hann eftir bestu getu að koma í veg fyrir þessa fáránlegu aðgerð.

 

 

Ó nei, ó nei.

En þó var bót í máli fyrir Vask, að hann var ekki ávíttur fyrir að fara með framhlutann upp á borð. Ég bara fékk það ekki af mér, vitandi að sál hans þjáðist.

Þegar jólagjöfinni hafði verið pakkað inn, leið honum aðeins betur, því þá „sást“ hún ekki.

Því fylgdi hann henni yfirvegaður undir tréð og aðstoðaði mig við að leggja hana á góðan stað. Einhversstaðar þar sem hún myndi ekki rúlla út á gólf og freista hans. Síðan sagði ég „nei“ og síðan hefur hann látið hana vera, fyrir utan að þefa einstöku sinnum af henni.


Mig grunar að sum ykkar trúa mér ekki hvað varðar gáfur Vasks og finnst ég persónugera hann í meira lagi. En ég segi það satt, allt í þessari færslu er samkvæmt sannleikanum, ólíkt mörgum öðrum færslum.

 

One Response to “Vaskur, svona rétt fyrir jól.

  • Sigrún
    7 ár ago

    Ég verð að fara að hitta hann. Finnst ég þekkja hann svo vel en hef samt ekki komist í að knúsa hann. Gleðileg jól til ykkar allra 🙂

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *