Af Sörubakstri með rommi

Eftirfarandi skilaboð sendi ég til Fúsa 13. desember, daginn sem ég flaug heim í jólafrí:

„Fúsi minn, manstu þegar ég sagðist ætla að baka Sörur um leið og ég kæmi heim? 
Því miður var næturvaktin með þyngra móti, og nú er seinkun hérna í Sola svo að ég verð kannski ekki alveg í standi til að baka Sörurnar í kvöld. Þess vegna er mikilvægt að þú gerir það því það verður að gerast í dag. Sama hvað. Uppskriftin er í litlu uppskriftarbókinni frá Rakel en bættu endilega góðum dassi af rommi í 75% af kökunum og skreyttu þær aðeins svo að ég þekki mínar frá þínum. 
Hlakka til að hitta ykkur öll og borða Sörur með ykkur í kvöld ??“

Ég ætlaði náttúrulega að senda þessi skilaboð sem einkaskilaboð en tæknitröllið ég, setti þau á tímalínuna hans á Facebook.

Alla leiðina heim hugsaði ég um Sörurnar sem biðu mín og þegar Alsie Express (flugfélagið) spilaði „Driving home for christmas“ með Chris Rea, fór ég næstum því bara að gráta.

En þegar heim var komið, voru engar Sörur, hvorki í frystinum né í bígerð. Það hafði víst ekki hvarflað að honum að gera Sörur. Ó mig auma.

Síðan hófst þessi þétta desemberdagskrá sem ég greindi lauslega frá í síðustu færslu. Öllu skyldi náð þennan stutta tíma sem fjölskyldan var sameinuð. Mér gekk erfiðlega að finna lausa stund til Sörubakstursins og örvæntingin magnaðist sem og pirringurinn og svekkelseð. Jólin koma nefnilega ekki ef það eru ekki gerðar Sörur. Guð skapaði Sörurnar og María bakaði þær. Jesús fæddist á jólunum og áður en hann tók tennur, var hann byrjaður að háma í sig Sörur. Enda samkvæmt heimildum var hann í feitara lagi sem fullorðinn maður þótt hann sé sýndur spengilegur á málverkum, en það eru bara málverk og því síður sannleikur.

En síðan á mánudagskvöldið læddust feðginin út. Ég var bókstaflega skilin eftir heima því ég er álíka óvelkomin með á Star Wars í bíó og á aðventukransagerðarviðburð. En það er mér að kenna. Ég hef rembst við Star Wars brandara eins og rjúpa við staur frá því ég var unglingur og engum hefur fundist þeir fyndnir. Bæði afþví að þeir hafa verið glataðir og vegna þess að maður segir ekki hvaða brandara sem er í hvaða aðstæðum sem er. Reyndar hitti ég stöngina inn um daginn þegar ég kom heim frá París og færði Fúsa gjöf (þið vitið, svona eins og maður gerir þegar maður fer til útlanda). Ég gaf honum smokk.

Hahahahah, þetta fannst mér alveg bráðfyndið. Vitandi að lykkjan væri að fara… Já, þessi gjöf hitti svo sannarlega í mark, að mínu mati.

En að Sörunum aftur, það var í rauninni ekki ég sem vildi gera Sörur, það bara varð að gera Sörur. Og áður en Fúsi fór í bíó, blikkaði hann mig og sagði með svipnum: „Þú verður svo búin að gera Sörurnar þegar við komum heim…“.

Og ég hófst strax handa. Eins og ég er vön. Leyndardómur farsæls hjónabands er að staldra við og spyrja sjálfa sig eftirfarandi spurningar: Myndi ég vilja vera gift sjálfri mér? Og svarið er í mínu tilfelli. Vegna þess að þegar Fúsi segir mér með svipnum að gera Sörur, geri ég Sörur. Ég geri hann hamingjusaman. Held ég. Þessi litla klausa í síðustu færslu um ég ráði öllu (í borgarferðum t.d.) var bara bull, eins og svo margt annað sem ég læt út úr mér svona dagsdaglega. T.d. eins og þessi gamla færsla um verslunarferð í H&M, auðvitað teymdi ég hann ekki í slaufur um alla búð, hefði aldrei hvarflað að mér… ekki heldur að stjórnast svona í honum hvað varðaði buxnakaup.

Annars vorum við hjónin í Bilka í dag (stærsta Kaupfélaginu í bænum) og gengum á eftir pari.

Maðurinn sagði: „Hey, hérna eru servítettur“.

Konan: „Nei, þetta eru jólaservíettur“.

Hann: „Skiptir það nú einhverju máli???“

Hún gargaði yfir allt Kaupfélagið: „JÁ, ÞAÐ SKIPTIR MÁLI! Okkur vantar áramótaservíettur!“

Síðan gekk hann álútur á eftir henni.

Fúsi sagði: „Sérðu, þarna er hún bara búin að yfirtaka lífið hans“.

Síðan bætti hann brosandi við: „Það er gott að þú ert ekki svona stjórnsöm og smámunasöm“, síðan tók hann utan um mig og kyssti mig á hárið fyrir ofan eyrað (æ, þið vitið, svona eins og þeir gera í sjónvarpinu í rómantísku jólamyndunum).

Aftur að Sörugerðinni, ég viðurkenni að ég var smá spæld að vera skilin eftir heima með hundinum til að gera Sörur. Svo lélegir hafa Star Wars brandararnir mínir þó ekki verið.

En mér gekk ágætlega. Ég vildi hafa romm í mínum Sörum svo að ég setti slatta af Zacapa Solera Gran Reserva 23 rommi í þær og við það urðu þær svolítið fljótandi. En alveg fínar samt. Ég þarf líka að klára flöskuna sem ég á, sem allra fyrst til að geta keypt mér uppáhaldsrommið mitt. Ég er nefnilega farið að spá mikið í mínímalístískum lífstíl og eitt af því sem ég þarf að venja mig á, er að klára hlutina, ekki bara kaupa og kaupa ofan í það sem hálfklárað er. Það gengur ágætlega, flaskan sem var eiginlega full á mánudaginn, er núna að verða hálfnuð. En Sörurnar eru eitthvað grunsamlegar, ég nefnilega steingleymdi að það ætti að frysta þær og setti þær því bara inn í skáp.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *